Innblástur

Rómantískast í Retiro í Madrid

  02/03/2012mars 23rd, 2021No Comments

R itstjóri tímaritsins Séð og heyrt, Lilja Katrín Gunnarsdóttir, þarf ekki að hugsa sig lengi um aðspurð um rómantískasta stað sem hún hefur upplifað. Það er hinn stórskemmtilegi Retiro garður í Madríd á Spáni.

Fararheill hefur oft fjallað um garðinn atarna sem er með sanni stórkostlegur, hér og hér, en Lilja Katrín sem bjó um tveggja mánaða skeið í hinni merku borg Granada í Andalúsíu segir rómantískan garð það eina sem vantað hafi í þá borgina.

Þó verði sennilega alltaf að hafa í huga að spænskir piltar og menn séu aftarlega á meri hvað samskiptum viðkomi og því sé kannski erfitt að upplifa sanna rómantík þegar ekki sé hægt að ganga um götur og torg án þess að blístur og köll komi í kjölfarið. Aðeins með því að láta það ekki pirra sig sé hægt að upplifa sig hamingjusama.

Ég bjó í tvo mánuði í Granada á Spáni og sú borg á enn sérstakan stað í hjarta mínu. Í þeirri borg mætast tveir menningarheimar, spænsk menning annars vegar og arabísk hins vegar. Guðdómlega fallegur staður með mörgum litlum perlum út um allar trissur. Eina sem vantar í Granada er rómantískur garður en hann er að finna í Madrid – Parque de buen retiro. Þar getur maður farið út á bát með fólkinu sem maður elskar og bara notið líðandi stundar. Ef maður nær að hunsa flautandi Spánverja í stuttbuxum, hrikalegu tónlistina á hverjum einasta bar og grautfúlt skopskyn innfæddra getur Spánn verður rómantískasti staður í heimi.

En þó klisjukennt sé að segja á Lilja Katrín enn eftir að heimsækja þann stað sem í hennar huga er líklega rómantískasti staður heims; París. Hún segist líklega vera búin að plata sinn heittelskaða til að heimsækja þá borg sumarið 2012.

Mér finnst þetta ein af þessum borgum sem ég mun bara heimsækja einu sinni og ég ímynda mér að það leynist töfrar á hverju götuhorni. Ég sé mig fyrir mér valhoppandi milli tískubúða í engum sokkabuxum með rauðvín í annarri og baguette í hinni. Ætli Eiffel turninn verði ekki lokaður þegar ég heimsæki borgina í sumar og Louvre líka. Það væri nú alveg típískt!