B orgin á sléttunni er hún kölluð Winnipeg, þessi 700 þúsund manna borg í Manitóba fylki í Kanada en fylkið atarna er líklega þekktast fyrir að vera mekka þeirra þúsunda Íslendinga sem á árum áður tóku sig upp frá Íslandi og héldu vestanhafs. Héraðið er að frátöldum bænum Torrevieja á Spáni sennilega eini staður á jarðkringlunni þar sem hægt er að tala um Íslendinganýlendu.

Winnipeg er bæði stærsta borg héraðsins og höfuðborg og hún varð eingöngu að veruleika vegna miðlægrar staðsetningar hennar fyrir þá hundruð þúsunda landnema sem hingað komu á nítjándu öldinni. Sést það í raun enn þann dag í dag því götuskipulag elsta hluta borgarinnar tók mið af þeim stígum sem hér mynduðust með streymi landnema á svæðinu. Er þess vegna elsti hlutinn töluvert hlykkjóttur.

Borgin var um tíma miðpunktur Kanada eftir mikið uppvaxtarskeið snemma á 20. öld en síðan hefur hallað nokkuð undan fæti. Hún er þó þrátt fyrir allt merkilega lifandi og skemmtileg og undir það taka velflestir sem hana sækja heim.

Ástæða þess að hér mættust veiðimenn, landnemar og þeir sem freista vildu gæfunnar áður fyrr skýrist af því að hér mætast árnar Red og Assiniboine og mynda hálfgerðan gaffal í miðri borginni. Við ármótin er elsti hluti borgarinnar og sá staður sem ferðamenn sækja mest í að skoða.

Best af öllu er sennilega að Winnipeg er ekki mikil ferðamannaborg og heimamenn taka því enn ákaflega vel á móti þeim sem hingað leggja leið sína. Það verður hins vegar að viðurkenna að borgin er ekki sérstaklega rík af forvitnilegum hlutum.

Loftslag og ljúflegheit

Eins og þeir þekkja sem hafa heimsótt svæðið áður eða lesið í þaula bækur um Íslendingana sem hér settust að í fyrndinni þá eru moskítóflugur töluvert vandamál hér. Yfir hásumarið er á svæðum varla líft fyrir þeim andskota og þar sem raki er mikill og hitar miklir er í raun ekki mjög sniðugt að heimsækja Winnipeg yfir sumarmánuðina.

Mun þægilegra er að fara í apríl, maí eða september því þá er hitinn orðinn lægri og flugudjöflarnir færri. Hér verður mjög kalt eftir september og fram í mars og er ekki óalgengt að frostanætur fari niður í mínus 20 gráður.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur borgarinnar heitir hinu þjála nafni Winnipeg James Armstrong Richardson og er skammt frá borginni í um átta kílómetra fjarlægð. Var þetta fyrsti alþjóðaflugvöllur Kanada þegar hann opnaði árið 1928 en hefur eðli málsins samkvæmt verið uppfærður og endurbyggður að öllu leyti síðan. Hann er ekki ýkja stór á alþjóðamælikvarða og lítið vandamál að rata um hann. Völlurinn er að öllu leyti reyklaus.

Til og frá borginni er komist á fimm vegu. Strætisvagnar, rútur, leigubílar, skutlur og bílaleigubílar eru til reiðu á flugvellinum og ferðin tekur milli 15 og 20 mínútur.

Ódýrasta leiðin er með strætisvagni númer 15 sem fer frá vellinum á 20 mínútna fresti og niður í miðborg. Fargjaldið er 270 krónur og verður að vera með nákvæma skiptimynt.

Með leigubíl má gera ráð fyrir að borga 2.400 krónur í miðborgina plús aukagjald fyrir töskur. Í stöku tilfellum eru limósínur jafnvel ódýrari en það en slíkar er einnig hægt að leigja á flugvellinum. Gera má ráð fyrir rúmlega þrjú þúsund krónum í slíkan rúnt en þó er hægt að prútta ef sá gállinn er á fólki að flugferð lokinni.

Bílaleigur eru hér og Winnipeg er vel fær ókunnum bílstjórum án mikilla vandræða.

Samgöngur og snatterí

Þó borgin sé ekki ýkja fjölmenn er hún afskaplega hefðbundin amerísk borg að því leyti að hér miðast allt við einkabílinn. Hún er afskaplega dreifð og tíma getur tekið að fara um hana. Þá er kostur fyrir þá sem eru á einkabílum eða bílaleigubílum að stæði er tiltölulega auðvelt að finna og gjöld fyrir stæðin ódýr.

Þó er það staðreynd hér sem víðast hvar annars staðar að það sem heillar ferðamenn almennt í borginni er innan göngufæris í miðborginni. Segja má gróflega að í 20 mínútna radíus frá miðbænum megi sjá allt sem sérstakt þykir í Winnipeg. Er þá miðað við rólegan göngumáta. Í hluta miðborgarinnar er hægt að komast spottakorn með brúm og göngum án þess að fara út fyrir dyr og það getur verið ágætt sé ferðast hingað að vetrarlagi enda fjandi kalt hér þá.

Strætókerfi borgarinnar, Winnipeg Transit, er með ágæta þjónustu í og við miðborgina en vilji fólk fara lengra og jafnvel skoða úthverfi vandast málið. Eru vagnar þangað mun færri og stopulli. Þekki menn nákvæmlega götuheiti er fínt að nota ferðaskipuleggjarann á vef Winnipeg Transit til að auðvelda sér ferðir. Öll stök fargjöld kosta 270 krónur og verður að hafa nákvæma skiptimynt séu miðar keyptir um borð. Börn og unglingar greiða þó aðeins 220 krónur.

Til umhugsunar: Biðja skal um transit miða þegar strætómiðinn er keyptur. Aðeins sá miði gefur leyfi til að nota samgöngukerfið ótakmarkað í 90 mínútur á einum og sama miðanum.

Í borginni yfir sumartímann fara þrír ókeypis vagnar um miðborgina. Þetta eru þó ekki vagnar á vegum borgaryfirvalda heldur verslana en er ágæt leið til að valhoppa um miðbæinn þegar fætur verða þreyttir án þess að punga út pening í hvert sinn. Þeir vagnar kallast Spirit og eru allir fagurlega skreyttir ólíkt hefðbundnum vögnum. Meira um þá hér.

Leigubíla má finna víða í borginni. Startgjald þeirra er 490 krónur.

Söfn og sjónarspil

>> Gafallinn (The Forks) – Eitt allra vinsælasta stopp ferðamanna sem og bæjarbúa sjálfra er Gafallinn sem svo er kallaður. Er það stór markaður í gamalli sögufrægri byggingu sem eitt sinn var hesthús. Fjölmargir matsölustaðir og mikið úrval minjagripa hvers kyns má finna hér. Yfir sumartímann stækkar markaðurinn út á nærliggjandi götur og skapar mikið og skemmtilegt mannlíf. Sé fólk á ferð á veturna er hér starfrækt stærsta skautasvell heims. Opið daglega milli 9 og 20 en þó misjafnt eftir verslunum.

>> Konunglega myntframleiðslan (Royal Canadian Mint) – Fyrir aurasálir er þetta fínt stopp því hér eru framleitt allt það klink sem Kanadamenn nota og gott betur því mynt 60 annarra ríkja er einnig framleidd hér. Hægt er að fá fínan túr um svæðið og sjá hvernig framleiðslan gengur fyrir sig. Eðli málsins samkvæmt er einnig hægt að versla hér myntir ýmsar sem safnarar gætu haft gaman af. Safnið stendur við Granville stræti og er opið allt árið þriðjudaga til laugardaga 9 til 17. Aðgangseyrir 550 krónur en 350 fyrir unglinga og börn. Heimasíðan.

>> Sögusafnsvæðið (Exchange District National Historic Site) – Hjarta miðborgar Winnipeg er þetta svæði sem nær yfir 20 götur í elsta hverfi borgarinnar. Hér eru meira eða minni öll listhús borgarinnar á einum bletti, leikhús, matsölustaðir og aðrar mikilvægar menningarstofnanir. Svæðið er auðþekkt af arkitektúrnum sem það einkennir enda ekki í stíl við nútímann. Hér er meðal annars gamla markaðstorgið þar sem landnemar, eflaust nokkrir íslenskir þar á meðal, komu saman með vörur sínar og skiptu eða seldu.

>> Frumbyggjasetrið (Aboriginal Centre) – Eins og nafnið gefur til kynna er hér og var miðpunktur frumbyggja Alberta héraðs. Þetta er nú samkomustaður afkomenda frumbyggja landsins og að hluta safn frumbyggjum til heiðurs. Ekki kannski frámunalega skemmtilegt en forvitnilegt. Vænlegt er að skoða heimasíðuna með tilliti til atburða sem á stundum taka stað hér. Heimasíðan.

>> Löggjafarbygging Manitóba (Manitoba Legislative Building) – Önnur bygging sem er ekki frámunalega merkileg nema fyrir þá sök að á toppi þessara er að finna hinn gullslegna dreng, Golden boy, sem er að líkindum þekktasta tákn Winnipeg. Er styttan sú tæplega sex metra há og ákaflega falleg. Byggingin sjálf er einnig falleg.

>> Manitóba safnið (Manitoba Museum) – Glæsilegasta og vinsælasta safn borgarinnar er þetta hér sem fengið hefur allmörg verðlaun fyrir hönnun og forvitnilega muni. Hér er enn meira af sögu bæði borgarinnar en ekki síður fylkisins. Níu mismunandi sýningar á 68 þúsund fermetrum undir einu þaki. Hér eru ekki bara myndir og dauðir hlutir heldur og eftirgerðir í fullri stærð og lýsingin þannig að gamli tíminn verður lifandi. Afar fróðlegt. Safnið stendur við Rupert Avenue út af Maine stræti. Opið 11 til 16 virka daga nema mánudaga og 11 til 17 um helgar. Aðgangseyrir 1.700 krónur. Heimasíðan.

>> Manitóba barnasafnið (Manitoba Children´s Museum) – Sem betur fer ekki safn barna heldur fyrir börn og það ansi fjörlegt og skemmtilegt. Ýmis tæki og skemmtilegheit sem með einhverjum hætti tengjast mörg sögu Kanada eða borgarinnar. Safnið er hluti af Forks markaðnum. Miðaverð misjafnt eftir tækjum. Heimasíðan.

>> Listasafn Winnipeg (Winnipeg Art Gallery) – Safnið sjálft hýst í fallegri byggingu í miðborginni og verkin fyrst og fremst eftir listamenn frá héraðinu og Kanada þó finna megi alþjóðlegri nöfn innan um. Elsta listasafn landsins. Það stendur við Colony stræti steinsnar frá öllum helstu hótelum. Opið þriðjudaga til sunnudaga milli 11 og 17. Miðaverð 1.100 krónur. Heimasíðan.

>> Assiniboine garðurinn (Assiniboine Park) – Þessi garður er iðandi af lífi yfir sumartímann enda vinsælasta stopp heimamanna. Í honum er meðal annars að finna dýragarð, enskan og franskan blómagarð og skúlptúragarð svo fátt sé nefnt. Líf er hér líka á veturna en þá er þetta vinsæll skíðagöngustaður og tjörn ein í garðinum breytist í skautasvell. Afar frískandi að kíkja hingað eftir langan skoðunardag. Garðurinn er aðgengilegur frá Corydon breiðgötunni. Opinn allt árið og ókeypis inn. Heimasíðan.

>> Dómkirkja heilags Boniface (St.Boniface Cathedral) – Veigamesta kirkjan í borginni er þessi hér í franska hverfinu. Upprunalega kirkjan brann til grunna en sú sem endurbyggð var er tignarleg og verð skoðunar. Þá er og fróðlegt að labba um kirkjugarðinn við kirkjunar því þar fara leikhópar gjarnan með sögur og sýningar byggt á ævi þekktari manna sem þar liggja.

Hátíðir og húllumhæ

  • Winnipeg Fringe Theatre Festival er önnur stærsta tilraunaleikhússhátíð í álfunni og þangað koma leikhópar hvaðanæva að úr heiminum og setja misfróðlega hluti á svið. Sú hátíð er haldin í júlí ár hvert. Meira hér.
  • Öllu fróðlegri er menningarhátíðin Folklorama sem fram fer í ágúst í heilar tvær vikur í senn. Þar leiða saman hesta sína menningar og listahópar víðs vegar að og fjölmörg atriðanna fara fram á götum úti. Meira hér.
  • Þá fer í Winnipeg fram stærsta vetrarhátíð Kanada. Sú kallast Le Festival du Voyageur og stendur í tíu daga í febrúar ár hvert. Þá minnast menn vetrarins og þess sem hann gefur og gaf áður fyrr. Götur lýstar upp í franska hverfinu og fjölmargt athyglisvert í gangi. Ómissandi ef einhver er á ferð hér í þeim tíma. Meira hér.
  • Stærsta spilavíti í vesturhluta Kanada er hér í borginni. Club Regent Casino er stórfínt fyrir fjárhættuspilara og reyndar skoðunar virði fyrir aðra því hér er til dæmis hæsti innanhúss foss í veröldinni og stórt sædýrasafn hér líka. Þá fara fram hér reglulega tónleikar þekktari tónlistarmanna. Meira hér.

Verslun og viðskipti

Íslenska krónan stendur sig bærilega úti í Winnipeg. Verðlag er almennt dýrara en til að mynda í Orlando í Flórída en nógu lágt til að hægt sé að fata sig upp og njóta veitinga án þess að gera tólf mánaða kreditkortasamning.

Fyrir hefðbundna minjagripi og muni tengda borg og landi er ekkert sem jafnast á við Forks markaðinn. Þar er líka ógrynni annarra vara til sölu

Fyrir allt annað sem hugur girnist er Corydon breiðgatan full af verslunum sem Íslendingar þekkja mætavel annars staðar frá. Sömu sögu er að segja af Osborne stræti sem einnig er í miðborginni. Þar er gnótt tískuverslana og glingurbúlla af ýmsu tagi. Það svæði er sérstaklega vinsælt meðal yngri kynslóðanna. Þá er líklegt að kaupóðir finni eitthvað fínt í Portage breiðgötunni sem einnig er miðsvæðis. Þá má gera ágæt kaup í ýmsum vörum í franska hverfi borgarinnar, St.Boniface, sem er að mati ritstjórnar Fararheill fjörlegasta hverfið til þess arna.

Þar sem þetta er Kanada er hér enginn skortur á verslunarmiðstöðvum. Þær helstu eru:

Þegar þetta er skrifað eru engar alvöru útsöluverslanir, outlets, í eða við borgina. En samkvæmt blaðafregnum er verið að reisa outlet miðstöð í Winnipeg. Sú opnar þó ekki fyrr en að þremur eða fjórum árum liðnum.

Djamm og djúserí

Winnipeg fær prik í kladdann fyrir ágætt næturlíf sitt og ekki skemmir að borgarbúar eru mun slakari gagnvart ferðafólki en gerist í stærri borgum Kanada og víðar. Hér er leikur einn að kynnast fólki og það er jafnan forvitið um fölbleika Íslendinga.

Margir staðir eru góðir til brúksins og of margir til að telja upp en mælt er með St. Boniface hverfinu franska því þar er töluvert af bæði góðum matsölustöðum en ekki síður vinalegum börum og klúbbum.

Fylgjast má vel með öllu sem gerist í borginni að næturlagi á þeim margverðlaunaða vef Winnipegnightlife.ca.

Líf og limir

Sem endranær er ávallt sterkt að hafa heilbrigða skynsemi með á ferð um borgina. Ekki er laust við útigangsfólk og fíkniefnaneytendur á vappi á vinsælum svæðum og það getur farið fyrir brjóst sumra.

Borgin er heldur ekki laus við smáþjófa og hér hverfa veski og símar sem dögg fyrir sólu ef því er að skipta. Að öðru leyti er óhætt að njóta lífsins því alvarlegri glæpir eru hér fátíðir og hending ef ferðamenn verða fyrir slíku.