Fyrir skömmu birtum við grein þar sem við gagnrýndum hugsanleg áform Wow Air að flytja starfsemi sína að hluta frá Íslandi en sú hugmynd hefur skotið upp kollinum þar sem aðstaða til vaxtar hérlendis takmarkast mjög af getu Keflavíkurflugvallar og Leifsstöðvar að sinna fleiri farþegum en þegar er.

Svar við bréfi Fararheill. Mynd Wow Air

Svar við bréfi Fararheill. Mynd Wow Air

Þar komum við inn á að Skúli Mogensen geymir peninga sína erlendis og við settum spurningarmerki við að fyrirtækið Wow Air sem hefur náð ótrúlegum hæðum á skömmum tíma að stórum hluta vegna þess að Ísland er brennheitur áfangastaður íhugi að flytja erlendis.

Sú gagnrýni tengist því að það er í tísku hjá fyrirtækjum að flakka milli landa til að njóta skattafríðinda og þannig greiða peninga sem annars færu í sameiginlega sjóði beint í vasa eigenda eða hluthafa. Þetta er stór ástæða þess að heilbrigðis-, skólakerfi og innviðir margra þjóða í Evrópu eru hægt og bítandi að molna niður. Ekkert okkar hefur efni á því.

Af því tilefni fengum við eftirfarandi skeyti og er ljúft og skylt að koma því á framfæri:

Skúli Mogensen hefur verið búsettur meira eða minna erlendis allt frá árinu 2002. Enga að síður hefur hann verið með hæstu skattgreiðendum á Íslandi undanfarin ár og hefur hann persónulega greitt tæpar 500 milljónir í beina skatta á Íslandi síðustu 6 árin. Þar fyrir utan greiða WOW air, Títan fjárfestingarfélag sem og önnur félög í eigu Skúla að sjálfsögðu einnig sína skatta á Íslandi.
Þess ber líka að geta að WOW air er íslenskt félag sem er 100% í eigu Títan fjárfestingarfélags sem er einnig íslenskt félag sem er svo aftur 100% í eigu Skúla Mogensen. Samkvæmt íslenskum skattalögum er það því alveg skýrt að ef WOW air eða Títan greiðir út arð til Skúla þá munu félögin og Skúli Mogensen greiða skatta af slíkum arðgreiðslum á Íslandi óháð því hvar búseta hans kann að vera á þeim tíma.
Að lokum er það alfarið rangt að við höfum hótað því að flytja WOW air úr landi. Við höfum hins vegar ítrekað bent á það að Flugvöllurinn í KEF er að þolmörkum kominn og alveg ljóst að það mun hindra vöxt ferðaiðnaðarins á Íslandi á komandi árum. Þetta er ekki hótun, né skoðun heldur staðreynd sem Isavia hefur sjálft bent á og tekið undir. Það gefur því augaleið að ef WOW air ætlar að vaxa jafn hratt og hefur verið þá munum við neyðast til að skoða nýjar leiðir óháðar Íslandi. Það breytir hins vegar engu um að WOW air er íslenskt félag sem ætlar sér áfram að starfa á Íslandi og halda áfram að byggja hér upp starfssemi.
Að lokum er vert að taka fram að eins og hefur oft komið fram þá hefur Skúli Mogensen fjárfest yfir 3 milljarða í WOW air frá stofnun félagsins. Félagið er alfarið fjármagnað af Skúla og engir lífeyrissjóðir né skattpeningar landsmanna liggja þar að baki. Fjárfestingunni hefur verið varið í að byggja upp WOW air þar sem í dag starfa yfir 250 starfsmenn og áætlað er að ráða aðra 200 fyrir næsta sumar. Félagið hefur flutt yfir 2 milljónir farþega frá stofnun og gerir ráð fyrir að flytja 1.5 milljón farþega til viðbótar 2016. Skúli hefur aldrei tekið út arð hvorki út úr WOW air né Títan heldur varið öllum tekjum félagsins í áframhaldandi uppbyggingu til að tryggja stoðir félagsins til langs tíma.