H öfum sagt það áður og það ítrekað; forsvarsmenn Icelandair hefðu gert gott mót að ráða ritstjórn Fararheill til að stýra draslinu og hent Boga Nils og hans kumpánum rakleitt á haugana. Þá kannski hefði flugfélagið ekki þurft tugmilljarða króna af skattpeningum um leið og á bjátaði og samt verið með buxurnar á hælunum.

 

Icelandair hefur undanfarið verið að gera súpergott mót í innanlandsfluginu og ekki nokkur sála utan höfuðborgarsvæðisins sem kann nokkuð nema gott eitt um þjónustu flugfélagsins að segja eins og lesa má um hér.

En það vekur jafnframt athygli að flugfélagið ákvað nýverið að hefja beint áætlunarflug til Gran Canaria á Kanaríeyjum. Ekki heldur langt síðan flugfélagið hóf áætlunarflug til Alicante og Tenerife líka. Með öðrum orðum: allir vinsælustu áfangastaðir Íslendinga í sólina í fyrsta skipti í boði í beinu flugi með Icelandair.

Það, góðir lesendur, nákvæmlega það sem við hér hjá Fararheill höfum agiterað fyrir um hartnær tíu ára skeið eða svo og auðvelt er að ganga úr skugga um með flakki á vef okkar. Við hér búum nefninlega yfir sæmilega heilbrigðri skynsemi ólíkt vellaunuðum fræðingum Icelandair. Okkar punktur alltaf sá að flugfélag sem ekki nýtur vinsælda heimavið og sinnir heimamarkaði af alúð og dugnaði er steindautt um leið og eitthvað bjátar á. Og eitt og annað bjátaði sannarlega á síðustu árin. Svo mjög að einkafyrirtækið Icelandair þurfti að sækja tugmilljarða króna í vasa almennings um það bil tveimur mínútum eftir að Covid skall á. Fyrir utan að henda „gömlu“ flugþjónunum sínum á haugana og spara feitan skilding með ráðningu táninga og ungmenna sem flugþjóna.

Ekki hefur hlutabréfagengi Icelandair hreyfst mikið upp á við eftir að Covid hætti göngu sinni. Skjáskot Keldan

Góðu heilli virðast aðrir en við sveitapakkið hjá Fararheill hafa kollinn í sæmilegu lagi því hlutabréfagengi Icelandair hefur meira og minna staðið í stað frá því að frægt útboð var á hlutum í flugfélaginu í september 2020 og hvert bréf þar selt á eina krónu. Einhver besta hugmynd í heimi að selja bréf í flugfélagi í miðjum Covid-faraldri en þó faraldurinn sé farinn veg allrar veraldar hafa bréfin ekkert hækkað að ráði.

En látum það allt liggja milli hluta.

Samkeppni til vinsælustu áfangastaða Íslendinga að vetrarlagi er jú til að klappa fyrir því betri er fákeppni en einokun. Ein úr ritstjórn greiddi nýlega 106 þúsund krónur fyrir flug til og frá Alicante með svokölluðu lággjaldaflugfélagi svo full ástæða er til að fagna samkeppninni.

Endilega nýttu þér nífaldan heimsmeistara í hótelbókunum hér að neðan til að tryggja þér lægsta verðið á gistingu hvar sem er í heiminum 🙂

Forsíðumynd: Flickr.com/LV Aircraft Photography