E inn allra vinsælasti viðburður ár hvert á Spáni er hið fræga Nautahlaup sem yfirleitt er kennt við San Fermín hátíðina í Pamplóna í Navarra héraði þó svo að slík hlaup fari reyndar fram mun víðar í landinu þó með minna sniði sé.

Þá er Nautahlaupið ekki einn stakur viðburður eins og ýmsir halda heldur þvert á móti er um vikulanga hátíð að ræða og nautahlaup fara fram alla dagana.

Það þarf stórt hjarta til að mæta nauti á harðahlaupum og sumir lifa það ekki af

Það þarf stórt hjarta til að mæta nauti á harðahlaupum og sumir lifa það ekki af

Flestir kenna skáldinu Hemingway og bókum hans The Sun also Rises og Death in the Afternoon um þá heimsfrægð sem Nautahlaupið, Encierro á spænsku, nýtur en fullyrða má að ekki er síður mikil auglýsing hversu margir slasast og jafnvel látast í þessari miklu mannraun hvert einasta ár.

Mannraun er þetta sannarlega og það geta allir vottað sem staðið hafa andspænis fullorðnu nauti á harðahlaupum en tilviljun ein réði því að fólk hóf þá skemmtun að hlaupa á undan nautunum eftir hellusteinsgötum gamla miðbæjarins í borginni.

Sagan segir að hugmyndin hafi fyrst verið að koma nautunum sem fljótast frá sveitunum til sölu á mörkuðum bæjanna en eins og flestir vita bregðast naut gjarnan við hröðum hreyfingum og skærum litum. Þetta nýttu bændur sér um tíma þegar flytja þurfti nautin. Eitt leiddi af öðru og ekki löngu síður var þessi siður orðinn bein keppni um hreysti og manndóm og enn þann dag í dag þykir það ekki neikvætt fyrir orðsporið að spretta úr sporum fyrir framan nautin.

Það er reyndar svo að yfir sjö daga San Fermín hátíðina í Pamplóna er þvílíkur múgur og margmenni í borginni að jafnvel það eitt að kaupa pylsu eða bjór getur þýtt töluverða bið. Ekki síður er verulegur troðningur og læti meðfram þeim götum borgarinnar þar sem hlaupið sjálft fer fram. Þá á engum að koma á óvart að gististaðir borgarinnar hækka prísa sína duglega enda framboð verulega takmarkað miðað við eftirspurn.

Í ljósi þessa er ekki svo vitlaust fyrir áhugasama að koma sér fyrir í einhverjum af nágrannabæjum Pamplóna því margir þeirra bjóða upp á sitt eigið nautahlaup sem þó er jafnan mun styttra og húllumhæið minna. Þá eru líka bæir í nágrannahéraðinu La Rioja sem hafa slík nautahlaup á dagskránni.

Leiðin sem hlaupin er gegnum þröng strætin í Pamplóna

Leiðin sem hlaupin er gegnum þröng strætin í Pamplóna

Í Pamplóna hefst sjálft hlaupið hvern dag klukkan átta á söng allra sem hlaupið þeyta. Að því loknu er gefið eitt merki um að hliðin séu opin og annað merki sem þýðir að nautin sex og uxarnir sex séu laus. Er þá vænlegast fyrir alla að verða ekki á vegi þeirra þangað til komið er á enda í Nautahring Pamplóna borgar en þá heyrast tvö merki til viðbótar um að nautin hafi öll skilað sér á leikvanginn. Tíminn sem líður frá því hlaupið hefst og því lýkur er venjulega um fjórar mínútur.

Fimmtán einstaklingar hafa látið lífið í Nautahlaupinu og árlega slasast um 200 manns sem falla eða detta illa eða eru svo ólánsamir að nautin ná þeim. Hrein tilviljun ræður hvort nautin stinga menn til dauða eður ei.

Yfir San Fermín hátíðina er regla að allir ganga um í hvítum fötum og er ráðlegt að gera eins og heimamenn í því efni nema fólk vilji standa út úr. Sömuleiðis er rauður vasaklútur nauðsyn því hefð er fyrir því að binda slíkt um hálsinn. Ekki síður rautt belti eða trefill sem bundinn er um mittið. Án slíkra klæða fæst til dæmis ekki leyfi til að taka þátt í nautahlaupunum sjálfum.

Til að taka þátt í nautahlaupinu skal viðkomandi vera í góðu formi og yfir átján ára aldur. Lögreglan vaktar þátttakendur og getur meinað öllum þátttöku ef eitthvað þykir miður. Þannig er hundruðum meinað að taka þátt hvern dag sökum áfengis- eða vímuefnaneyslu.

Allir sem þátt vilja taka gera það algjörlega á eigin ábyrgð og verður ekki ítrekað nógu mikið að hlaupið er dauðans alvara. Mæting er á Cuesta de Santo Domingo eigi síðar en klukkan sjö árdegis þann dag sem hlaupið fer fram. Hefst það svo stundvíslega klukkan átta.

Opinber heimasíða nautahlaupsins í Pamplóna hér. Allt um borgina sjálfa hér.