Stórborgin New York vekur flestum örlítinn ugg í brjósti þegar leggja á upp í ferð þangað fyrsta sinni. Eðlilega kannski líka því hún er stór og þú ekki. Þess utan hafa margir sjónvarpsþættir og kvikmyndir gegnum tíðina ekki farið ýkja fallega með borgina og ofbeldi, vopnuð rán og morð á hverju götuhorni kæmi fáum á óvart sem aðeins hefðu það sem viðmið.
Staðreyndin er þó sú að átta af hverjum tíu ferðamönnum sem þangað koma segja borgina stórkostlega og vinna á við hverja heimsókn. Hún er að Boston undanskilinni einna mest evrópsk allra bandarískra borga og mannlífið, menningin og magnað úrval veitinga- og skemmtistaða gera hana að toppáfangastað ferðamanna ár eftir ár.
New York er stærsta borgin í New York ríki. Staðsett við mynni Hudson flóa og fjölmargar brýr og gögn tengja hana saman. Risastór borgin, sú fimmta fjölmennasta í veröldinni, teygir sig inn í þrjú fylki; Neðra New York fylki, Norðurfylki New Jersey og innfyrir fylkismörk Connecticut. Hún er miðstöð viðskipta, menningar, matar, lista, rannsókna og efnahagslífs í landinu og státar af þekktustu háhýsum veraldar. Ef út á eitthvað þyrfti að setja væri það sennilega fyrst sú almenna ókurteisi sem ríkja virðist meðal heimamanna og ekki síður þær miklu öryggisráðstafanir sem eru við öll helstu mannvirki, söfn og forvitnilega staði í borginni. En það er kannski ástæða til.
Borgin sjálf skiptist í fimm hverfi sem hver um sig er rekinn sem sjálfstæður hluti. Hverfin eru Manhattan – eyjan fræga milli Hudson og Austurár, Brooklyn – sem er fjölmennasta hverfi borgarinnar, Queens – þar sem alþjóðaflugvellirnir tveir eru staðsettir, Bronx – norður af Manhattan og fátækasta hverfið og Staten Island – eyjan sem er á milli Manhattan og New Jersey. Meðal heimamanna er gjarnan talað um að Manhattan sé miðbær New York en hin hverfin úthverfi.
Það er vægt til orða tekið að segja að New York sé fjölbreytt borg. Hér búa innflytjendur frá 180 löndum heims sem þýðir að New York er enn meiri suðupottur mannkyns en London og Toronto. Hér eru starfsstöðvar stærstu fyrirtækja heims og lítil tilviljun að hér eru höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna. Frægustu söfn og leikhús Bandaríkjanna og þótt víðar væri leitað eru hér og menningaráhrif borgarinnar ná langt út fyrir borgarmörkin og vel út fyrir landið.
Allar fjórar árstíðirnar gera vart við sig í New York. Sumrin heit og veturnir kaldir. Meðalhitastig í janúar eru 3 gráður en 29 gráður í júlí. Lega borgarinnar gerir það að verkum að hún fær bæði yfir sig snjó-og hitastorma.
Fjölmenningarleg áhrif eru mjög áberandi í borginni. Í henni finnast til að mynda Littla Ítalía, Chinatown, Harlem og spænska Harlem, gyðingahverfi, karabískt hverfi og önnur hverfi sem kennd eru við þá þjóðflokka sem mest áberandi eru á hverju svæði fyrir sig.
Verslun og viðskipti
New York hefur heillað kaupglaða síðan borg byggðist og Íslendingar ekki verið þar undantekning á reglunni. Nema helst núna þegar krónan er bitlaus og föl. Á það reyndar við um verslun alls staðar. En hafi fólk hug að komast í alvöru úrval og merkilegar verslanir er hægt að eyða hér nokkrum áratugum eða svo.
Öll hverfi borgarinnar eiga sín eigin verslunarhverfi. Spurningin því aðeins eftir hverju verið er að falast og hvað fólk er reiðubúið að greiða fyrir. Verslanir í East og West Village eru almennt þær allra ódýrustu í borginni og verslanir þar af ýmsum toga þó ekki finnist þar hefðbundnar stórverslanir. Midtown Manhattan er sá staður sem flestir ferðamenn sækja enda miðsvæðis og nálægt mörgum þeim hótelum sem hér er að finna. Þar má finna ýmsar verslanir sem flestar eru þó í dýrari kantinum auk allra stórverslana. Lower Manhattan verður seint talin sérstakur verslunarstaður en þar engu að síður finna athyglisverðar smærri verslanir. Soho/Tribeca er vinsælasti verslunarstaður heimamanna sjálfra og verð þar voru lengi vel töluvert lægri en gerðist. Svo er ekki lengur og svæðið í raun orðið eitt það dýrasta í borginni í dag. Þó er það Soho sem er líklega hvað skemmtilegasta hverfið til þvælings hvort sem verið er að versla eður ei því mannlífið er hér fjölbreyttara en gengur og gerist.
Afsláttarverslanir eru hér nokkrar en í þeim má finna fatnað eftir þekkta hönnuði á lægra verði en gengur og gerist. Nokkrar vinsælar og vingóðar íslenskum veskjum eru til dæmis Gabay´s Outlet, Loehmanns, Conway og Ava Maria.
Sjá nánar kort af öllum helstu afsláttarverslunum borgarinnar.
View Afsláttarverslanir í New York in a larger map
Til og frá
Þrír stærri flugvellir tilheyra New York; Laguardia, Kennedy og Newark International þó sá síðastnefndi sé tæknilega í New Jersey en ekki New York. Icelandair flýgur bæði til Kennedy- og Newark vallar og forráðamenn Wow Air hafa boðað flug þangað 2014.
John F. Kennedy flugvöllur: er í austurhluta New York, nánar tiltekið í Queens og er einn fjölfarnasti flugvöllur heims. Einfaldasta og stundum fljótlegasta leiðin til og frá er með leigubíl en biðin eftir þeim getur tekið vænan tíma ef margar vélar lenda samtímis. Fast gjald er niður á Manhattan en í viðbót getur komið tollur og þjórfé sem jafnan er kringum 20% af gjaldinu. Gera skal ráð fyrir 6.500 krónum að lágmarki í kostnað á dagtaxta. Sé förinni heitið annað en á Manhattan eða leigubíll tekinn að flugstöðinni er notast við gjaldmæli. Bíltúrinn inn í borgina tekur frá 30 mínútum og upp í rúma klukkustund ef umferð er mikil.
Til umhugsunar: fjölmargir harkarar bíða við flugstöðina og bjóða ýmis gylliboð. Ef þú treystir þér til er allt í lagi að prófa að prútta verðið niður en það fer sjaldnast niður fyrir leigubílagjaldið. Það sparar þó tíma ef löng bið er eftir leigubílum.
Aðeins flóknari pakki en fljótlegur er lest að Penn stöðinni á Manhattan. Beint þangað fara lestir, Long Island Rail Road, reglulega frá Jamaica-stöð en þar stoppar Airtrain flugskutla flugvallarins. Sá rúntur tekur um 35 mínútur og kostnaður á mann er 2.000 krónur.
Helmingi ódýrari en helmingi lengur á leiðinni er að taka neðanjarðarlest E frá Jamaica-stöðinni. Sú endar líka á Penn stöð en stoppar víðar og tekur 60 mínútur. Kostnaðurinn er þó aðeins um þúsund krónur. E-lestir fara til Queens og Manhattan en Z-lestir til Queens og Brooklyn.
Annar möguleiki og betri ef margir ferðast saman er að taka flugskutlu. Margir aðilar bjóða slíkar ferðir en þær verður að panta fyrirfram á netinu. Sumar þeirra bjóða ferðir inn á Manhattan fyrir fast verð sem er kringum 2.200 krónur á mann. Listi hér.
Síðast en síst er fræðilega hægt að taka strætisvagna frá JFK. Þrjár leiðir eru í boði en vagnarnir stoppa allir við flugstöð fimm. Vagnar Q3 og Q10 fara til Queens og vagn B15 til East New York. Í öllum tilvikum þarf yfirleitt að selflytja sig yfir í neðanjarðarlest til að komast alla leið. Fararheill mælir ekki sérstaklega með þessum möguleika enda tímafrekur og ekki laust við að varasamt geti verið að þvælast með þeim síðla kvölds.
Newark International: Þessi ágæti flugvöllur nýtur þess heiðurs að hafa ítrekað verið valinn meðal verstu flugvalla Bandaríkjanna. Bæði þykir aðgengi til og frá ekki mjög gott og völlurinn sjálfur barn síns tíma og orðinn lúinn og þreyttur.
Hér er sami díll og á JFK varðandi Airtrain sem gengur milli allra flugstöðvarbygginganna reglulega allan ársins hring. Eitt stoppið er við Airport Station þar sem hægt er að taka lestir inn í New York borg. Þær lestir eru reknar af NJ Transit og eins fara lestir Amtrak héðan meðal annars til Philadelphiu. Lestin er 20 mínútur að Penn stöðinni á Manhattan og kostar 1.600 krónur aðra leiðina.
Leigubílar eru allt frá 35 til 60 mínútum á leiðinni eftir umferð og má gera ráð fyrir að túrinn kosti 7.800 krónur að meðaltali. Aukagjald er tekið fyrir stórar töskur ef bílstjórinn þarf sjálfur að handlanga þær.
Einnig fara héðan skutlur reglulega til og frá. Airlink er eitt slík fyrirtæki sem þykir hvað fremst meðal jafningja.
Rölt og ratvísi
Það er vandratað um stórborg á borð við New York og þó ritstjórn Fararheill sé alltaf fylgjandi óvissuferðum í borgum heims er það misjafnlega sniðugt í New York. Hér eru jú hverfi sem miður eru og glæpir eiga sér reglulega stað á fjölförnum stöðum.
Götuheiti og númer eru strangt til tekið ekki mjög flókin á Manhattan. Öll stræti, streets, liggja austur eða vestur meðan breiðgötur, avenues, ganga suður og norður. Hins vegar flækist málið annars lagið eins og við Miðgarð, Central Park, og Broadway sem tvístrar götum í norður og vestur. Þá nota heimamenn alls konar eigin útgáfur af götuheitum og nöfnum og ekki víst að þeir geti eða vilji leiðbeina villtum ferðalangi. Þá er engin svona regla á öðrum hverfum í borginni og vænlegast að hafa kort meðferðis sé hugmyndin að þvælast.
Samgöngur og snatterí
Langbesta, fljótlegasta og einfaldasta leiðin milli staða í New York er neðanjarðarlestakerfið, subway. Leiðakort er hægt að fá frítt víða hjá miðasölum ellegar prenta það út áður en lagt er í hann. Kerfið er ekkert allt of einfalt fyrir byrjendur og ótrúlega auðvelt að fara tóma vitleysu.
Lestir eru allar merktar með tölu- eða bókstaf. Gróflega má segja að lestir á Manhattan ganga allar norður-suður. Kort eru öll litaskipt en það merkir ekki neitt. Allar lestir merktar Bronx bound eða Queens bound fara upp í bæ, uptown, en Brooklyn bound niður í bæ, downtown. Flestar stöðvar eru einnig merktar þannig en sé engin merking fara lestir þar í báðar áttir. Hafið í huga að stöku leiðir ganga ekki um helgar eða á kvöldin. Stakur miði kostar 300 krónur.
Mikilvægar leiðir á Manhattan:
- Leiðir 1,2 og 3 – West Village, Chelsea, Tribeca, Staten Island (ferja), Frelsisstyttan (ferja)
- Leiðir 4,5, og 6 – Guggenheim safnið, Borgarlistasafnið, Chinatown, Yankee Stadium,
- Leiðir A,C og E – Náttúrufræðisafnið, Central Park, JFK flugvöllur (skipting)
- Leiðir B,D,F og V – Rockefeller Center, Radio City Music Hall, Dómkirkja heilags Patreks
- Leiðir N,Q,R og W – Chinatown, Times Square, Soho, Carnegia Hall, Union Square
Strætisvagnakerfi New York er umfangsmikið en sökum mikillar umferðar alla daga á Manhattan svæðinu sérstaklega er það ekki ýkja fljótfær ferðamáti. Reyndar gera borgaryfirvöld greinarmun á vögnum. Express, fljótvagnar stoppa sjaldnar en aðrir en þeir eru líka dýrari. Almennur miði í strætó kostar 300 krónur en í Express vagni er fargjaldið 800 krónur.
Til umhugsunar: Metrocard er afsláttarkort fyrir lestir og strætisvagna. Margar mismunandi gerðir í boði frá tíu ferðum til ótakmarkaðs mánaðarkorts. Fyrir hefðbundinn ferðalang sem stoppar í viku eða skemur er dagskort eða vikukort ágætur kostur. Vikukort kostar 3.700 krónur en dagskortið 1050. Gilda þau í umræddan tíma frá fyrstu notkun.
Önnur frábær leið til að skoða það helsta í miðbænum er einfaldlega á tveimur jafnlöngum. Það kann að virðast fásinna í svo stórri borg en reyndin er sú að sökum umferðar eru bílar ekki sérstaklega góður kostur. Jafnvel þó umferð sé í lágmarki er hreinasta martröð að reyna að finna stæði nálægt vinsælum ferðamannastöðum. Það er heldur ekki ódýrt og heldur ekki tollar sem greiða þarf nánast alls staðar sem fara þarf yfir brýr eða lengra skal halda í borginni. Þá er labb mun betri kostur jafnvel þótt þannig taki drykklangan tíma að fara milli staða.
Allnokkrar ferjur ganga á milli svæði í New York og ein þeirra sérstaklega, Staten Island ferjan, ótrúlega fín til útsýnisskoðunar yfir höfnina, Ellis eyju og Frelsisstyttuna. Fara með henni 60 þúsund manns daglega og eru margir þeirra ferðamenn. Ekki skemmir heldur fyrir að hún er með öllu ókeypis. Ferðin til Staten eyju tekur 25 mínútur og aðeins fimmtán mínútur líða milli ferða hennar. Aðrar ferjur fara minna heillandi leiðir og eru ekki fríar.
Hefðbundnir gulir leigubílar eru víða í miðbænum og nægir að flagga einn slíkan. Startgjaldið er 350 krónur og við fargjaldið bætist 20% þjórfé auk tolla ef einhverjir eru á leiðinni. Í hverfum öðrum en Manhattan er minna um slíka bíla á ferð og er þá hægt að panta bíl, svokallaða livery bíla, sem aka gegn föstu gjaldi en ekki mæli. Spurðu um gjaldið áður en bíllinn er tekinn. Öll hótel geta pantað slíka bíla fyrir þig.
Hjólreiðar eru ekki vinsæll ferðamáti í New York þó talið sé að hundrað þúsund íbúar ferðast þannig úr og í vinnu dag hvern. Það er vissulega fljótfært um á hjóli en mikill umferðarþungi, almenn ókurteisi og óánægja gangandi vegfarenda í garð hjólreiðafólks og slæmar götur gera hjólreiðar í New York að háskalegum hlut. Hjólreiðafólk á engan sérstakan rétt og fær að heyra það í tíma og ótíma.
Að síðustu er vert að minnast á vatnataxa svokallaða. Eru það bátar sem bæði ferja fólk í sérstakar ferðir en einnig er hægt að hoppa úr þeim og í með dagpassa og skoða þannig eina tíu vinsæla staði á skemmri tíma en það tæki á landi. Dagpassinn kostar 2500 fyrir fullorðna og 1500 fyrir börn. Þeir stoppa á nokkrum stöðum á Manhattan en koma einnig við í New Jersey og Brooklyn.
Söfn og sjónarspil
Til umhugsunar: New York er ekki ein af menningarborgum heimsins fyrir ekki neitt. Aragrúa safna af ýmsu tagi er þar að finna, mörg safnanna er rekin af hálfu borgaryfirvalda og aðgangur þangað er strangt til tekið ókeypis þó öll fari þau fram á þóknun fyrir aðgang.
>> Brooklyn listasafnið (Brooklyn Museum) – Stórt og glæsilegt safn muna víðs vegar að úr veröldinni. Sérsýningar reglulega svo og uppákomur ýmsar. Virkilega þess virði að kíkja. Safnið stendur við 200 Eastern Parkway í Brooklyn. Jarðlestir 2 eða 3 fara á staðinn. Lokað mánu- og þriðjudag. Aðgangseyrir eru frjáls framlög en miðað við 1.500 krónur á mann. Heimasíðan.
>> Klaustursafnið (The Cloisters) – Eitt allra besta listasafn Bandaríkjanna er Klaustursafnið í norðurhluta Manhattan en það safn er útibú frá Metropolitan safninu fræga. Safnahúsið sjálft merkilegt enda byggt til að enduróma gamla evrópska klaustursbyggingu. Hartnær sex þúsund gripir hér til sýnis sem allir eru frá miðöldum í Evrópu og gefa góða innsýn í list og hönnun þess tíma. Safnið staðsett í vinalegum garði, Fort Tryon, og garðarnir utandyra ekki amalegir á sumrin. Opið alla daga nema mánudaga milli 9:30 og 17. Jarðlest A að 190 stræti og tíu mínútna rölt eftir Margaret Corbin Drive. Miðaverð 3.000 krónur. Heimasíðan.
>> Nýlistasafnið (MoMA) – Eitt af helstu söfnum heims og það lang vinsælasta í New York. Hvergi í landinu er að finna jafn gott og mikið úrval nútímalistaverka af ýmsum toga og öllum áttum. Vinsældirnar þýða vitaskuld að raðir eru hér miklar og langar velflesta daga ársins og þolinmæði nauðsynleg. Þá þarf líka að gefa sér góðan tíma innifyrir því margt er að sjá. Hálfur dagur hið minnsta til að njóta hér að ráði. Staðsett á Manhattan við 11 West 53 stræti. Jarðlestir E eða M að 53 stræti og Fifth Avenue. Opið alla daga 10:30 til 17 og til 20 á föstudögum. Miðaverð 3.000 krónur en frítt milli 16 og 20 alla föstudaga. Heimasíðan.
>> Guggenheim safnið (Guggenheim Museum) – Söfn kennd við Guggenheim hafa risið víða og öll þekkt sérstaklega á stórmerkum arkitektúrnum. Sama gildir hér á þessu fyrsta safni Guggenheims. Reyndar margir á þeirri skoðun að byggingin sjálf sé töluvert merkilegri en samtímalistin sem veggina prýðir en í öllu falli vert heimsóknar hvort sem er. Jarðlest 4, 5 eða 6 að 86 stræti. Opið 10 til 17:30 alla daga nema fimmtudaga. Aðgangur 2.700 krónur og best að kaupa miða fyrirfram á netinu til að forðast raðir. Heimasíðan.
>> Metropolitan safnið (Metropolitan Museum of Art) – Enn eitt stórkostlegt safn New York borgar. Met, eins og safnið er kallað meðal innfæddra, er staðsett við sjálfan Central Park og því auðfundið. Það er ógnarstórt og heill dagur hér nægir ekki til nema til að berja augum brot af þeim gersemum sem hér er að finna. Meðal annars er hér að finna langstærsta safn egypskra fornmuna utan Egyptalands svo ekki sé minnst á mörg helstu verk stærstu málara mannkynssögunnar. Opið alla daga nema mánudaga milli 10 og 17:30 og fram til 21 á föstu- og laugardögum. Jarðlest 4, 5 eða 6 að 86. stræti og gengið að Fifth Avenue. Miðaverð 3.000 krónur. Heimasíðan.
>> Ljósmyndamiðstöðin (International Center of Photography) – Þetta ljósmyndasetur sem upphaflega var einfaldur ljósmyndaskóli hefur tekið miklum breytingum og er nú er eitt af vinsælli söfnum New York borgar. Hér er eins og nafnið ber með sér áherslan öll á ljósmyndir fyrr og nú og varla sú ljósmyndasýning í borginni sem ekki reynir að fá inni hér. Safnið stendur við Avenue de las Americas við 43. stræti. Jarðlest B, D, F eða M að Bryant Park. Opið 10 – 18 daglega nema mánudaga og lengur á föstudögum en þá er frítt inn. Aðgangur 1.800 krónur. Heimasíðan.
>> Whitney safnið (Whitney Museum of American Art) – Enn einn vinsælt safn borgarinnar er Whitney safnið sem sérhæfir sig í list frá heimalandinu og það síðustu tvær aldirnar. Ekki fyrir alla en safnið miðsvæðis ekki langt frá Central Park og ágætt stopp fyrir fróðleiksfúsa. Opið 11 til 18 alla daga nema mánu- og þriðjudaga. Jarðlest 6 að 77. stræti. Miðaverð 2.500 krónur. Heimasíðan.
>> P.S.1 safnið (P.S.I. Contemporary Art Center) – Útibú frá MoMA safninu og öllu brjálæðislegra og frjálslegra en raunin er með verk sem þar fá inni. Forvitnilegt fyrir framúrstefnufólk en varla þess virði fyrir hinn hefðbundna ferðalang. Jarðlest G að 21.stræti Jackson Avenue. Opið 12 til 18 fimmtu- til mánudaga. Prísinn 1.400 krónur. Heimasíðan.
>> Kynlífssafnið (Museum of Sex) – Nafnið segir sig nokkuð sjálft hér og gæfulegast að láta þar við sitja með lýsingarnar. Hins vegar nýtur þetta safn verulegra vinsælda og fólk almennt setur lítt fyrir sig að sækja safn með slíku nafni. Hér er fjallað um viðfangsefnið út frá öllum hugsanlegum áttum og fjöldi forvitnilegra muna tengdum kynlífi til sýnis. Þá er hér verslun með kynlífsmuni og bar í þokkabót ef fólk vill dvelja lengur. Safnið á besta stað við 233 Fifth Avenue. Jarðlest 6 að 28. stræti. Opið virka daga nema mánudaga frá 10 til 20 en klukkustund lengur á kvöldin um helgar. Greiða þarf 2.500 krónur inn. Heimasíðan.
>> Fröken Tussaud (Madame Tussauds) – Vaxmyndasafn Tussauds er fyrir löngu orðið heimsþekkt og af því leiðir að útibú hafa opnað hér og þar í heiminum. Þar af eitt rándýrt hér þar sem áherslan virðist aðallega á kvikmynda- og poppstjörnur Bandaríkjanna. Skítsæmilegt fyrir þá sem áhuga hafa á slíku en yfirborðskennd fyrir hina. Safnið rétt hjá Times torginu fræga á 234 West 42nd stræti. Jarðlestir 1, 2, 3 eða 7 að Times Square. Opið daglega 10 til 22. Innganga kostar fullorðinn 4.500 krónur en 20 prósent afsláttur ef miði er keyptur fyrirfram á netinu. Heimasíðan.
>> Grasagarður Brooklyn (Brooklyn Botanic Gardens) – Óhætt er að fullyrða að grænt er ekki ýkja ráðandi litur í New York. Það er jú Central Park og stöku minni almenningsgarðar inn á milli en þeir lítt merkilegir þó grænt sé þar að sjá. Öðru máli gegnir um þennan ágæta garð sem við mælum sannarlega með sé dvölin lengri en örfáir dagar. Hann er opinn alla daga nema mánudaga frá 8 til 18 og milli 10 og 18 um helgar. Aðgangseyrir 1.400 krónur. Heimasíðan.
>> Frelsisstyttan (Statue of Liberty) – Þessa þekkja allir orðið úr sjónvarpi og kvikmyndum jafnvel þó þeir hafi aldrei stigið fæti til New York. Lengi vel var ferðamönnum leyft að virða fyrir sér útsýnið úr kórónu hennar og kyndli en því svo hætt í kjölfar hryðjuverkanna árið 2001. Nú hefur verið opnað á nýjan leik fyrir þennan möguleika en þó með takmörkuðum hætti og þarf að óska sérstaklega eftir miðum hjá Statuecruises.com gegnum netið. Það er þó meira en að segja það því ganga þarf 393 þrep upp og niður og getur tekið á. Fyrir þá sem ekki nenna því er ágætt útsýni frá Fort Wood, turninum sem styttan sjálf stendur á. Það er líka barist um miða þangað og fjöldinn takmarkaður. Á neðstu hæð er svo Frelsissafnið, Liberty Island Museum, þar sem fræðast má um styttuna, smíði hennar og sögu og merkingu gegnum tíðina. Miðaverð er frá 1.500 krónum og upp í 2.600 krónur ætlir þú upp í krúnuna. Fyrsta ferjan á staðinn frá Battery Park fer 8:30 og síðasta ferja til baka klukkan 18:15. Heimasíðan.
Til umhugsunar: Gríðarlegur fjöldi fólks leggur leið sína að Frelsisstyttunni hvern einasta dag ársins og raðir langar vegna mikillar öryggisgæslu. Þetta hefur haft í för með sér að margir láta nú nægja að taka bátsferð að og kringum styttuna en margir aðilar bjóða slíkt.
>> Ellis eyja (Ellis Island) – Hin eyjan sem sögufræg er á þessum slóðum er Ellis eyja þangað sem hver einasti innflytjandi var sendur á árum áður en fyrr var engum hleypt inn í landið. Mikil saga í þeim byggingum sem hér standa enn en ekkert ýkja mikið fyrir augað. Flestar þær ferjur sem fara með fólk á Liberty eyju fara einnig hingað og því er tímaramminn sá sami. Aðgangur ókeypis að frátöldu ferjugjaldinu. Heimasíðan.
>> Brooklyn brúin (Brooklyn Bridge) – Þessi gamaldags en glæsilega brú hefur einnig verið sýnd í sjónvarpi og kvikmyndum um langa hríð og er að hluta tákn New York í hugum margra. Flestum nægir eflaust að aka yfir en hálftíma göngutúr yfir er skemmtilegur líka og gefur nýstárlega útsýn. Brooklyn-megin brúarinnar eru fjölmargir eiturfínir veitingastaðir.
>> Miðgarður (Central Park) – Að líkindum frægasti borgargarður heims enda vart til sjónvarpsþáttur eða kvikmynd í New York þar sem þessi kemur ekki við sögu. Hann er góður til síns brúks og fjölbreytt flóra mannlífs þar alla daga en hann er þó minna spennandi fyrir ferðafólk en heimamenn. Ekkert hér í raun ómissandi en hafa skal í huga að ýmislegt er hér í boði árið um kring. Hægt er að kynnast bæði garði og nágrenni í skipulögðum ferðum á tveimur jafnfljótum, vespum, í hestvögnum og á reiðhjólum. Óvitlaust er að grípa bita í Bátaskýlinu, Boathouse, við Central Park vatn. Einn hluti garðsins, Conservatory Garden, er tileinkaður plöntum og blómum sérstaklega og þangað sérinngangur. Þá er líka sniðugt og nett rómó að planta rassi hér á teppi með ástvini og njóta mannlífsins þegar veður leyfir.
>> Times torgið (Times Square) – Annað vel þekkt kennileyti úr kvikmyndum. Í raun ekkert merkilegur staður nema fólk sé fyrir auglýsingar sem enginn er skortur af hér á öllum mögulegum plássum. Nema helst að fólk sé á ferðinni um áramótin þegar hingað safnast mikill mannfjöldi og fagnar nýju ári á slaginu. Torgið tilheyrir Broadway sem þekkt er fyrir leikhúsmenningu.
>> Lincoln miðstöðin (Lincoln Center) – Mekka allra listhneigðra í borginni er Lincoln miðstöðin þar sem undir nokkrum þökum eiga afdrep Fílharmoníuhljómsveit borgarinnar, Metropolitan óperan og New York ballettinn. Það er þó aðeins brot af því sem hér er hægt að upplifa því mikið annað er á seyði ársins hring og allt eru það bona fide menningarviðburðir. Heimasíðan.
>> Rockefeller torgið (Rockefeller Plaza) – Það er hér sem hið risastóra borgarjólatré er sett upp í desember til yndisauka fyrir mann og annan. Hér er líka skautasvell undir beru lofti og ekki má gleyma verslunum allt í kring. Síðast en ekki síst er hér frábær útsýnisstaður, Top of the Rock, á efstu hæð í turninum sem bæði er kenndur við Rockefeller og General Electric. Útsýnið frábært í allar áttir en traffíkin löng. Miðaverð á toppinn 3.400 krónur og vænlegast að kaupa miða fyrirfram. Heimasíðan.
>> Bygging Sameinuðu þjóðanna (United Nations) – Þessi er komin til ára sinna og ekki mikið fyrir augað. En það er þess virði að rúlla sér í leiðsögn um húsið og anda að sér sama lofti og helstu stórmenni heimsins ef stjórnmál heilla. Jafnvel þó byggingin sjálf fái engin verðlaun eru út um allt listaverk sem aðildarþjóðir hafa gefið stofnuninni og mörg hver æði merkileg. Panta þarf miða með fyrirvara á netinu og mikil öryggisgæsla er hér áður en haldið er í túrinn. Gestastofa SÞ er staðsett við 1.Avenue á 42. götu og aðeins þar opið virka daga milli 10 og 16. Miðaverð á fullorðinn er 2.200 krónur. Heimasíðan.
>> Aðallestarstöðin (Grand Central Termina) – Enn ein glæsibygging borgarinnar sem flestir ættu að kannast við úr kvikmyndum Hollywood. Þetta er bygging með gamla laginu enda hundrað ára gömul og þó hér sé ys og þys alla jafna er vel þess virði að kíkja inn. Stöðin stendur við enda Park Avenue, nánar tiltekið á 87. East og 42.götu. Heimasíðan.
>> Almenningsbókasafnið (New York Public Library) – Enn ein glæsibyggingin hér og þessi sömuleiðis nokkuð þekkt úr sjónvarpi og kvikmyndum. Safnið er gríðarlega mikið og stórt og fróðleiksfúsir verða beinlínis að taka hingað strikið og njóta. Aðalsafnið á allra besta stað við fimmta Avenue og auðfundið. Heimasíðan.
>> Heimsveldisbyggingin (Empire State) – Þessa þekkja líka flestir hvort sem þeir hafa hingað komið eða ekki. Ein hæsta bygging borgarinnar, 443 metra há, og reyndar Bandaríkjanna og víðfræg fyrir stórkostlegt útsýnið frá útsýnissvölum nálægt toppnum. Svalirnar eru í reynd tvær. Ein á 86. hæð og sú sem vinsælli er heimsóknar en hin á 102. hæð. Ferð á neðri pallinn kostar fullorðinn einstakling 3.000 krónur en fyrir ferð á efri pallinn líka 8.400 krónur. Hafa skal í huga að raðir eru jafnan hér töluverðar og borgar sig að kaupa miða á netinu en opið er frá 8 á morgnana til 2 á næturnar alla daga ársins. Heimasíðan.
>> Breiðvangur (Broadway) – Óumdeilt frægasta leikhúsgata heimsins og spássering hér vel þess virði auk þess sem sjón er að sjá mörg þau leikrit sem hér ganga og sum hver í mörg ár í senn. Hér gefur að líta úrvalið í leikhúsunum hverju sinni en kaupa skal miða með góðum fyrirvara á þau vinsælustu.
>> Barnasafnið (Brooklyn Children´s Museum) – Mörgum kemur á óvart að eitt elsta safn New York er þetta safn sem sett var á stofn sérstaklega með börn í huga árið 1899 og er því vel rúmlega hundrað ára gamalt. Yfir þúsund fermetrar að stærð og hér margvíslegir hlutir sem smáfólkið gæti haft gaman af að sjá og prófa. Opið 10 til 17 þriðjudaga til sunnudaga. 145 Brooklyn Avenue. Miðaverð 1.200 krónur. Heimasíðan.
>> Sædýrasafnið (New York Aquarium) – Eins og sæmir stórborg er hér að finna dágott sædýrasafn með yfir 300 sjávardýr til sýnis og allt frá Beluga hvölum og niður til minnstu rækju. Staðsett á Coney Island við Surf Avenue við West 8. götu. Jarðlest B eða D að Stillwell/Coney Island. Opið 10 til 17 daglega en klukkustund lengur um helgar. Inngangur 2.400 fyrir fullorðna en 1.200 fyrir börn. Heimasíðan.
>> Vonargarður (Prospect Park) – Þó Central Park sé vinsælastur er annar stór útigarður í Brooklyn sem ekki þykir síðri og er meira að segja kallaður djásn Brooklyn af heimamönnum. Garðurinn atarna er enn stærri en Central Park og sömuleiðis hér ýmislegt hægt að dunda sér. Hér er ágætt lítill dýragarður og hér er líka frægur skúlptúr, Grand Army Plaza boginn, sem þykir sjón að sjá. Jarðlest F til 7th Avenue og Park Slope. Frír aðgangur. Heimasíðan.
>> Queens dýragarðurinn (Queens Zoo) – Annar af þremur dýragörðum í borginni. Þessi er sérstakur að því leytinu að hér er megináherslan á dýr sem finnast í landinu eða í Norður-Ameríku. Ágætt að eyða stund hér sé ferðinni heitið um Queens.
>> Minningarsafnið (9/11 Memorial & Museum) – Eitt nýjasta safn borgarinnar er auðfundið og það langar leiðir. Það stendur við hæstu byggingu borgarinnar, One World Trade Center, á þeim stað þar sem áður stóðu Tvíburaturnarnir áður en þeir hrundu í hryðjuverkaárás þann ellefta september árið 2001. Reyndar er minnismerkið um þá sem þá létust glæsilegir fossar sem falla niður á þeim stöðum þar sem þeir turnar áður stóðu. Nöfn allra þeirra er létust daginn þann eru rituð meðfram fossunum. Sannarlega tilþrifamikil sjón og margir Bandaríkjamenn komast mjög við á þessum stað. Þetta er minningarhlutinn en safnhlutinn er innandyra. Það er sérstakt í meira lagi og glæsilegt en hér eru til sýnis fjölmargir gripir frá þessum örlagaríka degi og eins ýmsir persónulegir munir þeirra sem létust. Stórar myndir gefa glögga mynd af þeim hryllingi sem hér átti sér stað og ekki síður fróðlegt að vitna nokkrar stuttmyndir sem sýndar eru hér með reglulegu millibili. Það er meira að segja fjallað nokkuð um al Qaida samtökin í máli og myndum. Það er þó einn stór mínus við þetta allt saman og hann sá að hér er oftar en ekki mikill fjöldi fólks, öryggisleit átakanlega löng og tíminn sem tekur að skoða þetta safn í þaula er mikið lengri en hann ætti að vera. Mikill mannfjöldinn þýðir að hér er ekkert auðvelt að dvelja lengi. Inngangurinn er á horni Liberty og Greenwich en næstu jarðlestarstöðvar eru Fulton og Chambers. Þá aka strætisvagnar M5 og M20 hér spottakorn frá. Tvær lestir ganga rakleitt hingað en báðar, merkilegt nokk, beint frá New Jersey. Path heita þær og ganga annars vegar frá Penn Station í Newark og frá Hoboken. Opið er í minningargarðinn alla daga frá 7:30 á morgnana og fram til 21 en safnið opnar ekki fyrr en kl. 9. Aðgangseyrir er 2.800 krónur á fullorðinn en 1.800 annars. Frír aðgangur er eftir klukkan 17 á þriðjudögum fram að lokun en miða þarf að panta þá engu að síður. Miðasalan hér. Heimasíðan.
View New York in a larger map
Matur og mjöður
Sennilega eru fáir staðir á jörðinni þar sem meira úrval er af veitingastöðum, knæpum, börum og kaffihúsum. Slíkir staðir eru bókstaflega út um alla borg. Velflestir veitingastaðirnir eru góðir því íbúar sætta sig yfirleitt ekki við neina meðalmennsku.
Um alla borgina má fá gott í gogginn fyrir 1.500 til 2.000 krónur bæði á skyndibitastöðum, matarvögnum og betri eldhúsum en ætli fólk sér að lyfta sér meira upp en það er máltíð fljótlega komin í fimm þúsund krónur án víns á sæmilegum eða betra veitingastöðum.
Til umhugsunar: Í New York halda ákveðnir veitingastaðir úti svoköllu Restaurant Week einu sinni árlega þar sem gestum gefst færi á að fá sér þríréttað fyrir 3.300 krónu fast verð. Dagsetningar þessarar viku sem reyndar hefur verið fjórar vikur síðustu árin er misjafn en oftast nær í júlí. Allt um þá viku hér.
Einir fimmtán veitingastaðir fá tveggja eða þriggja stjörnu einkunn hjá Michelin handbókinni. Þeir eru:
- Alto – Midtown East / Manhattan
- Chef Table – Brooklyn / Brooklyn
- Corton – Tribeca / Manhattan
- Gilt – Midtown East / Manhattan
- Gordon Ramsey – Midtown West / Manhattan
- Kajitsu – East Village / Manhattan
- Marea – Midtown West / Manhattan
- Momofuku Ko – East Village / Manhattan
- Picholine – Upper West Side / Manhattan
- Soto – Greenwich / Manhattan
- Daniel – Upper East Side / Manhattan
- Jean Georges – Upper West Side / Manhattan
- Le Bernardin – Midtown West / Manhattan
- Masa – Midtown West / Manhattan
- Per Se – Midtown West / Manhattan
Djamm og djúserí
Líkt og í öllum góðum stórborgum þar sem fjölmenning er rótgróið fyrirbæri er fjöldi skemmtistaða því sem næst óteljandi. Næturklúbba, bari og búllur hvers konar má finna í hverju einasta hverfi borgarinnar og staðir hér sem henta öllum tegundum fólks á hvaða tíma sólarhringsins eða ársins.
Ekki er auðvelt að mæla með sérstökum stöðum því hér eru hundruðir fínna djammstaða og það veltur mikið á hvers kyns ferð er farinn og hvar þá er dvalið í borginni hvaða staði nákvæmlega er ráð að kíkja inn á. Allnokkrir erlendir vefir hafa yfirgripsmiklar upplýsingar um bestu staðina hverju sinni en enginn þeirra virðist vera á sama máli um hvað séu heitustu staðirnir hverju sinni.
Þess vegna einskorðum við okkur við að kynna fimm staði sem ritstjórn Fararheill hefur persónulega og góða reynslu af.
- LAST EXIT – Við Atlantic Avenue í Brooklyn er að finna þessa búllu sem er ekki stórkostleg á neinn hátt en hér er afar líflegt nánast öll kvöld, drykkir í allra ódýrasta kantinum miðað við New York, barþjónarnir ferskir og fjörugir og hægt að sitja útivið ef svo ber undir. Svo stíga fínir músikantar á stokk hér flestar helgar og skemmta með fínni tónlist. Þá er ráð að mæta snemma ætli fólk að sitja. Heimasíðan.
- PEGU CLUB – Við West Houston strætið í SoHo má finna þennan ágæta stað sem er skör ofar en hinn hefðbundni pöbb og drykkir dýrari sem því nemur. Ekki þotuliðsstaður en hingað sækir fólk á miðjum aldri með peninga til að eyða og staðurinn elegant eftir því. Hann er dálítið afsíðis en þekktur fyrir fína kokteila og hægt að fá hér smábita líka. Ágætur áður en haldið er lengra út í nóttina. Heimasíðan.
- ZANZIBAR – Annar fínn staður snemma kvölds er þessi við 9. Avenue. Drykkir reyndar dýrir en frábær fyrir stærri hópa enda plássið nóg. Staðurinn hannaður í mjög nýtískulegum stíl sem á að taka mið af stemmningunni á eynni Zanzibar í Tanzaníu. Það næst ekki alveg en tilraunin góð og stemmarinn hér fyrirtak. Heimasíðan.
- SANTOS PARTY HOUSE – Vinsæll klúbbur við Lafayette strætið á Manhattan. Hér dunar tónlistin fram á nætur og oftar en ekki dynjandi danstónlist. Hér koma þó oft fram gjörningalistamenn og sýna listir sínar á stóru sviði. Stærðin mikil og sándið fínt og meira að segja hægt að kaupa sér samlokur hér í þokkabót. Allgóður fyrir dansþyrsta. Heimasíðan.
- IRIDIUM – Sé lifandi tónlist eftirlætið er þetta sérdeilis góður kostur og það á Broadway hvorki meira né minna. Andinn góður og sætin líka þó drykkir kosti fúlgur. Sérstök rækt er við jazztónlist hér og heilu helgarnar stundum tileinkaðar þeim geira tónlistar. Miðaverð getur verið stíft þegar vinsælir menn stíga á svið en til að njóta tónlistar eru fáir betri nema fara hreint og beint í tónleikahöll. Heimasíðan.
Ofangreint er fjarri því fyrir alla en góð hugmynd er líka að kynna sér þær vefsíður sem sérhæfa sig í börum og klúbbum í borgum heimsins. Vefmiðillinn Yelp er vinsæll og góður til slíks svo og Time Out New York svo einhverjir séu nefndir.
Hátíðir og húllumhæ
Enn og aftur er hér úr vöndu að ráða enda varla blettur í borginni þar sem ekki er eitthvað húllumhæ í gangi einhverja daga ársins. Velþekkt er sú mikla mannmergð sem safnast saman í miðborginni á þjóðhátíðardaginn 4. júlí og ekki síður fyrir miðnætti um hver áramót. Ritstjórn Fararheill hefur tekið þátt í áramótagleðinni á Times Square og fátt um leiðinleg andartök þar þó veður sé oftast í kaldara lagi.
Að þessu sögðu eru hér nokkrir sérstakir viðburðir sem fjör er að fylgjast með eða taka þátt í sé sá gállinn á fólki.
>> Dagur Kólumbusar – Þó okkar ágæti Eiríkur Rauði hafi nú „fundið“ Ameríku á undan Kólumbusi er þeim síðarnefnda eignaður heiðurinn og hann hylltur í bak og fyrir í október ár hvert. Um er að ræða tilþrifamikla skrúðgöngu á Manhattan sem í taka þátt allt að 40 þúsund einstaklingar í viðbót við þá milljón manns sem með fylgjast á götuhornum. Skrúðgangan stendur frá klukkan tíu að morgni og fram til klukkan þrjú síðdegis og góður andi í borginni langt fram eftir kvöldi.
>> Halloween gangan – Þessi er ekki mikið þekkt út fyrir borgarmörkin en er aldeilis skemmtileg. Hún fer auðvitað fram yfir Halloween þann 31. október ár hvert en hér klæðast allir göngumenn búningum eins og vera ber og þramma frá 6. breiðgötu til 16. strætis og hrekkja fólk og skemmta sér á leiðinni. Búningarnir margir stórkostlegir og allra best að taka þátt í gleðinni sem er frjáls fyrir alla sem mæta í búningi. Hún hefst 18:30 síðdegis og stendur í fjóra tíma.
>> Þakkargjörðargangan – Þessa miklu skrúðgöngu sem kennd er við stórverslunina Macy´s þekkja eflaust margir úr kvikmyndum og sjónvarpi en hún fer fram yfir Þakkargjörðahátíðina í nóvember ár hvert. Hér tjalda menn öllu til og reyna gjarnan að auglýsa verslunina í leiðinni. Afar vinsæl meðal barna enda risastórar útblásnar eftirlíkingar af þekktum fígúrum úr teiknimyndum oft með í för. Helst er galli hversu vinsælt er að fylgjast með því ekki er auðvelt að finna þægilegan stað til að fylgjast með og allra síst með smáfólk með í för. Gönguleiðin sjálf er ekki alltaf sú sama en yfirleitt er farið frá West 77. götu og áleiðis að Central Park West.
>> Ríkisstjóraeyjan – Ein þeirra eyja sem liggja skammt fyrir utan borgina er Governors Island eða Ríkisstjóraeyjan. Þangað er auðkomist og það ókeypis með ferju alla daga en yfir sumartímann og fram í septemberlok hýsir eyjan ýmsa viðburði sem vert er að upplifa. Þar á meðal eru tónleikar ýmsir og opnar veislur auk þess sem útivistarfólk keppir hér oft í hinum ýmsu greinum sér til skemmtunar.
>> New York maraþonið – Það þekkja flestir sem stunda slík hlaup enda eitt hið allra stærsta í veröldinni og þátttakendur skipta tugum þúsunda. Hlaupið er um öll fimm hverfi borgarinnar og gefst færi að upplifa þar heilu breiðgöturnar galtómar. Áhorfendur fjölmenni líka og besti staðurinn nálægt lokamarkinu við Central Park South.
>> Bókahátíðin í Brooklyn – Lestrarormar gera vitlausari hluti en taka þátt í þessari hátíð sem alla jafna fer fram í september ár hvert við Joralemon stræti. Bókakynningar og sala og ekki síst líflegar umræður um bækur og höfunda.
>> Carmel Frúarkirkjuhátíðin – Enn ein hátíðin hvers hróður hefur ekki borist langt út fyrir borgarmörkin. Tæknilega séð trúarhátíð sem ítalskir innflytjendur gerðu að sinni á sínum tíma og hafa haldið þeim sið. Fjórtán daga veisluhöld þar sem söngur og dans, matur og vín er smellt saman við trúarlegar athafnir. Forvitnilegt í meira lagi. Havemayer strætið í júlí.
Þjórfé og þurfalingar
Nánast alls staðar í New York er gert ráð fyrir að gestir greiði þjórfé ofan á annan kostnað sinn. Þetta gildir á börum, veitingastöðum, hótelum og í leigubílum og mæta auðvelt að reiða þjónustufólk til reiði með því að strunsa út án þess að skilja dollara eftir. Ástæðan sú að þjórfé er fyrir æði marga hér eina umbunin því laun í flestum þjónustugeirum í borginni eru afar lág.
Alls kyns óskráðar reglur eru til um þjórfé til handa hinum og þessum en almenna reglan er að henda 15- 20% þjórfé ofan á reikning hjá þjónustuaðila.
Líf og limir
Æði margir standa í þeirri trú að New York sé hættulegur staður til heimsóknar sem mögulega er arfleifð af öllum kvikmyndunum. Raunin er þó sú að New York er merkilega hættulaus. Ekki aðeins hefur alvarlegum glæpum fækkar þar stöðugt undanfarin ár heldur eru alvarlegar árásir á ferðamenn algjör undantekningartilfelli. Í reynd er borgin svo örugg orðin að velflest hverfi er óhætt að þvælast um yfir daginn þó ekki sé mælt með að fólk eyði miklum tíma í Harlem eða í Alphabet City á Manhattan eftir að skyggja tekur.
Helsta ógnin hér eru vasaþjófar og svindlarar sem nóg er af og ekki hvað síst á vinsælum ferðamannastöðum. Slíkir sjá úr mílufjarlægð ef einhver er nýr í borginni og reyna annaðhvort að betla peninga eða ræna þeim. Hið sígilda á við hér eins og alls staðar í öllum borgum heims að heilbrigð skynsemi er besta vopnið. Skildu skartgripi eftir heima og ekki labba um með fulla vasa fjár. Þá er ekki ráðlegt að nota jarðlestarkerfið seint á kvöldin heldur nema nauðsyn beri til. Best er að grípa leigubíl finni fólk sig á ókunnum eða undarlegum stað eftir að skyggja tekur.