Það er sáraeinfalt að gera sér í hugarlund að hvergi sé ljúfara eða skemmtilegra að vera en meðal lífsglaðra Brasilíumanna og það yfir heimsmeistaramót í knattspyrnu þar sem flestir helstu veðbankar telja mestar líkur á sigri heimamanna. 

Það kostar drjúgari skilding en menn halda að leika sér í Ríó eða Sao Paulo meðan á HM stendur. Mynd Luiz Silva

Það kostar drjúgari skilding en menn halda að leika sér í Ríó eða Sao Paulo meðan á HM stendur. Mynd Luiz Silva

En það eru sterkar líkur á að þeir sem þangað eru farnir eða á leiðinni eigi eftir að fá eitt sjokk eða fleiri áður en það glittir eitthvað í bros og gleði.

Þessir sömu fengu sennilega nasaþef af herlegheitunum þegar flugið var bókað en eins og Fararheill skýrði frá í desember hafði það ráðuneyti Brasilíu sem fer með neytendamál þá þegar höfðað mál á hendur einum sjö flugfélögum fyrir að snarhækka verð á flugi til og frá landinu þann tíma sem keppnin stendur yfir. Þeir sem ekki voru búnir að tryggja sér flugmiða snemma á síðasta ári voru því að greiða allt að 40 prósent hærra verð fyrir miðann en í meðalári.

Síðan hvenær hafa hótel- og gististaðaeigendur í heiminum ekki hækkað verð sín þegar von er á stórum hópum erlendra ferðamanna til skamms tíma og gistirými af skornum skammti? Svarið liggur í augum uppi og svo er líka upp á teningnum í þeim borgum brasilískum þar sem HM fer fram. Dagblaðið O Globo segir frá því að í Sao Paulo og Ríó svo tvö dæmi séu tekin sé verð á hótelherbergi ekki minna en þrefalt dýrara yfir HM en venjan er.

Síðast en ekki síst skýrir fréttastofan AP frá því að verð á öllu því sem heimamenn telja víst að hægt sé að selja erlendum knattspyrnuáhangendum sé komið fram úr öllu hófi. Tíu tommu pizza kostar í Sao Paulo rétt tæpar fimm þúsund krónur, einfaldur caipirinha kokteill fæst kringum 1.800 krónur en fæst venjulega á fimm hundruð kallinn á flestum stöðum.  Meira að segja aumingjalegur ostborgari frá McDonalds kostar nú 2.600 krónur í Ríó og Sao Paulo.

Reiknast AP til að fyrir meðalferðamanninn sem gistir í þessum borgum, grípur eitthvað matarkyns og nokkra bjóra með eyði ekki minna en 78 þúsund krónum hvern einasta dag. Þar af kostar nótt á hóteli vart undir 50 þúsund krónum.

Þá á enn eftir að kaupa miða á völlinn og jafnvel berjast á hæl og hnakka klukkustundum saman til að verða sér úti um einn slíkan. Sem gerir sennilega ekkert annað en tryggja sæti efst í stúku Z þar sem lítið sést.

Nei, það eru menn almennt betur settir heima í stofu jafnvel þó aldrei verði tekið af Brasilíumönnum að lífsgleði er í genunum.