
Rússland? Nei, New York. Mynd Miscow Times
Jamms, í vöggu kapítalismans í New York er stórt hverfi þar sem varla glittir í annað en auglýsingaskilti á rússnesku. Ástæðan einfaldlega sú að meirihluti íbúa hér um áratugaskeið eru Rússar og Úkraínumenn sem flust hafa búferlum til fyrirheitna landsins og eða flúið heimalandið af einhverri ástæðu. Svo mikill fjöldi að hér heyrist varla enskt mál á götum úti.
Litla Rússland er auðvitað gælunafn yfir hverfið sem heitir formlega Brighton Beach og er ekki langt frá hinu fræga skemmtihverfi Coney Island sem margir þekkja.
Vitaskuld finnst ágæt strönd í Brighton Beach en það eru rússnesk áhrifin um allt sem gera þetta að skemmtilegu stoppi dagsstund eða svo. Fjölmargir ágætir veitingastaðir sem velflestir bjóða rammrússneska rétti á borð við borscht, mimoza eða piroggi sem fylla maga fljótt og örugglega.
Fararheill mælir sterklega með skottúr hingað ef þvælst er um New York. Hingað komist frá Manhattan með jarðlest en hafa skal bak eyra að túrinn tekur um 50 mínútur aðra leið þó vegalengdin sé aðeins tólf kílómetrar í loftlínu.