Eftir átján ára flekklausar ferðir til Íslands og frá hefur Norræna loks fengið duglega andlitslyftingu. Nú óhætt að kalla dallinn skemmtiferðaskip en ekki ferju.

Ný og betri Norræna í framtíðinni. Mynd Smyril Line

Smyril Line, eigandi Norrænu, notaði Kófstímann vel og hentu drjúgum upphæðum til að sparsla upp á skipið. Bættu við heilli hæð af káetum, endurnýjuðu teppi og vistarverur duglega og það sem kannski mest er um vert er að nú státar skipið af þessum líka príma útsýnisbar. Rúsínan í pylsuendanum að með aukinni þyngd er skipið nú stöðugra og þægilegra á öldum hafsins.

Afar góðar fréttir því þótt skipið hafi hreint ekki verið lélegt áður þá vantaði aðeins upp á fíniseringu og dúllerí. Þó skipið keppi auðvitað ekki við súperskemmtiferðaskipin í Karíbahafinu þá er Norræna orðið skemmtiferðaskip en ekki ferja að okkar mati.

Sem fyrr höfum við hér verið gagnrýnin á kostnað við að sigla með Norrænu frá landinu og til. Það enn dálítið dýrt að taka þessa leiðina til Færeyja eða meginlandsins. En nú er hægt að njóta ferðarinnar sem aldrei fyrr.

Sem fyrr er það Norræna ferðaskrifstofan sem sér um sölu ferða með Norrænu hér á landi. Til hamingju.