Kóróna heldur áfram að kveikja elda í kapitalískum heimi okkar. Nú er stórfyrirtækið Norwegian komið að fótum fram og mögulega ekkert annað en gjaldþrot framundan. Nei, við ekki að tala um flugfélagið vinsæla heldur lúxusskipafélagið.

Norwegian þykir einna fremst í skemmtisiglingabransanum. En svo bregðast krosstré sem önnur. Mynd NCL
Norwegian Cruise Line, NCL, heitir fyrirbærið fullu nafni og er þriðja stærsta skemmtisiglingafyrirtæki heims á eftir Carnival og Royal Caribbean. Sem kunnugt er eru fá skemmtiferðaskip á siglingu um heimsins höf sökum kórónafaraldursins og velflestar slíkar siglingar óheimilar víðast hvar fram í miðjan júní að minnsta kosti.
Forsvarsmenn NCL hafa nú formlega gefið út að fyrirtækið þurfi að vinna duglega í lottóinu ef takast á að halda fyrirtækinu á floti. Lausafé dugar eitthvað út maímánuð en ef ekki tekst að ná í meira fjármagn á næstu vikum gæti fyrirtækið farið í þrot.
Norræna ferðaskrifstofan er með umboð hérlendis fyrir siglingar með NCL. Ágætt fyrir þau ykkar sem eiga mögulega bókaða siglingu á næstu mánuðum að kanna réttarstöðuna fyrr en síðar.







