Skíðaferðir þær er ferðaskrifstofan GB ferðir býður upp á til helstu skíðasvæða Klettafjalla seljast vel en vika er síðan skíðasvæðin þar opnuðu þennan veturinn.
Þarna er um nýjung að ræða fyrir skíðaáhugafólk á Fróni sem hingað til hefur þurft að láta skíðalönd Evrópu duga ætli fólk sér í betri aðstæður en fást þessa fimm daga á ári sem skíðasvæði Reykvíkinga er opið árlega. Færi gefst á að bjóða slíkar ferðir eftir að Icelandair hóf áætlunarflug til Denver í Kolóradó en þaðan er klukkustund og upp í fjórar klukkustundir að helstu skíðasvæðum.
En þrátt fyrir að punga þurfi mun duglegar út fyrir skíðaferð til Kolóradó eins og Fararheill skýrði frá í sumar en staða almennt innan Evrópu segir Jóhann Pétur Guðjónsson hjá GB ferðum að sala ferða gangi vel. Ferðaskrifstofan býður skíðapakka, flug og gistingu, til þriggja mismunandi staða; Aspen/Snowmass, Keystone, Vail og Breckenridge.
Aðspurður hvers vegna skíðaáhugafólk, sem glímir eflaust að hluta við fjárhagsvandræði eins og við flest, kýs að borga extra fyrir skíðaferð til Kolóradó segir Jóhann ástæður þess geta verið margvíslegar.
„Í Klettafjöllunum snjóar á milli 7-10 metra á ári og þar skín sólin 300 daga að meðaltali á ári. Skíðatímabilið er langt, frá miðjum nóvember fram í miðjan apríl. Loftslag er mjög gott og snjórinn er betri en víða annars staðar. Svæðin eru stórbrotin, ná 4000 metra hæð, eru allt að 2.500 hektarar að stærð. Einnig má geta þess að biðraðir eru ekki algengar eins og er algengt á skíðasvæðum Evrópu.“
Þó það hafi aðeins verið í vor sem beint áætlunarflug til Kolórado var í boði hefur ferðaskrifstofan boðið ferðir á skíðasvæði í Kolóradó um átta ára skeið. Sem sýnir að eftirspurn hefur verið einhver þann tíma að minnsta kosti. Sá áhugi hefur eðlilega aukist til muna með beinu flugi.