Hvað skal segja um lastabælið Pattaya? Segja má að það velti á tveimur atriðum. Annars vegar hvort lesandinn er einmana karlmaður eða hvort lesandinn er ekki einmana karlmaður. Sá fyrrnefndi mun una hag sínum vel en þeir síðarnefndu gætu mögulega dugað hér í þrjá til fjóra daga án þess að fá upp í kok.
Það er ekkert leyndarmál að bærinn Pattaya er eitt mesta kynlífsbæli Asíu og þótt víðar væri leitað. Þangað hafa komið síðustu 20 árin karlmenn í stríðum straumum því þar finna þeir svo margt sem þeir fara á mis við heimafyrir. Gleði fá þeir, bros og töluvert fleira hjá ungum stúlkum sem gæfu þeim ekki tíma dags í vestrænum löndum. Ekki sakar heldur að úrvalið er mikið og gott ef svo má að orði komast og fylgdarkona, hvort sem er í klukkustund eða heila viku, kostar aðeins smápeninga fyrir flesta erlenda ferðamenn.
Fjölmörg pör koma hingað til að sóla sig og sjá dýrðina með eigin augum en fjölskyldufólk er vandfundið og ekki skrýtið enda fátt hér ýkja spennandi fyrir fjölskyldur. Strönd Pattaya er með þeim lakari í öllu Tælandi og verslanir þær er hér eru bjóða undantekningarlítið upp á sama draslvarninginn sem jafnvel kaupglöðustu húsmæður fá nóg af eftir sólarhring. Söfn eða áhugaverða staði er hægt að telja á fingrum einhents manns.
Til og frá
Skemmst er frá að segja að til Pattaya verður aðeins komist með bíl eða rútu. Næsti flugvöllur er í Bangkok og gera má ráð fyrir að rúnturinn á milli taki eina og hálfa klukkustund þó það sé teygjanlegt og fari eftir því hversu klikkaðan bílstjóra fólk notar. Margir þeirra tælensku aka greitt og skjóta óvönum gjarna skelk í bringu.
Allra einfaldast er að vera búinn að útvega sér bíl áður en lent er í Bangkok því flug þangað er verulega langt og fólk misjafnlega upplagt að finna leigubíl eða prútta um verð eftir sjö til fjórtán tíma flug eins og algengt er fljúgi fólk frá Evrópu. Slíkir bílar, sem hótelin sjálf senda gjarnan sé þess óskað, kosta milli 10 og 14 þúsund krónur.
Sé hins vegar orka í fólki skal hiklaust halda út í leigubílaröðina fyrir utan flugstöðina og díla sig vitlausan. Hægt er að fá akstur til Pattaya niður í 6 þúsund krónur en þá þurfa prútttilburðirnir að vera góðir.
Rútur fara á tveggja klukkustunda fresti frá Suvarnabhumi flugstöðinni til Pattaya. Taka skutluna úr flugstöðinni að umferðarmiðstöð við hlið flugvallarins en þaðan fara rúturnar. Eru þær loftkældar og tiltölulega fljótar í ferðum og kostnaður per mann aðeins 500 krónur.
Loftslag og ljúflegheit
Pattaya nýtur þess í þaula að nokkur vindur blæs stöðugt af sjónum yfir bæinn og því er hiti í sjálfu sér ekki vandamál. Raki er hins vegar töluverður og finnst það best þegar nátta tekur. Hitastig yfir daginn fer sjaldan niður fyrir 28 stig og er oftast kringum 32 ársins hring.
Samgöngur og snatterí
Pattaya skiptist í norðurhluta, miðhluta og suðurhluta. Sem fyrr segir er afskaplega takmarkað að sjá og skoða í bænum og fyrir hinn hefðbundna ferðalang er engin þörf á öðrum fararmáta en tuk-tuk bílum sem eru víða. Hægt er að rölta um bæinn fyrir gönguglaða en það kostar svita á svita ofan.
Í raun þarf aðeins að læra á tvær einstefnugötur til að upplifa það allra helsta í þessum bæ. Strandgatan, Beach Road eða Thanon Hat, liggur meðfram ströndinni eins og nafnið ber með sér og svokölluð Önnur gata, Second Street, liggur samhliða henni með litlum smágötum á milli. Tuk tuk vagnar aka endalaust hringinn á þessum tveimur götum.
Hin heimsfræga og kannski illræmda Göngugata, Walking street, liggur beint út frá Strandgötunni til suðurs en það er þar sem stuðið er hvað klikkaðast og stelpur og stelpustrákar fylla hvern einasta kima. Það verða menn að upplifa á eigin skinni minnst einu sinni.
Tuk tuk vagnarnir eru víða. Þeir fara ákveðinn hring og kostar far fyrir einstakling 10 baht, 39 krónur, en einnig er hægt að leigja þá til að fara annað innan bæjarins en um það skal semja í upphafi ferðar. Engin ferð innan bæjarmarka ætti að kosta meira en 150 baht eða tæpar 600 krónur.
Hefðbundnir leigubílar eru hér líka sem og mótorhjólasendlar sem skjótast með fólk milli staða. Ódýr kostur og fljótlegur en hafa skal tryggingar í lagi enda aka þeir eins og fjandinn sé á hælum þeirra og slys tiltölulega algeng.
Söfn og sjónarspil
Fáir þeirra þriggja milljóna ferðamanna sem heimsækja Pattaya árlega eru spenntir fyrir söfnum bæjarins enda af fáu að taka. Aðeins þrjú slík eru í bænum og er þá orðið safn notað í afskaplega víðri merkingu.
> Flöskuskeytasafnið (Bottle Art Museum) – Lítið en forvitnilegt safn skipa og annarra minnismerkja í flöskum. Það eina sinnar tegundar í veröldinni. Það stendur við Kingston Park. Opið daglega 9 – 18. Aðgangur 970 krónur fyrir fullorðna. Heimasíðan.
> Ripley´s furðusafnið (Ripley´s Believe It or Not) – Ekki safn í eiginlegri merkingu heldur meira sýning á furðulegheitum heimsins. Mikið lagt upp úr skemmtun og krakkar hafa gaman hér. Það er staðsett á þriðju hæð á verslunarmiðstöðinni Royal Garden Plaza á Strandveginum. Opið 11 – 23 alla daga. Aðgangur 1500 krónur. Heimasíðan.
> Flotsafnið (Floating Market) – Aftur ekki safn í eiginlegri merkingu en þó hér búið að endurskapa flotmarkað fyrri tíma með tilheyrandi matföngum. Þessi er þó eingöngu eftirlíking enda var aldrei flotmarkaður í eða við Pattaya. Forvitnilegt og möguleiki að bragða á góðgæti á borð við engisprettur og kóngulær. Heimasíðan.
> Búddahæð (Pattaya Buddah Hill) – Hæsti útsýnispunkturinn yfir Pattaya og næstu strönd Jomtien er af toppi Búddahæðar. Er það helgur staður fyrir heimamenn enda rís þar stór stytta af goðinu skreyttu gulli. Útsýnið flott héðan til allra átta.
> Nong Nooch garðurinn (Nong Nooch Tropical Gardens) – Stórglæsilegur lystigarður í 20 mínútna fjarlægð frá Pattaya. Fyrirtaks áfangastaður hálfan dag eða svo enda margt að sjá og skoða. Blóm og dýralíf, fílar að spila fótbolta og endurgert gamalt tælenskt þorp svo fátt eitt sé nefnt. Allir leigubílstjórar vita hvar garðurinn er staðsettur. Opinn daglega milli 9 og 18. Aðgangur 1800 krónur. Heimasíðan.
> Milljón ára garðurinn (Million Years Stone Park) – Í þessum garði má ekki aðeins finna dásamleg blóm og plöntur heldur ekki síður krókódíla. Flestir tamdir og starfsmenn setja á svið sýningar þeim tengdum. Þá er hér dýrasafn líka þótt lítið sé. Forvitnilegt í meira lagi. Yfir háannatímann má hér ennfremur komast á fílsbak stundarkorn. Opið daglega 10 – 18. Aðgangur 1400 krónur. Heimasíðan.
> Strákastelpusýning (Tiffany Show) – Strákastelpur eru vinsælar í Tælandi og hér má sjá þá/þær spóka sig um á sviði og sýna allt sitt besta. Kannski ekki fyrir alla en margir hafa gaman af þessu. Tiffany byggingin á Strandgötunni. Sýningar öll kvöld. Miðasala fyrir utan.
Verslun og viðskipti
Aðeins eru tólf ár síðan engin einasta verslunarmiðstöð var í Pattaya. Í dag eru þær fimm talsins auk nokkurs fjölda smærri miðstöðva sem ná verslunarmiðstöðvarstimplinum ekki alveg. Þess utan er tonn af verslunum í hverri einustu götu hér svo að segja en langflestar selja sama túristadraslið; boli, strandskó og annað slikkerí.
Aðeins þarf að taka einn hring með tuk tuk til að aka framhjá öllum verslunarmiðstöðvunum en þær eru:
- Central Festival Centre á Second street
- Mike Shopping Mall á Strandgötunni
- Royal Garden á Strandgötunni
- Big C á Strandgötunni
- The Avenue á Strandgötunni
Þess utan eru tvær aðrar stórverslanir utan þessa svæðis. Þær eru öllu minni og úrvalið líka. Nokkrir markaðir eru hér einnig. Einn er við Göngugötuna, Walking street, og annar er Naklua markaðurinn í norðurhluta bæjarins.
Til umhugsunar: Þó tælenska bahtið hafi snarhækkað gagnvart krónunni um nokkurn tíma má enn gera ágæt kaup í Tælandi. Pattaya er þó of soðinn af útlendingum sem bera ekkert skynbragð á verðlag og kaupa hvað sem er á hvaða verði sem er. Sé ætlunin að versla alvarlega eru aðrir staðir eins og Bangkok mun betri en Pattaya.
Algengt verð á litlum bjór á bar eða veitingastað í Pattaya er um 330 krónur. Dós af bjór úr búð kostar um 140 krónur.
Matur og mjöður
Það verður að segjast eins og er að úrval af góðum veitingastöðum á Pattaya er ekkert. Víðast hvar má grípa götumat og allir barir selja eitthvað matarkyns en það er allt í eða undir meðallagi. Best er að veðja á veitingastaði betri hótela í bænum til að vera viss um að fá fyrsta flokks vöru.
Drykkir fást alls staðar hvenær sem er sólarhringsins hvort sem er á börum eða í búðum. Varast skal að versla drykki á hótelum enda verðið minnst þrefalt hærra en annars staðar.
Líf og limir
Pattaya er undarlega öruggur bær þrátt fyrir allt saman. Alla jafna er öllum óhætt að rölta um að degi eða nóttu á helstu götum og helsta hættan er oftar en ekki þreytandi indverskir klæðskerar eða aðrir slíkir sölumenn.
Helst skal gæta sín í eða við hina frægu Göngugötu, Walking street, en þar er ekki ólíklegt að einhver áflog eigi sér stað þegar líða fer á næturnar. Túristalögreglan er þar í hópum og afgreiðir slíkt strax og örugglega en við því má búast. Þjófnaður er vandamál en þar ber að nota heilbrigða skynsemi eins og til dæmis að geyma veski og helstu verðmæti á hóteli áður en valsað er út að kvöldi eða nótt.
Moskító flugan er hér í essinu sínu eins og annars staðar í Tælandi og er óvitlaust að bera reglulega á sig og vera í síðbuxum þegar skyggja tekur. Önnur dýr ættu vart að vera vandamál í Pattaya.
Golf
Pattaya er fín bækistöð sé ætlunin að stunda golf. Átta vellir eru í innan við klukkustundar fjarlægð frá bænum. Þeir eru þó töluvert dýrir og golf almennt er dýrara í Tælandi en flestir gera sér grein fyrir.
Vellirnir kringum Pattaya eru:
- Burapha Golf Club – Tveir átján holu vellir sem báðir þykja alveg ágætir. Heimasíðan.
- Crystal Bay Golf Club – Miðja vegu milli Bangkok og Pattaya er þessi völlur sem fær ágæta dóma.
- Leam Chabang International Country Club – Einn af þeim betri í Tælandi enda hannaður af Nicklaus sjálfum. Upplýstur fram eftir kvöldum og því hægt að spila lengur. Verðið eftir því. Heimasíðan.
- Mountain Shadows Golf Club – Gamall völlur sem búið er að endurgera frá grunni. Heimasíðan.
- Pattana Golf – Risavaxið íþróttasvæði með bæði átján holu völl og 9 holu. Heimasíðan.
- Pattaya Country Club – Sæmilegur völlur í grennd við bæinn. Heimasíðan.
- Siam Country Club – Einn af þeim betri og erfiður sökum þess hve þröngar brautirnar eru. Heimasíðan.
- Treasure Hill Golf Club – Annar góður og ekki of fjölsóttur. Heimasíðan.
View Pattaya in a larger map