Þ að þarf ekki að leita langt yfir skammt eftir góðum bar í neinum hverfum Barcelóna borgar. Þeir skipta þúsundum og sérstaklega í miðborginni eru ansi margir ansi frábærir.

Einn af betri stöðum Barcelóna til skrafs, ráðagerða eða rómantíkur er útibarinn La Dolce Vitae. Sérstaklega að kvöldlagi er hér frábært að eyða stund.
Í Barcelóna er gott að elska og þó borgin sé ekki sérstaklega þekkt fyrir rómantík má hér finna nokkra bari sem alveg eru tilvaldir fyrir alla á biðilsskóm eða elskendur á venjulegum skóm ef út í það er farið.
Ritstjórn Fararheill hefur sérstakt dálæti á börum með útsýni og í Barcelóna er fjöldi slíkra staða sem vert er að gera sér sérstaka ferð til. Ekki síst með ást og hlýju í hjarta.
> DOS CIELOS – Ekki bar per se heldur einn allra besti veitingastaður borgarinnar með aldeilis frábært útsýni og afar smekklegt útisvæði á 24 hæð. Fokdýr staður og aðeins hægt að komast hingað með því að panta borð en það er bara aldeilis þess virði. Besta útsýnið í bænum ef frá er talið útsýni frá toppi Sagrada Familia kirkjunnar. Hotel Me Barcelona Pere IV 276-286.
> PULITZER BARCELONA – Annað hótel en þetta er betur staðsett í miðborginni. Á efstu hæð er frábær bar og matsölustaður með asísku ívafi. Fyrsta flokks drykkir en verðið er í hærri kantinum. Calle Bergara 8.

Það eru glettilega margir þakbarir í Barcelonaborg.
> LA DOLCE VITEA – Sé hægt að tala um hjarta Barcelóna þá er þessi staður í hjarta Barcelóna. Efsta hæð lúxushótelsins Majestic og barinn eftir því. Æðislegt útsýni yfir miðborgina og Sagrada Familia er ekki dónalegt að skoða héðan með katalónskt cava í hendi. Hér er þó aftur tiltölulega dýrt að versla. Paseo de Gracia 68.
> MIRABLAU – Ólíkt fyrrnefndum stöðum er þessi veitingastaður/bar ekki ýkja merkilegur og maturinn hér fær engin verðlaun. Hann er líka töluvert frá borginni upp í hæð Tibidabo og þarf að taka leigubíl á staðinn til að lenda ekki í vandræðum. Það sem hins vegar gerir staðinn frábæran er útsýnið en héðan er hægt að sjá alla borgina í öllum sínum ljóma. Sérstaklega er fallegt yfir að líta þegar kvölda tekur. Töluvert ódýrari en hinir staðirnir. Carrer de Manuel Arnús 2.