H ér er sannarlega bær með tvö andlit. Vetrarlúkkið er hálfrússneskt með íslenskum keim þar sem götur, verslanir og barir eru meira eða minna tómar þegar hitastig er komið undir fimm gráður. Hins vegar er vart fótað fyrir fólki hér á sumrin þegar sól skín í heiði og víðar og finnska og sænska heyrist meira en eistneska.
Það er heldur engin tilviljun að Pärnu er sumarleyfisstaður númer eitt, tvö og þrjú í Eistlandi og reyndar eru strendurnar hér og annars staðar í Ríga flóa ótrúlega góðar. Hitastig yfir júní, júlí og ágúst hangir milli 24 og 28 gráður og fer afar sjaldan ofar sem þýðir að þó sjórinn sé nógu heitur fyrir sundsprett þá svitnar heldur enginn á labbinu í gamla bænum í Pärnu.
Og það er gamli bærinn sem er aðalaðdráttaraflið að frátöldum ströndunum hér. Sá er eðli málsins samkvæmt af gamla skólanum og mikið af lágum húsum í þröngum götum. Velflest hús hér eru tvær til þrjár hæðir. Miðað við töluverða peninga hér árlega af ferðafólki er þó merkilega stór hluti húsa í miðbænum í mikilli niðurníðslu.
Menningarlega er Pärnu á pari við Danielle Steel í bókmenntunum; hægt að fletta nokkrum síðum með ánægju en það ristir ekki djúpt og gleymist fljótt.
Hér er gert út á eitt gagnvart ferðamönnum og það er peningaplokk. Í bænum sem aðeins telur rúmlega 40 þúsund manns eru fleiri verslunarmiðstöðvar en á Íslandi. Það jákvæða við plokkið er að verðlag er bærilegt á íslenskan mælikvarða en frábært gagnvart Finnum og Svíum sem hingað sækja í hrönnum öll sumur.
Þá er hér merkilegur fjöldi hvers konar nudd og dekurstofa sem kannski kemur ekki á óvart. Dagspakki fyrir konuna í nuddi hér kostar aðeins brot af því sem það kostar í nágrannalöndunum til norðurs.
Ströndin hér er hins vegar ótrúlega góð og margs konar afþreying þar í boði. Lífverðir vakta mestalla ströndina allt sumarið út ágúst og nokkrir barir og veitingastaðir má við ströndina finna. Þá er ágætur garður í grennd líka þar sem hvíla má sig á geislum sólar án mikillar fyrirhafnar.
Til athugunar: Ströndin góða er í 10 – 15 mínútna göngufæri frá gamla bænum og þó dásamlegt sé að strolla þangað alla jafna getur það tekið á í heitri sólinni. Nokkrir ágætir barir og veitingastaðir eru hér en þeir að mestu aðeins opnir yfir sumartímann.
Til og frá
Í Pärnu er flugvöllurinn Pärnu Lennujam en sá er lítill og um hann fara aðeins um tíu þúsund farþegar árlega. Leigubílar eru þar á stangli og kostar ferð í bæinn með þeim um 1400 krónur.
Hagstæðari kostur fyrir einstaklinga er strætisvagn númer 23 sem stoppar fyrir utan stöðina og fer beint á rútustöðina í Pärnu. Miðaverð er 230 krónur og miðar keyptir um borð. Um 20 mínútur tekur að fara inn í bæinn.
Lestarferð frá Tallinn tekur um tvær klukkustundir og það nýta sér margir. Sama vegalengd er til höfuðborgar Lettlands, Riga, héðan frá Pärnu. Lestarstöð bæjarins er þó töluvert frá miðbænum og er leigubíll nauðsynlegur þaðan. Stöðin atarna er mannlaus og miða verður að kaupa um borð.
Langflestir ferðamenn koma hins vegar með rútum hvaðanæva að og þar með taldir þeir Finnar og Svíar sem hér spássera í hrúgum. Rútuferð frá höfuðborginni tekur um einn og hálfan tíma og er rútustöðin steinsnar frá gamla bænum við Riingi götu. Að frátöldum hótelunum við ströndina eru velflest önnur hótel í fimm mínútna göngufæri frá stöðinni.
Samgöngur og snatterí
Nóg af strætisvögnum til allra átta en ef sovéskur byggingastíll og litasamsetning heillar ekki augað er ekki einasta þörf á öðru en tveimur jafnfljótum.
Söfn og sjónarspil
> Tallinn borgarhliðið (Tallina Värav) – Einasta borgarhlið Pärnu sem enn stendur. Við Kuniga stræti í gamla bænum.
> Kirkja heilagrar Katrínu (Katariina kirik) – Fallegasta kirkja bæjarins af þremur alls er þessi hér á Vee götu. Töluvert fallegri að sjá að innan og í góðu lagi að rölta inn og skoða.
> Rüütli gata (Rüütli Tänav) – Aðalgata gamla bæjarhlutans. Fróðlegt að sjá arkitektúrinn og mismunandi byggingarnar sem sumar hverjar hafa verið gerðar upp af snilld. Enn aðrar grotna niður og stöku bygging er nánast á brauðfótum.
> Pärnu safnið (Pärnu Muuseum) – Saga Pärnu er hvorki löng né ýkja merkileg en til að drepa tímann sleppur þetta safn í Rüütli götu um sögu bæjarins. Opið alla daga 10 – 18. Aðgangseyrir 360 krónur. Heimasíðan.
Verslun og viðskipti
Ekki vantar verslanirnar hér frekar en heima á Íslandi jafnvel þó að í Pärnu séu fjölmörg auð pláss í þeim fjórum verslunarmiðstöðvum sem hér eru á einum bletti beint á móti rútubílastöðinni nálægt gamla bænum. Verðlag er keimlíkt því sem á Íslandi er almennt talað og erfitt að gera reyfarakaup nema mögulega á útsölum.
Að þessu sögðu er matur og áfengi tiltölulega ódýrt hér og í gamla bænum eru allnokkrar smærri forvitnilegar verslanir með minjagripi og annað smálegt.
Matur og mjöður
Það er skoðun margra höfunda þekktari ferðahandbóka að almennt í Eystrasaltslöndunum sé matur í besta falli í meðallagi. Ritstjórn Fararheill.is vill þó ganga skrefinu lengra því hvergi á veitingarstöðum í Pärnu né heldur í Eistlandi var matur almennt í meðallagi. Hann er undantekningarlítið betri en það og ekki skemmir að vandfundinn er sá veitingastaður þar sem aðalréttur með góðu víni kostar mikið meira en 2000 krónur íslenskar.
Líf og limir
Heimamenn eiga það til að líta aðkomufólk hornauga en almennt er afar sjaldgæft að ferðamenn séu fórnarlömb alvarlegra glæpa í landinu öllu. Vasaþjófar eru þó á ferli hér og verðmæti hverfa fljótt ef enginn er varinn.