Um 50 kílómetrum austan við Faró liggur bærinn Tavira með sína tíu þúsund íbúa. Miðað við að bærinn atarna gengur undir gælunafninu Feneyjar Algarve og hversu stutt er þangað frá helstu ferðamannabæjum Algarve er mesta furða hversu fáir ferðamenn eyða tíma sínum þar. En fallegur er hann og um tíma var Tavira umsvifamesti bærinn á allri suðurströnd Portúgal sökum nálægðar við Afríku.
Heilli bærinn þig ekki nægir að taka far með ferju þaðan til Ilha de Tavira sem er stór gróðursæl eyja skammt undan ströndinni. Sú er að hluta friðlýst enda dýralíf og sérstaklega fuglalíf mikið þar en ekki skemmir að þar má ennfremur finna einhverjar fallegustu strendur landsins.
Fáir ferðamenn gera sér ferð þangað svo óski maður friðar meðan á ferðalagi stendur er eyjan sú góður áfangastaður en þó eru til staðar stöku barir og veitingastaðir ef þorsti eða svengd hellist yfir. Ferjan fer frá bryggjunni í Quatro Aguas um tveggja kílómetra fjarlægð frá Tavira.
Heimasíða bæjarins hér.