Cape Town í Suður Afríku er sú borg heims sem laðar að sér hlutfallslega flesta samkynhneigða ferðamenn en velflest þau lönd sem taka vel á móti samkynhneigðum njóta þess í auknum ferðamannafjölda.

Hingað sækja hlutfallslega flestir samkynhneigðir ferðamenn. Mynd Damien du Toit

Hingað sækja hlutfallslega flestir samkynhneigðir ferðamenn. Mynd Damien du Toit

Samkynhneigðir eru sívaxandi partur af ferðamönnum í veröldinni og sérstaklega þykir sannað að þeir sem leyfi hafa í heimalandinu til að gifta sig ferðast í kjölfarið eins og aðrar hefðbundnar fjölskyldur og oft á tíðum með börn með sér úr fyrri samböndum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í stórri skýrslu Alþjóða ferðamálastofnunarinnar, UNWTO, en sú er fyrsta skýrslan þar sem litið er sérstaklega á ferðalög samkynhneigðra og áhrif þeirra ferðalaga á þau lönd sem samkynhneigðir heimsækja helst. Þó samkynhneigðir geti tæknilega heimsótt sömu lönd og allir aðrir eru víða ströng viðurlög við að sýna samkynhneigð sína opinberlega og til eru lönd þar sem slíkt er ávísun á dauðadóm.

Skýrslan, sem unnin var í samvinnu við International Gay & Lesbian Travel Association, sýnir að ferðalög samkynhneigðra geta skipt töluverðu máli í stóru myndinni enda tekjur margra homma og lesbía í vestrænum löndum á pari við það sem gerist hjá hefðbundnum fjölskyldum. Það er því ekki eftir minna að slægjast þar fyrir lönd sem vilja auka ferðamannastraum almennt.

Í Bandaríkjunum skjóta menn á að samkynhneigðir séu í heild um fimm prósent allra ferðamanna en þessi tala hækkar verulega í tilviki Cape Town. Þar telja hommar og lesbíur fimmtán prósent allra erlendra ferðamanna. Munar aldeilis um minna.