Það er margt vitlausara til en kynna sér í þaula ferðatryggingar áður en haldið er í helgarferð til stórborganna. Sérstaklega ef dýrir farsímar, fartölvur eða myndavélar eru með í för.

Betra er að tryggja sérstaklega dýrari hluti áður en haldið er erlendis og kynna sér smáa letrið í þaula. Mynd Penelope Schenk

Betra er að tryggja sérstaklega dýrari hluti áður en haldið er erlendis og kynna sér smáa letrið í þaula. Mynd Penelope Schenk

Engum á að koma á óvart að þeir hlutir sem þjófar ásælast hvað mest erlendis sem hérlendis eru dýrir farsímar á borð við Samsung Galaxy eða Apple iPhone og hvað þeir allir heita þessir flottu og fínu snjallsímar, tól og tæki.

Þetta er staðfest hjá stærsta tryggingafyrirtæki Noregs sem tekið hefur saman þá hluti sem helst er stolið af norskum ferðamönnum á ferðalögum.

Þar sem Norðmenn eru nokkuð svipaðir Íslendingum í háttum er líklega ekki fráleitt að yfirfæra niðurstöður þeirra norsku yfir á landann. Það enda raunin að svipaðir sólarstaðir sunnar á hnettinum heilla báðar þjóðir.

Þeir fimm hlutir sem algengast er að stolið sé af frændum okkar, og líklega okkur líka, á ferðalögum eru:

♥ Dýrari farsímar og þá helst iPhone eða Samsung Galaxy. Ekki mikið litið við öðrum tegundum.

♥ Veski og léttar töskur

♥ Fartölvur og spjaldtölvur

♥ Myndavélar

♥ Yfirhafnir og jakkar

Fátt sem kemur á óvart hér. Ef fatnaður er frátalinn er sáraeinfalt að koma rafeindatækjum í verð á svarta markaðnum og fatnaði er auðvitað aðeins stolið í von um að þar leynist veski, vegabréf eða eitthvað verðmætt.

Fararheill hefur áður reynt að fá uppgefið frá íslenskum tryggingafélögum hvaða munum sé helst stolið af landanum á ferðum erlendis en slíkt liggur illa á lausu. En alls óhætt að slá föstu að óprúttnir erlendis ásælist sömu dýru hlutina hjá Íslendingum og Norðmönnum.