E nginn sem lesið hefur sér mikið til um Tælandsferðir allra síðustu ár í ferðahandbókum og á vefmiðlum hefur komist hjá því að rekast á greinar um tunglsljósapartíin, full moon parties, sem haldin eru mánaðarlega á suðurodda eyjarinnar Koh Pha Ngan. Þær veislur voru um tíma stórkostlegar en eru það ekki lengur.

Einhver fallegasta strönd Tælands þakin rusli og glerbrotum. Þannig er þetta alltaf eftir Tungsljósapartíin. Mynd into the wild

Einhver fallegasta strönd Tælands þakin rusli og glerbrotum. Þannig er þetta alltaf eftir Tungsljósapartíin. Mynd into the wild

Koh Pha Ngan er fórnarlamb fjöldatúrisma af verstu sort þegar allt annað víkur fyrir hagsmunum hótel- og bareigenda. Það hefur þó aðeins gerst á síðustu tíu árum eða svo eins og fram kemur í nýlegri athyglisverðri stuttri heimildamynd um þennan viðburð sem er heimsfrægur meðal unga fólksins.

Á þennan fallega stað troðast nú einu sinni í hverjum mánuði rúmlega 30 þúsund erlendir gestir í þeim tilgangi einum að drekka sig ofurölvi eða komast í vímu með öðrum hætti, djamma út nóttina og ekki skal efa að margir og margar eru á höttunum eftir blóðheitri nótt með nýjum elskhuga.

En 30 þúsund haugfullir gestir í viðbót við þúsundir heimamanna er einfaldlega of mikill fjöldi fólks á einni lítilli ströndu. Umsagnir á bæði Tripadvisor og Virtual Tourist bera það með sér en margir kvarta undan því að þetta hafi nú ekki verið eins skemmtilegt og við var búist. Fjölmiðlar í Tælandi og erlendir eru líka æði oft með fréttir frá þessari litlu strönd á þessari litlu eyju en slagsmál, ofbeldi, nauðganir og jafnvel manndráp eru ekki svo óalgeng meðan á herlegheitunum stendur.

Við hvetjum þá sem íhuga að heimsækja Koh Pha Ngan og djamma eins og enginn sé morgundagurinn að kíkja á heimildarmyndina Trouble in Paradise hér að neðan. Það kannski fær einhvern til að hugsa sig tvisvar um.

Trouble in Paradise – Full Moon Party Documentary from TBJ Productions on Vimeo.