S íðla júní er sagt að fyrsta rella lággjaldaflugfélagsins Play taki flugið frá Keflavík og þar með hefst enn einn kafli í lággjaldaflugfélagssögu Íslands. Hér verða menn aldeilis að vanda sig því saga lággjaldaþjónustu á Fróni er ekki beint rósum stráð.

Kapp best með forsjá.eru gömul sannindi sem margir hafa farið flatt á. Mynd Play

Iceland Express og Wow Air. Þetta þau tvö íslensku flugfélög sem reyndu fyrir sér í lágfargjaldabransanum. Saga beggja var stutt en ekki sérstaklega laggóð. Þrot beggja fyrirtækja kostaði landann tugmilljarða króna en eigendurnir héldu sínu og þykja enn mikilmenni á landsvísu.

Nú lítur allt út fyrir að þriðja flugfélagið reyni fyrir sér hérlendis í lágfargjaldabransanum. Play byrjaði sína sögu með hörmungum. Geðveikt opnunarpartí forráðamanna var megaklúður. Kjánaháttur dauðans að byrja nýtt flugfélag á því að berast helling á og lofa fögru. Miðasala á næstu grösum haustið 2019 reyndist ekki alveg standast, þaðan af síður miðasala í byrjun árs 2020, þaðan af síður miðasala haustið 2021 og svo framvegis og svo framvegis.

1) DEMPA GREDDUNA

– Kapp er best með forsjá og sígandi lukka er best. Tveir ágætir málshættir sem löngu hafa sannað sig að mestu. En kappið hljóp með Wow Air í gönur mjög fljótlega. Áætlanir fyrirfram breyttust afar snöggt þegar sala fór fram úr væntingum, fyrirtækið pantaði sífellt fleiri þotur til starfseminnar og fyrr en varði flutti Wow Air nánast jafn marga farþega til og frá landinu og ellismellurinn Icelandair. Eigandinn fór mikinn í fjölmiðlum um meðal annars að gera endalega útaf við gamla flugfélagið þegar veislan stóð sem hæst. Veislur hafa þó þann galla að þær taka enda og gríðarlegur vöxtur fór að taka toll auk þess sem fleiri samkeppnisaðilar bættust í hópinn. Svo þegar vöxturinn tók skyndilega enda voru fjármunir af skornum skammti. Í stað þess að staldra við og anda með nefinu hóf Wow Air að fljúga að afar vafasama staði hér og þar í von um að vöxtur tæki við sér að nýju og fór meira að segja að leigja breiðþotur fyrst allra lággjaldaflugfélaga. Indland var stráið sem skipti sköpum en áfangastaðir á borð við Nice, Cinncinnati og Cleveland voru lítið að hjálpa. Allt staðir með enga beina tengingu og þörf á mikilli dýrri kynningu á hverjum stað fyrir sig.

2. SLAKA Á MEÐ JÁ-FÓLKIÐ

– Eftir samtöl við allnokkra fyrrum starfsmenn Wow Air auk greina í fjölmiðlum má ljóst vera að eigandinn Skúli Mogensen gerði barasta það sem honum datt í hug og leið illa gagnrýni eða andmæli hvort sem það voru yfirmenn eða stjórnarmenn. Slíkt fólk fékk reisupassann fljótlega. Sem er vissulega ein leið til að stjórna en þegar allt er fullt af jánkurum í kringum þig er mun hættara við að mistök séu gerð. Hér gildir hið fornkveðna að vinur er sá er til vamms segir en eigandinn taldi sig þá vammlausan með öllu þó eftir fall flugfélagsins hafi hann einmitt kennt kjánalegum aðgerðum sínum  um gjaldþrotið.

3. FARA BETUR MEÐ VIÐSKIPTAVINI

– Eitt það flóknasta í flugrekstri er að halda utan um allt vesenið sem skapast getur á augabragði. Það líka angi sem flest flugfélög láta sitja á haka því raunveruleg þjónusta kostar peninga. Og þar sparaði Wow Air meira en góðu hófi gengdi þó byrjunin hefði lofað góðu. Þjónustuver í mýflugumynd, athugasemdir gerðar við flestallar kvartanir viðskiptavina og endurgreiðsla eða bótagreiðsla vegna vanefnda var langsótt mjög. Svo mjög var erfitt að eiga við Wow Air að hópmálsóknir voru í farvatninu beggja vegna Atlantsála og kvartanir vegna flugfélagsins hér heima fjórföldust á tveimur árum. Það var næsta daglegt brauð hjá Samgöngustofu að fara yfir bótakröfur farþega þeirra. Enn og aftur gildir hið fornkveðna hér að ef þú kemur vel fram við viðskiptavin einu sinni þá áttu viðskiptavin til æviloka en annars missirðu viðkomandi um eilífð. Á hörðum samkeppnivelli eins og flug til og frá Íslandi var um tíma og verður líklega aftur skiptir þetta máli.