Tæplega níu klukkustunda flug er varla á óskalista nokkurs lifandi manns. Eins gott að í svo löngu flugi sé ærið pláss til að teygja úr sér og jafnvel spássera um reglulega til að fá blóðið á hreyfingu, þjónusta sé fyrsta flokks og nóg af afþreyingu til að stytta stundirnar. Ekkert ofantalið var í boði í vél Wow Air frá Keflavík til Los Angeles fyrr í vikunni.

Flugvefurinn Flightradar24 skýrir frá því að Wow Air Skúla Mogensen hafi að öllum líkindum sett met á þriðjudaginn var þegar flugfélagið skaut farþegum sínum frá Keflavík til Los Angeles í mjóþotu af gerðinni Airbus A321neo. Aldrei áður hefur þeirri tegund farþegaþotu verið flogið svo langt.

Allra mesta flugdrægni þessarar tegundar véla er 7400 kílómetrar samkvæmt vef Airbus svo ljóst má vera að Wow Air hefur verið að taka pínu séns. Aðeins 460 kílómetrar upp á að hlaupa ef eitthvað bjátaði á.

Sem góðu heilli gerði ekki en það breytir ekki því að þetta er metflug af þeirri ástæðu einni að engu öðru flugfélagi dettur í hug að bjóða farþegum sínum upp á slíkt langflug í rellu sem er þrengri en nýjustu gallabuxur frá Levi´s. Allra síst þegar pláss til spásseringa er ekkert, afþreying engin og sopi af vatni kostar fleiri hundruð krónur.

Er svo furða að flugfélagið fái falleinkunn á falleinkunn ofan á velflestum samfélagsmiðlum…