Tíðindi

Túnis örugg og sannarlega ódýr

  25/02/2012desember 22nd, 2013No Comments

Áður en hugrakkur ungur götusali í borginni Sidi Bouzid kveikti í sjálfum sér í desember 2010 til að mótmæla harðræði stjórnvalda kom hartnær helmingur allra gjaldeyristekna Túnis frá ferðamönnum sem hafa um árabil notið stranda og gestrisni íbúa landsins.

Í dag, rúmu ári síðar, bólar lítið á ferðamönnum sem enn virðast óttast uppþot og læti í þessu ríki sem leiddi hið arabíska vor eins og það var kallað. Sem er dálítið merkilegt því ekki hefur verið neitt um vandræði síðan stjórnvöldum var steypt af stóli í byrjun síðasta árs og hafi menn hug á hræbillegu fríi á þessum síðustu og verstu er Túnis ákjósanlegur áfangastaður. Ekkert ríki varar þegna sína lengur við ferðalögum á svæðið.

Það er sem sagt hægt að verða sér úti um dágott frí á lágmarksverði í Túnis sökum þess að ferðamenn hafa ekki komið að nýju eftir uppreisnina og hótel og forvitnilegir staðir eru næsta galtóm. Og enginn skal efast um að Túnis hefur upp á margt að bjóða.

Fyrir það fyrsta voru hinir vinsælu ferðamannastaðir ekki fyrir neinu tjóni í uppreisninni og þeir standa auðir og bíða ferðamanna. Bæirnir Djerba og Hammamet eru ekki síðri dvalarstaðir en sólarstrendur Spánar eða Tyrklands og ódýrari en þeir báðir þó alltaf deila megi um gæði og gestrisni.

En íbúar Túnis, sem vita mætavel hvað ferðamenn eru mikilvægir landinu, taka móti öllum sérstaklega opnum örmum. Eru það helst franskar ferðaskrifstofur sem hafa tekið upp á að bjóða ferðir þangað að nýju en aðrir hafa hægt um sig.

Fararheill getur sannarlega mælt með Túnis. Mörgum Íslendingum finnst Tyrkland æði ódýrt en alþjóðlegur samanburður á mat og gistingu sýnir að Túnis er almennt 20 prósentum ódýrari en Tyrkland. Það er ávísun á fjandi gott frí á fjandi góðu verði og ekki verra ef engar eru raðir á barinn, ströndina eða á þá fjölmörgu kynngimögnuðu staði landsins sem finnast í sögubókum.