Bærinn Roquetas de Mar í Almeríuhéraði á Spáni hefur síðustu misserin komist í bækur íslenskra ferðalanga sem þrá sól, sand og sjó og það á sem ódýrastan hátt. Hafa verið í boði sólarlandaferðir þangað um tíma frá Íslandi og þær notið vinsælda enda veturnir erfiðir mörgum Fronbúum.

Það verður að segjast að bærinn sjálfur er lítt merkilegur enda hefur hann á fáum árum breyst úr litlu fiskimannaþorpi með 30 þúsund íbúa í vinsælan ferðamannastað með 70 þúsund íbúa og er Roquetas orðinn annar vinsælasti ferðamannastaðurinn á Costa del Almería ströndinni. Vart þarf að taka fram að helmingur bæjarbúa eru af erlendu bergi brotnir.

Má því segja að Roquestas de Mar, sem gróflega útleggst sem Steinvölur hafsins, sé á leið að verða hefðbundinn sólardvalarstaður á borð við Benídorm og hafi misst sín bæjareinkenni að mestu. Fiskimenn starfa reyndar enn hér en þeim fækkar ár frá ári.

Þetta er eingöngu bær til að sleikja sól og slaka því mikið annað er einfaldlega ekki í boði nema fara úr bænum.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Almeríu, Aeropuerto de Almeria,  er í 40 kílómetra fjarlægð frá Roguetas de Mar en aðeins 9 kílómetrum frá Almeríuborg sjálfri sem er höfuðborg héraðsins sem ber sama nafn. Almeríuborg ásamt Ejida eru einu alvöru borgirnar í héraðinu öllu.

Í skipulögðum hópferðum er jafnan rúta í boði á áfangastað og ekki þarf að hafa áhyggjur af því að komast á áfangastað. Fyrir aðra getur verið ráð að taka bílaleigubíl á flugvellinum. Er það í raun nauðsyn ef ekki á að dvelja eingöngu í Roquetas de Mar allan tímann. Bílaleigur eru fjórar á flugvellinum.

Leigubíll eða skutla getur komið fólki áleiðis til Roquetas á 30 mínútum eða svo. Hægt er að díla aðeins við bílstjóra leigubifreiða en skutlurnar eru jafnan með fast verð. Gróflega má áætla að leigubíll aðra leið kosti átta til tíu þúsund krónur plús farangursgjald. Skutlur taka gjald miðað við fjölda farþega og lækkar gjaldið því fleiri eru sem ferðast. Fjórir saman komast alla leið fyrir fjögur þúsund krónur á mann en jafnan þarf að bóka slíkar skutlur með fyrirvara.

Allra ódýrasta leiðin frá flugvellinum er með strætisvagni til Almeríuborgar. Vagn 20 fer milli flugstöðvarinnar og miðbæjar Almería á 50 mínútna fresti og kostar 220 krónur stakt far. Í Almeríu verður hins vegar að finna rútustöð bæjarins og taka sér far með vögnum Alsa til Roquetas. Þar á milli fara þrír til fjórir vagnar daglega. Þetta er þó fullmikið vesen fyrir flesta en getur þó sparað nokkra þúsundkalla ef fólk er nákvæmlega ekkert að flýta sér.

Söfn og sjónarspil

Illu heilli er fátt markvert að skoða sérstaklega í Roquetas de Mar. Hann var hefðbundinn andalúsískur smábær í fyllstu merkingu þess orðs en hótel, veitingastaðir og afþreyingarfyrirtæki hafa breytt ásýnd bæjarins. Helst ber þó að nefna:

>> Rósarfrúarkirkjan (Iglesia de Nuestra Senora del Rosario) – Hefðbundin spænsk átjándu aldar kirkja og lítt merkileg í neinni merkingu þess orðs. Sú er opin skoðunar alla jafna meðan ekki er verið að messa um helgar. Sú stendur við Plaza de la Constitución.

>> Santa Ana kastalinn (Castillo de Santa Ana) – Kastali einn frá sextándu öld er helsta aðdráttaraflið í Roquetas de Mar. Hann er verður skoðunar en stenst engan samanburð við tilþrifamikla kastala víða á Spáni og í Evrópu. Kastalinn stendur við hlið vita bæjarins sem einnig er fallegur og á stundum opin skoðunar. Kastalinn er opinn og aðgengi ókeypis. Af toppi hans er ágætt útsýni yfir höfn bæjarins.

>> Stóratorg (Gran Plaza) – Stærsta verslunarmiðstöðin í bænum með gott úrval verslana og þar á meðal margra sem Íslendingar elska að heimsækja. Hún stendur eilítið til norðausturs af borginni og er í göngufæri frá ströndinni ef fólk fær nóg af sól og sandi.

>> Ströndin (La Playa) – Aðaladráttarafl Roquetas de Mar er þriggja kílómetra löng ströndin við bæinn. Sú er vissulega falleg og mun hreinni en víða annars staðar á Spáni. Það helgast að hluti til af því að ferðamenn eru hér mun færri en á vinsælli stöðum. Plúsinn við það er að hér er aldrei troðið á ströndinni og pláss fyrir alla vandræðalaust. Ýmislegt er í boði fyrir sóldýrkendur. Vatnasport hvers konar, bátsferðir og eða köfun og jafnvel hestaferðir eftir ströndinni.

>> Sædýrasafnið (Aquarium Roquetas de Mar) – Sæmilegt sædýrasafn er að finna í Roquetas de Mar og tilvalið að bregða fæti þar inn ef smáfólk er með í för. Fyrir vel siglda ferðamenn er þetta þó ekkert til að missa svefn yfir þó engin verði ferðin á þetta safn. Avenida Reina de España. Opið 10 til 19 daglega nema mánudaga og þriðjudaga. Aðgangseyrir 1.900 krónur fyrir fullorðna og 1.400 fyrir börn að 14 ára aldri. Heimasíðan.

>> Nautahringurinn (Plaza de Toros) – Ósköp hefðbundinn nautahringur en fyrir þá sem ekki þekkja slíkt er hann þess virði að heimsækja. Á stundum er leikvanginum breytt í tónlistarvang. Nautahringurinn stendur við samnefnt torg.

Aukinheldur eru rómverskar rústir sem sjá má í bænum en þær ekki stórmerkilegar ásýndar. Reyndar er við Torrequebrada einnig að finna rústir sem fornleifafræðingar hafa dagsett aftur til Föníkumanna en þær eru kannski ekki þess eðlis að nútíma ferðamaðurinn missi vatn yfir þeim. Mest heillandi er þó smábátahöfnin en þar er helst að finna allsæmilega smáréttabari og veitingastaði.

Einn golfvöllur, Playa Serena, er innan bæjarmarkanna og er sá aldeilis ágætur. Hér er einnig nautaatshringur og fara fram stærri viðburðir þar fjórum til fimm sinnum á ári.

Verslun og viðskipti

Nei! Ef frá er talið hið hefðbundna glingur sem ferðamönnum bjóðast á sólarstrandstöðum er hér fátt sem er þess virði að eyða peningum í nema matur og húsaskjól.

Matur og mjöður

Engir staðir hér með Michelin stjörnur og reyndar töluvert frá því. Sum hótelin sem bjóða hlaðborð mörg hver eru ágæt en þeir veitingastaðir sem hér finnast eru ekkert til að skrifa heim um. Allbærilegir tapas barir er að finna við smábátahöfnina.

Barir eru hér í tonnavís og margir reknir af aðkomufólki. Flestir afgreiða þeir einhvers konar mat sem oftar en ekki á lítið skylt við spænska matargerð. Sé þannig hamborgari og franskar á óskalistanum er vænlegra að fara á barina.

Líf og limir

Roquetas de Mar er tiltölulega öruggur staður til að vera á. Smáþjófnaðir tíðkast en að öðru leyti er ekkert sem varast ber sérstaklega meðan dvalist er á staðnum.

Vagg og velta

Heimamenn hér fagna jólum og páskum á hefðbundinn spænskan máta en það er ein árleg hátíð hér sem er forvitnileg þess utan. Það er hátíð tileinkuð Dóttur hafsins milli 23. ágúst og 1. september. Þá er hafinu þakkað góðar gjafir gegnum tíðina og ýmislegt gert til skemmtunar.

Þá fer hér líka fram Pulpop tónlistarhátíðin sem er minniháttar tónlistarhátíð þar sem fram koma spænskar hljómsveitir sem unga fólkið fílar. Ólíklegt er að erlendir gestir þekki til þeirra sveita en hátíðin setur þó svip á bæinn á meðan.

View Larger Map[/vc_raw_html]