T angier er mikilvægasta hafnarborg Marokkó og ein opnasta borgin í því ágæta múslímska landi. Það helgast af nánd við Spán og Portúgal og þar með Evrópu en tvær nýlendur Spánar í Afríku, Ceuta og Melilla, liggja einmitt við landið og tilheyrðu áður Marokkó.

Til og frá

Einfaldast er að fljúga til Tangier og kostar það klink og ingenting frá Spáni eða Portúgal. Alþjóðaflugvöllur Tangier er Bouhalef flugvöllur en sökum nálægðar við borgina, 10 kílómetrar, eru ferðalangar fljótt komnir inn í borgina frá vellinum. Tekur það í hæsta lagi 20 mínútur.

Besta og nánast eina leiðin frá vellinum er með leigubílum og nóg er af þeim fyrir utan þegar vélar lenda. Punga þarf út 1400 krónum fyrir far í bæinn á daginn en rúllar í 2200 krónur á kvöldin og næturnar.

Formlega eru hér líka rútur sem selflytja mannskap í bæinn með reglulegum ferðum en samkvæmt heimildum Fararheill.is er það nokkuð hippsum happs hvort það er reyndin í raun. Minnst tvívegis svo ritstjórn viti til hafa engir slíkir verið til taks þegar á reyndi. Upplýsingabás fyrir ferðamenn er í orði til að flugvellinum en ekki á borði.

Fleiri heimsækja þó Marokkó með ferjum frá Spáni eða Portúgal en með flugi enn sem komið er og einhverjir taka bíla sína með sér. Ferðin yfir Gíbraltarsundið tekur frá klukkustund og upp í þrjár eftir lengd og tegund ferju.

Án bíls er tiltölulega einfalt að stíga á land í Tangier þó vissulega þurfi að fylla út pappír og annan áður en stimplað er í vegabréfið. Verst er þó kannski að eftir að tollayfirvöld hafa gengið úr skugga um að ferðamenn séu ekki aumir skítuxar tekur við hafsjór áræðinna bragðarefa og braskara sem allt vilja fyrir þig gera og getur verið martröð að losna við. Ekki þar fyrir að margir þeirra geta sannarlega aðstoðað en sú aðstoð bæði kostar og viðkomandi hverfur ekki svo glatt eftir að þjónustan er veitt.

Það er enn bölvað vesen að koma á bílaleigubíl eða eigin bíl með ferjum frá Evrópu. Tollgæslumenn eru töluvert aftur í fornöld og fjöldi pappíra og leyfa sem hafa þarf með til að sleppa í gegn er töluverður. Yfir hásumartímann er reyndar leyfilegt að fylla slíkt út í ferjunum á leiðinni sem styttir biðtíma töluvert en alla jafna má gera ráð fyrir töluverðum tíma við tollhliðin enda oftar en ekki hver krókur og kimi í bílnum skoðaður í þaula. Hafa toll og landamæraverðir fullt leyfi til að vera leiðinlegir og nýta það í þaula.

Til umhugsunar: Besta leiðin til að losna við það flóð af fólki sem vill allt fyrir þig gera á ágengan hátt skal taka rakleitt stefnu á næsta leigubíl, komast að samkomulagi um verð, og drífa sig áfram. Samkomulagið er nauðsynlegt þar sem margir leigubíla hér notast ekki við gjaldmæla.

Ratvísi

Tangier borg er lítil og engin raunveruleg þörf á farartæki öðru en tveimur fótum til að sjá flest markvert á góðum tíma. Hún er líka einföld skipulagslega. Tvær aðalgötur krossa stóran hluta miðborgarinnar. Mohamed V breiðgatan nær frá Medina til Ville Nouvella meðan Mohamed VI breiðgatan liggur meðfram strandlengjunni allri til Malabata.

Töluverður hluti eldri borgarhluta Tangier, Medina, er of þröngur fyrir ökutæki nema mótorhjól en annars staðar eiga vegfarendur ekki að lenda í vandræðum. Langflest betri hótel borgarinnar liggja nálægt Mohamed V breiðgötunni og þar er einnig fjöldi verslana. Skemmtistaðir eru mun algengari við ströndina.

Söfn og sjónarspil

> Fornleifasafnið ( Kasbah) – Frægasta safn borgarinnar er þetta fornmunasafn í merkilegri höll sem ber nafnið Dar el Makzhen. Safn þetta er á nokkrum hæðum og má sjá þar mikinn fjölda muna frá fornum tímum í merkilegri umgjörð. Fyrsta hæðin er tileinkuð sögu Tangier sem um margt er merkileg og byggingin sjálf er mikið mannvirki. Þá er flott útsýni yfir hafnarsvæði Tangier og víðar til sjávar. Opið daglega nema á þriðjudögum milli 9 og 12:30 og aftur milli 15 og 17:30. Aðgangseyrir 800 krónur.

> Menningarhús Bandaríkjanna og Marokkó (Legation) Lifandi menningar- og listahús tileinkað tengslum Bandaríkjann og Marokkó en þau tengsl eru nokkur gegnum tíðina. Hluti safnsins tileinkaður bandaríska rithöfundinum Paul Bowles sem hér bjó um langan tíma. Opið mánudaga til föstudaga milli 10 og 13 og milli 15 og 17. Lokað um helgar. Aðgangur ókeypis en framlög vel þegin. Heimasíðan.

> Nýlistasafnið (Musée d´Art Contemporain de la Ville de Tanger) – Listsköpun er ekki ríkjandi þáttur í menningu heimamanna í Tangier eða Marokkó en þau verk sem þó dagsins sjá ljós virðast öll betri fyrir vikið.

> Lorin safnið (Musée de la Fondation Lorin) – Lorin þessi fór vítt um Marokkó milli 1940 og 1960 og tók ljósmyndir í gríð og erg. Hér má sjá afraksturinn. Opið sunnu- til föstudaga milli 15:30 og 19:30. Aðgangur ókeypis.

> Miðbæjartorgið (Grand Socco) – Enginn sem um borgina fer kemst hjá því að rata fyrr eða síðar á þetta risavaxna miðborgartorg sem jafnframt er mekka mannlífs í Tangier og hér er alltaf nokkur erill. Styttur, gosbrunnar, sölubásar og ósköp venjulegt fólk kemur hér saman og eyðir tímanum. Margt til verra en að slást í hópinn.

> Oumame torg (Place de Oumame) – Annar stórt torg í Tangier en þetta er nýtt og heillar mun yngra og fjörugra fólk en til Grand Socco. Mörg kaffihús og veitingahús á þessum slóðum.

> Sjónarhóll (Terrasse de Paressaux) – Þessi gata stendur hátt í borginni og gefur óhindraða útsýn yfir Gíbraltarsundið að að ströndum Spánar þegar vel viðrar. Þá er hún vinsæl göngugata og eðalfín til mannlífsskoðunar.

> Mnar vatnsleikjagarðurinn (M´nar Parc Aquatique) – Vestræn áhrif eru smátt og smátt að ná ítökum í Marokkó og varla betra dæmi um það en þessi skemmtilegi vatnsleikjagarður skammt utan borgarinnar. Fátt skemmtilegra fyrir smáfólkið og yndislegt fyrir þá eldri líka enda getur hitinn hér farið vel uppfyrir fokking fokk.

Verslun og viðskipti

Trixið við verslun í Tangier er að finna verslanir utan allra vinsælustu gatna. Á miðbæjarsvæðinu og í raun alls staðar þar sem von er á ferðamönnum hækka verð á öllu um helming hið minnsta og margfalt í versta falli. Borgin er ekki stór og það er nokkuð augljóst hvaða verslanir gera út á ferðafólk og hvað verslanir ekki.

Ekkert er framleitt sérstaklega í Tangier per se en leðurvörur og munir úr járni, tinnu og kopar finnast víða. Þá er hér í úthverfi hinn frægi Þjófamarkaður, Casa Barata. Er sá opinn alla daga nema föstudaga. Samanstendur hann af stóru svæði utandyra og minna innandyra. Sérstaklega er vert að skoða markaðinn á þriðju- og fimmtudögum þegar fjöldi sölustalla er mestur. Varann skal engu að síður hafa á sér enda fjölmargt falt hér og ekki allt mjög löglegt. Prútt er eðlilegt. Minni markaðir finnast víða um borgina sérstaklega yfir sumartímann þegar ferðamenn flykkjast til borgarinnar.

Matur og mjöður

Engar áhyggjur hér. Fjölmargir veitingastaðir að vestrænni fyrirmynd finnast í Tangier en sjálfsagt er að prófa innlenda

rétti og slíkir staðir um allan bæ líka. Velflestar ferðahandbækur mæla með að borða á hótelum borgarinnar til að vera örugg um gott hráefni en ritstjórn Fararheill.is er því ósammála. Matarvenjur eru almennt góðar hér og hver einasti veitingamaður hér gerir extra vel þegar erlendir ferðamenn koma við.

Hvað drykki varðar er það enn minna vandamál. Kaffi og te er vinsælt hér og slíkir staðir á hverju strái. Þó húsakynni séu mörg hver í daprari kantinum má fá hér stórfenglegt te. Nóg úrval er af börum.

Til umhugsunar: Mörg kaffihúsa hér bjóða upp á drykkinn Panache sem verður að prófast. Blanda safa, mjólkur og epla og þykir flestum hann eðalgóður.

Líf og limir

Tangier er jafn örugg borg og þær á meginlandi Evrópu. Glæpir gegn ferðafólki einskorðast við brask og svindl en séu menn á varðbergi og noti sína heilbrigðu skynsemi ætti það ekki að verða vandamál. Lögreglumenn eru víða og sjáanlegir og aðstoða eftir megni.

View Larger Map