Skip to main content

Kjánalegt má vera að plögga aðventuferðir í byrjun apríl og sýnu verra þann 1. apríl þegar fjölmiðlum leyfist að blekkja og fíflast vandræðalaust. En gamanið hjá okkur snýst um að benda lesendum á leiðir til að skoða heiminn án þess að greiða handlegg og fótlegg í hvert sinn.

Svona kemst á jólamarkað á aðventunni fyrir klink og ingenting :)

Svona kemst á jólamarkað á aðventunni fyrir klink og ingenting 🙂

Það er góð ástæða fyrir að benda á aðventuferðir svo snemma árs. Raunin er nefninlega sú að þegar fólk ferðast á eigin vegum er oftar en ekki ferðast með lággjaldaflugfélögum og verðlag hjá þeim er lægst með sem lengstum fyrirvara svona heilt yfir. Sex, sjö mánaða fyrirvari tryggir þannig að þú kemst í flug á fáranlega góðum kjörum því fólk er önnum kafið að skipuleggja sólarferðir en ekki aðventuferðir.

Þó við séum snemma á ferð eru aðilar þarna úti sem þegar eru að bjóða aðventuferðir. Bændaferðir ein þeirra og ferðir þeirra flottar í alla staði og ávallt með fararstjórn sem margir vilja ekki vera án. Á móti kemur þá að þú greiðir meira fyrir herlegheitin og lægsta verð á þriggja daga aðventuferð Bændaferða er 98.800 krónur á mann eða 197.600 krónur alls.

Þó ferðaskrifstofan Bændaferðir séu að okkar mati að mestu leyti nokkuð sanngjörn í verðlagningu eru tvö hundruð þúsund krónur fyrir þriggja daga ferð drjúgur skildingur. Tæplega 70 þúsund krónur per dag.

Hvað ef við bendum þér á aðventuferð sem kostar þig og makann alls kringum 60 þúsund krónur í heildina? Með öðrum orðum: öll ferðin kostar það sama og einn dagur í ódýrustu ferð Bændaferða.

Nei, þetta er ekki aprílgabb en það er heldur enginn fararstjóri til að halda í höndina á þér og þú þarf sjálf/-ur að græja hlutina. Það gerir þú með því að heimsækja vef Wizz Air og bóka flug 9. til 12. desember til Vilníus í Litháen. Flug fram og aftur með þeim á þessum tímapunkti án farangurs kostar manninn 21 þúsund krónur. Þá ferðu á bókunarvef okkar hér að neðan og neglir fjögurra stjörnu gistingu þann tíma með morgunverði allt niður í sextán þúsund krónur en algengara verð er kringum 20 þúsund í þrjár nætur. Hendum inn tvö þúsund kalli á mann fyrir lestarferð til og frá flugvellinum og voilà! Við komin með þessa fínu aðventuferð fyrir 60 þúsund alls á par.

Rétt er að Vilníus í Litháen er ekki mekka jólamarkaða í Evrópu en þar engu að síður sama miðaldahefð fyrir jólunum og sunnar í álfunni og töluvert um að vera. Stóri plúsinn líka að verðlag hér er HELMINGI lægra en í Sviss eða Austurríki sem kemur sér vel ef grípa á nokkrar jólagjafir svona í og með jólaglögginu.

Ekki gleyma heldur að Íslendingar eru auðfúsugestir í Litháen því hér hafa fáir gleymt hvaða þjóð var fyrst til að veita þeim liðsinni þegar sjálfstæðisbarátta þeirra stóð sem hæst. Því öllu auðveldara að kynnast fólki hér en í hjarta Evrópu.