Skip to main content

Þó mjög margt miður megi segja um hið fallna flugfélag Iceland Express þá er ein einasta ástæða til að syrgja að það sé ekki enn starfandi. Síðan það var keypt hefur Íslendingum nánast aldrei boðist flug undir tíu þúsund krónum.

Hvers vegna sjást aldrei svona tilboð lengur?

Hvers vegna sjást aldrei svona tilboð lengur?

Skammtímaminnið er svikult í nútímamanninum enda að ýmsu að hyggju og alltaf vex verkefnafjöldinn þó öll tæknin eigi að heita að létti lífið. Í mörgum tilfellum er það þveröfugt því upplýsingaflæðið og áreitið er svo mikið að íslenskir fjölmiðlar komast upp með að fjalla um sömu málin nánast árlega og allir halda að um nýtt efni sé að ræða í hvert sinn.

Þó aldrei hafi það verið reglulegt þá bauð Iceland Express æði oft flug aðra leið til Evrópu á verði undir tíu þúsund krónum. London á 6.900, Köben á 8.900 og af og til meira að segja flug til Alicante fyrir tíu til ellefu þúsund krónur.

Hvernig ætli standi á því að slík fargjöld hafa horfið eins og dögg fyrir sólu eftir að Iceland Express hvarf út í algleymið?

Wow Air hefur okkur vitandi aðeins einu sinni boðið flug undir tíu þúsund krónum eftir að Iceland Express fór fyrir lítið og jafnvel þá flaug það tilboð upp í þrettán þúsund með einni tösku.

Eflaust má færa rök fyrir að of lágt verð hafi kannski stuðlað að falli Iceland Express en engu að síður atti félagið kappi við Icelandair um átta ára skeið með bærilegum árangri.

Nei, lággjaldaflugfélagið Wow Air, flugfélag fólksins svokallaða, er oftar en ekki að auglýsa tilboðsfargjöld frá 13.895 krónum eða 15.895 krónum aðra leið og þá án farangurs. Samt hefur fjöldi ferðamanna til Íslands vaxið mikið og hratt og ekki er eldsneytisverði heldur um að kenna því verð á flugvélaeldsneyti, dýrasta kostnaðarlið flugfélaga, hefur að mestu hangið í sama farvegi undanfarna tólf mánuði samkvæmt IATA. Þá sýna kannanir Fararheill aftur og aftur að Wow Air er á stundum að selja sæti á hærra verði en Icelandair.

Slík lág fargjöld má þó finna víða sé farið yfir til Evrópu. Með góðum fyrirvara má finna fargjöld vel undir tíu þúsund krónum hjá velflestum lággjaldaflugfélögum álfunnar. Ryanair er ennþá annars lagið að selja fargjöld á eitt pund og easyJet hefur boðið okkur Íslendingum fargjöld til Luton og Bristol kringum sjö til átta þúsund krónur undanfarna mánuði. Svo er það Primera Air. Það flugfélag býður nokkuð reglulega fargjöld frá 9.900 krónum.  Og Primera, ólíkt Wow Air, auglýsir sig ekki sem sérstakt lággjaldaflugfélag.