S jaldan öll vitleysan eins í tólf vindstigum. Viðskiptablaðið slær því upp á forsíðu að „flugfélagið” Play ætli að sækja sér fjármagn með hlutafjárútboði. Ætli á markað eins og það er orðað. Ennfremur að jómfrúarflugið sé rétt handan við hornið.

Í þriðja skipti tilkynnir Play að jómfrúarflugið sé alveg að detta. Mynd Play

Jedúddamía! Þetta meikar næstum sama sens og að Fararheill ætli á markað. Við erum þó sannarlega með vöru í höndunum ólíkt Play.

Látum okkur sjá. Play hefur tvívegis áður gefið upp að jómfrúarflugið sé rétt handan við hornið. Play hefur engar vélar til umráða. Play hafði í lok síðasta árs ekki fengið flugrekstrarleyfi. Play hafði í lok síðasta árs ekki tryggt sér fjármagn til reksturs.

Hvernig hljómar fjárfestakynning flugfélags sem hefur engar vélar, engin leyfi og ekkert kred eftir innihaldslausar yfirlýsingar um næstum tveggja ára skeið? Væri gaman að vera fluga á þeim vegg.

Ekki svo að skilja að við séum á móti nýju lággjaldaflugfélagi. Þvert á móti fögnum við því og hið sama ættu allir landsmenn að gera. En það var ekki Kófinu um að kenna, eins og Viðskiptablaðið segir, að áætlanir Play í upphafi fóru út um þúfur. Það var fíflaháttur stjórnenda. Haustið 2019 rándýr kynning í Hörpu, síðan rándýrt partí í Bláa lóninu og yfirlýsingar um að sala farmiða hæfist á næstu dögum. Flug átti að hefjast í byrjun árs 2020 eða tveimur mánuðum áður en Kófið setti allt á annan endann.

Play var bara aldrei með nægt fjármagn í upphafi nema til að halda súperkynningu og partí. Og ef marka má grein Vb vantar töluvert fjármagn til viðbótar til að hefja starfsemi á þessari stundu. Hvernig jómfrúarflug er á næstu vikum án fjármagns er spurning sem blaðamenn Vb hirða ekkert um að reyna að svara. Rætt hefur verið við lífeyrissjóði landsmanna til að fjármagna verkefnið en vonandi tekur enginn þátt í því. Miðað við frammistöðu forsvarsmanna fram til þessa er ekki neitt sem mælir með að ævisparnaður landsmanna verði brúkaður til að koma Play á koppinn.

Svo er stórundarlegt að Viðskiptablaðið sýni ekki snefil af gagnrýni í grein sinni um flugfélag sem ennþá er ekki orðið flugfélag.