Tíðindi

Öllu tjaldað fyrir Heimssýninguna 2010

  28/03/2010maí 17th, 2014No Comments

Öllum sem á horfðu ber saman um að allt kringum Ólympíuleikana í Peking hafi verið fyrsta flokks og Kínverjar hafi staðið að þeim mikla viðburða með svo miklum myndarskap að illa verður eftir leikið. Sama gæti verið upp á teningnum varðandi Heimssýninguna þetta árið en hún hefst innan tíðar í hinni stórborg Kína; Shanghai.

Engum blöðum er um að fletta að hver einasta þjóð sem heldur Heimssýninguna tjaldar öllu til. Nægir í því tilliti aðeins að líta til Sevilla eða Lissabon sem héldu þessa miklu sýningu fyrir nokkrum árum. Þeir sem heimsækja þessar borgir í dag sjá svart á hvítu hversu mjög sú uppbygging sem þá varð hefur breytt þeim til batnaðar. Eru heimssýningasvæði beggja borga meðal vinsælustu stoppum ferðamanna fyrir utan að í báðum þessum borgum var hverfum í mikilli niðurníðslu snarbreytt til hins betra með tilheyrandi menningar og listastarfsemi.

Í Kína fara með sömu leið og breyta stóru svæði til að sýningin nú verði sem allra glæsilegust. Sýningin verður staðsett á sex ferkílómetra svæði við ánna Huangpu og gera skipuleggjendur ráð fyrir að 70 milljón gestir skoði sýninguna nú.

Byggingastarfi er að mestu lokið og langflest þeirra 200 þjóða sem þátt taka hafa lokið við að byggja skála sína en Ísland á þar fulltrúa. Níu byggingar alls munu hýsa sýningar þeirra þjóða sem þátt taka og þar er ekki um neinar blokkir í Breiðholti að ræða. Byggingarnar eru eigi síðri en þær glæsilegu hýsi sem byggð voru fyrir Ólympíuleikanna. Enda er það svo að mikill rígur er milli borganna tveggja og því mega gestir nú búast við jafnvel meira sjónarspili en gestir Peking fengu 2008.

Expo 2010 hefst formlega 1. maí og stendur sleitulaust alla daga til 31. október. Heimasíðan Expo 2010 hér.