A llmörg ár eru nú liðin síðan bærinn Rimini á austurströnd Ítalíu var einn af höfuðáfangastöðum Íslendinga sem efni höfðu á að ferðast. Um tíma naut þessi áfangastaður jafn mikilla vinsælda og Mallorca sem á þeim tíma var sá allra vinsælasti.
Þó synd sé frá að segja hefur ferðamannaiðnaður sett ljótan blett á þennan annars ágæta bæ og þó enn sé hann vinsæll hefur Rimini að nokkru fengið á sig svipaðan stimpil og Benídorm á Spáni; sálarlaus bær þar sem allt snýst um túrisma. Gengur enda Rimini undir gælunafninu bær hinna þúsund hótela.
Þó hefur sú þróun átt sér stað allra síðustu árin að Rimini er að breytast úr fjölþjóðlegum áfangastað í ítalskan áfangastað. Ítalir sjálfir sækja nú Rimini í meira mæli en aðrir. Það er reyndar til bóta að margra mati enda hefur fyrir vikið fjölgað góðum veitingastöðum og verslunum sem selja annað og betra en nærboli og strandskó.
Til og frá
Rimini hefur sinn eigin flugvöll. Federico Fellini flugvöllur, Aeroporto di Rimini, er aðeins í sjö kílómetra fjarlægð frá bænum sjálfum og þaðan fara rútur reglulega á milli. Eru vagnarnir merktir númer 9 og fara milli flugvallarins og lestarstöðvar bæjarins á hálftíma fresti. Frá henni er stutt í öll helstu hótel. Hver miði kostar 180 krónur.
Ratvísi
Ekkert vandamál hér á ferð. Bærinn er ekki stór og liggur eðlilega meðfram ströndinni. Mesta lífið er við hana og í nálægum götum og þar eru líka velflest þeirra þúsund hótela sem hér eru. Hér er meira eða minna allt merkilegt í göngufæri og nóg af leigubílum vilji menn fara annað og lengra.
Söfn og sjónarspil
> Flugsafnið (Parco Tematico dell´Aviazione) – Stutt frá bænum er að finna þetta safn sem áhugamenn um flug og styrjaldir ættu að finnast áhugavert. Ýmsar þotur, þyrlur og flugtæki til sýnis hér. Opið daglega 9 – 18. Aðgangseyrir 1400 krónur. Heimasíðan.
> Fellini safnið (Casa Museo Fellini) – Ítalski kvikmyndaleikstjórinn Federico Fellini er þjóðhetja í landinu og eitt af nokkrum söfnum alls er staðsett hér. Forvitnilegt fyrir kvikmyndaunnendur en varla fyrir aðra. Aðeins opið um helgar milli 12 og 17 og á hátíðisdögum. Ókeypis aðgangur. Heimasíðan.
> Sjávardýrasafnið (Museo Delle Conchiglie) – Sjávardýrasafn í betri kantinum og fjölmargt að sjá og skoða. Munir ýmis konar úr hafinu og úrval planta og dýra sem fundist hafa víðs vegar í Miðjarðar- og Adríahafi. Safnið stendur við Via Paolo Guidi götuna. Opið 16 – 19 alla daga frá júní til september. Aðgangur frír.
> Gumbalunga bókasafnið (Biblioteca Civica Gambalunga) – Eitt merkilegasta bókasafn í landinu með rúmlega 200 þúsund bækur alls. Þetta er líka fyrsta bókasafn Ítalíu sem stjórnvöld ráku og opnuðu almenningi. Opið 8 – 19 alla virka daga og milli 8 og 13 á laugardögum. Heimasíðan.
> Hlið Ágústusar (Arco di Augusto) – Ágústus keisari lét byggja vegleg hlið í hvert sinn sem hann vann orrustu og eitt þeirra er að finna í Rimini. Það stendur í miðbæjarhluta bæjarins og vart komist hjá því að labba þar um.
> Brú Tíberíusar (Ponte di Tiberio) – Mikilvægastu fornminjar í Rimini er þessi ágæta brú sem er afskaplega falleg smíð. Heimamenn kalla hana reyndar Djöflabrú og tengjast henni miklar þjóðsögur. Brúin hins vegar eitt allra besta dæmið um kunnáttu og tækni Rómverja í brúarsmíði og sér varla á henni enn þann dag í dag þrátt fyrir að vera byggð fjórtán árum eftir fæðingu Krists. Öðru máli gildir um ánna undir henni en sú hefur snarminnkað.
> Malatesta kirkjan (Templo Malatestiano) – Kaþólskum Ítölum þykir spennandi að skoða kirkju staðarins sem er allgóð til brúks og forvitnileg skoðunar en varla fyrir þorra erlendra ferðamanna sem þangað kemur til að njóta sjávar og sólar.
Staður og stund
Ströndin á Rimini er æði falleg og sandurinn mjúkur sem barnsrass. Sjálfur er sjórinn ekki ýkja tær en þó hreinni en víða á Spáni svo dæmi sé tekið. Töluvert sjávarlíf á þessum slóðum og kjörið að fara í siglingu aðeins út fyrir grunnsævi.
Í Rimini er tæknilega séð gamall bæjarhluti en hann þykir lítt spennandi og ferðamenn flestir gera sér ekkert far um að rölta þar sérstaklega.
Verslun og viðskipti
Ágætar verslanir er að finna í miðbæ Rimini og úrval þeirra ágætt. Þar finnast útibú frá stóru merkjum landins sé heillandi að eignast nýjustu töskunar frá Gucci eða D&G.
Meðfram ströndinni eru fyrst og fremst skransalar á ferð og auðvitað sölumenn á vappi um allt með glingur til sölu.
Ein verslunarmiðstöð er í bænum og kemst enginn hjá því að taka eftir henni enda stór og mikil. Le Befane heitir sú og er opin alla daga frá 9 – 21.
Verðlag í bænum er bærilegt.
Matur og mjöður
Það kunna Ítalir að matreiða og Rimini er ekkert frábrugðin að því leytinu. Margir fínir fjölskyldustaðir um allan bæ og margir bjóða alls kyns tilboð í hádeginu eða á kvöldin.
Til umhugsunar: Margir smærri veitingarstaðirnir í Rimini eru lítt fyrir augað og sumir jafnvel verri en það. Látið það ekki blekkja því þar er oft á borðstólnum besti og ferskasti matur sem þú færð í bænum.
Gera má ráð fyrir að borga milli 900 og 1400 krónur fyrir ágætan kvöldverð á meðalstað.
Gnótt er að börum og pöbbum og engin vandræði að finna írska, breska, franska eða aðra pöbba sem vinsælir eru á sólarströndum.
Djamm og djúserí
Það er húrrandi sólstrandastuð eftir að skyggja tekur yfir annatímann á sumrin í Rimini. Fjölmarga bari og pöbba er þar að finna og sé stuð í kroppnum er lítið mál að finna stað við hæfi. Reyndar er enginn næturklúbbur í bænum sem heitið getur en margir stærri barirnar hafa dansgólf svo það ætti ekki að koma að sök.
Líf og limir
Ekkert að óttast hér umfram það sem óttast skal á vinsælum sólarströndum. Þjófar eru á ferð en fyrst og fremst eru það veski og símar sem þá heilla. Konum er að mestu óhætt að þvælast um en hafa skal í huga að ítalskir karlmenn eru alls ófeimnir við að sýna áhuga og geta orðið þreytandi og uppvöðslusamir.