Ferðaþjónustuaðilar í New York í Bandaríkjunum glíma við erfitt vandamál. Pöddur eru farnar að hrekja ferðafólk frá borginni í töluverðum mæli.
Pöddur eru ekkert nýtt fyrirbrigði í New York en samkvæmt úttekt er ferðafólk farið að hugsa sig um tvisvar að dvelja þar sökum þess að varla finnst það hótel í borginni allri þar sem ekki hefur verið kvartað yfir pöddum. Nægir að lesa umsagnir um hótel í borginni á ferðavefmiðlum á borð við Tripadvisor til að sannfærast um að einu gildir hvort um fimm stjörnu hótel eða ódýrt gistihús er að ræða; pöddur finnast um allt.
Verstar þykja þær pöddur sem dvelja í rúmum hótela enda verulega erfitt að losna við slíka gesti. Geta það verið flær, lýs, bjöllur, maurar og jafnvel kakkalakkar sem þangað leita og oftar en ekki meðan fólk sefur svefni hinna réttlátu.
Er vandamálið orðið svo stórt að fjölmiðlar á borð við AP fréttastofuna eru farnir að fjalla um þessa óboðnu gesti sem halda orðið öðrum gestum frá.