Ritstjórn Fararheill.is þekkir dæmi þess að íslenskir ferðalangar hafi komið til síns heima á hóteli erlendis og uppgötvað að öryggishólfið, sem í voru geymd helstu verðmæti og vegabréf, reyndist horfið í heilu lagi.

Hefðbundið öryggishólf á hóteli. Oft á tíðum gefa hólfin afar falskt öryggi enda auðvelt að nema þau brott. Mynd e.c. Johnson

Hefðbundið öryggishólf á hóteli. Oft á tíðum gefa hólfin afar falskt öryggi enda auðvelt að nema þau brott. Mynd e.c. Johnson

Þegar um hefðbundin smærri öryggishólf er að ræða á hótelum er tími yfirleitt það eina sem til þarf til að nema þau á brott í heilu lagi án þess að nokkur verði þess var.

Þurfa þjófarnir aðeins nægan tíma til að svipta því af vegg eða gólfi með kúbeini, grípa undir og láta sig hverfa.

Á stundum þarf ekki einu sinni svo mikið til því sums staðar eru slík öryggishólf laus inni í skáp eða undir rúmi og þau eru ekki nógu þung til að einn eða tveir menn geti ekki dröslað þeim brott án mikillar fyrirhafnar.

En það eru fregnir að starfsfólk hótela, sem reglulega þurfa að opna öryggishólf fyrir gesti sem gleymt hafa lykilorði sínu, velji ekki merkilegra lykilorð til þess að nokkur núll.

Þetta upplifði ferðalangur einn á hóteli í Ontaríó í Kanada fyrir skemmstu og gerði um það myndband sem hann setti á vefinn í kjölfarið. Sést þar svart á hvítu að einu gildir hvaða fína lykilorð ferðalangar setja sem lykilorð ef yfirstjórn hótelsins ákveður svo að eintóm núll sé fínt lykilorð yfir línuna. Svona ef hótelgestur skyldi nú verða fyrir því að gleyma kóðanum sínum.

Ekki láta þér koma til hugar að treysta þeim öryggishólfum sem flest hótel bjóða upp á. Velflest starfsfólk kann kóðann til að opna upp á hár.