Seðlabanki Íslands tekur sér skýra stöðu gegn neytendum í landinu. Í það minnsta ef marka má svör bankans við fyrirspurnum Fararheill vegna þeirrar ákvörðunar Icelandair að hætta að taka við íslenskum seðlum sem greiðslu um borð í vélum sínum.

Forstjóri Icelandair. Ekki aðeins kostar formúgur að fljúga með flugfélaginu heldur getum við ekki brúkað okkar eigin gjaldmiðil til að greiða fyrir vörur hjá félaginu.
Í vor tilkynnti Icelandair að hætt yrði að taka við peningum sem greiðslu fyrir glys og glingur um borð í vélum félagsins. Farþegi sem finnur svengd sækja að um borð og ætlar að grípa bita, stúta bjór eða tveimur eða loks versla þessa fínu Guerlain hálsfesti fyrir betri helminginn mætir bara frosnu brosi og neitun ef greiða á fyrir herlegheitin með beinhörðum íslenskum tíu þúsund króna peningaseðli. Eða einhverjum peningaseðli ef út í er farið. Flugfélagið afgreiðir aðeins fólk með hefðbundin debit- eða kreditkort.
Nú erum við svo vitlaus hér á ritstjórn að halda að lög landsins gildi líka um Icelandair. Það stendur jú skýrum stöfum í lögum um Seðlabanka Íslands að „seðlar og mynt, sem bankinn gefur út, skulu vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði.“
Við fáfróð hér töldum þetta gilda um öll íslensk fyrirtæki og því væri það hreint og beint lögbrot að neita að taka við peningaseðlum sem greiðslu.
Ekki aldeilis. Við verðum að éta það ofan í okkur og biðja Icelandair afsökunar.
Samkvæmt svari aðallögfræðings Seðlabanka Íslands er barasta í fínu lagi fyrir innlend fyrirtæki að henda peningum fyrir róða og krefjast greiðslu með plastkortum hvers konar eins og Icelandair hefur gert. Það skýrist með eftirfarandi hætti:
„[…] ekkert sem bannar seljanda vöru og þjónustu að krefjast þess að greiðsla sé innt af hendi með tilteknum hætti, hvort sem sú krafa er að einungis sé greitt með reiðufé eða rafrænum hætti.“
og
„Verð sem Icelandair gefur upp fyrir vörur sínar og þjónustu eru gefin upp í íslenskum krónum og verður því ekki séð að flugfélagið hafi lokað fyrir greiðslu í íslenskri mynt þar sem reiknieiningin á bak við kortaviðskipti og vildarpunkta er íslensk króna. Það er einungis sá greiðslumáti að greiða með reiðufé sem félagið hefur tilkynnt að sé ekki lengur í boði.“
Þrátt fyrir óskir um frekari skýringar hefur Seðlabankinn ekki skýrt þetta neitt frekar. En jafnvel fyrir lögfræðilega tjöruhausa eins og okkur hjá Fararheill er afar erfitt að setja samasemmerki milli „seðlar og mynt, sem bankinn gefur út, skulu vera lögeyrir til allra greiðslna“ og svo „Það er einungis sá greiðslumáti að greiða með reiðufé sem félagið hefur tilkynnt að sé ekki lengur í boði.“
Annaðhvort eru seðlar og mynt lögeyrir til allra greiðslna eða ekki!
Hvorki debet- og þaðan af síður kreditkort geta á nokkurn hátt flokkast sem jafngildi seðla. Greiðsla með kreditkorti er í raun tímabundið lán frá bankanum með tilheyrandi kostnaði og debetkort er rafrænn milliliður milli þín og peninganna þinna í bankanum og einnig með tilheyrandi kostnaði.
Með öðrum orðum: það kostar almenning að vera með og nota debet- eða kreditkort aukalega framyfir að brúka beinharða peningaseðla. Fyrir utan árgjald fyrir að mega nota plastið eru ýmis aukagjöld önnur sem detta á notendur eins og svokallað færslugjald. Guerlain hálsfestin verður sjálfkrafa 15 til 20 krónum dýrari sé greitt með debetkorti en með peningum um borð hjá Icelandair.
Engin færslugjöld eru sögð vera á kreditkortum en ef fólk les smáa letrið kemur í ljós að þar eru færslugjöld líka. Þau eru bara falin inn í árgjaldinu. Árgjaldi sem kostar frá þrjú þúsund krónum og upp í tugi þúsunda fyrir gullkort.
Í ofanálag hafa allmargar rannsóknir sýnt fram á að við eyðum mun meiri upphæðum með kortum en við gerum með peningaseðlum. Það tekur aðeins í að missa tíu þúsund króna seðilinn en flestir henda fram korti hugsunarlítið og áhyggjulaust. Áhyggjurnar koma síðar þegar reikningurinn kemur í hús.
Tvær aðrar staðreyndir skipta líka máli. Annars vegar að það eru ekki allir sem geta fengið debit- eða kreditkort. Fólk sem er í vondum fjárhagslegum málum fær alla jafna engin kort hjá bönkunum né kreditkortafyrirtækjum og verður að gera sér að góðu að svelta í fluginu ella panta þessi „utankjörstaðakort“ eins og I-kort þar sem vextir og gjöld eru margföld á við hefðbundin kort. Hins vegar að fjölmargir aðilar geta skoðað neyslu fólks þegar kort eru brúkuð. Hvað vitum við hvað bankarnir, Icelandair eða kreditkortafyrirtækin gera við þær upplýsingar? Er slíkt til sölu kannski?
Fararheill ítrekar afsökunarbeiðni til Icelandair en lýsir jafnframt algjöru frati á Seðlabanka Íslands. Það er neytendum alls ekki í hag að fyrirtækin geti ákveðið sísona hvort íslenskir peningaseðlar séu greiðsluhæfir eða ekki fyrir vörur og þjónustu. Þvert á móti.







