F æðingarkirkjan í Jerúsalem, Péturskirkjan í Róm, Sagrada Familia í Barselóna, Notre Dame í París, Hallgrímskirkjan í Reykjavík. Allt stórkostlegar byggingar til heiðurs meintum frelsara mannkyns samkvæmt kristinni trú. En hvort ætli sé merkilegra; ein stórkostleg kirkja í stöku borgum heimsins eða 40 kirkjur á litlum afdalabletti?

Ein af hvorki fleiri né færri en 40 kristnum kirkjum í og við smábæinn Verkhoturye í Rússlandi.

Jamms, við fáum ábyggilega bágt í hatt fyrir að skrifa „mekka kristinna” í fyrirsögn hér að ofan en við hér munum ekki eftir að Jesú litli hafi haft nokkuð á móti smá glensi ef marka má biblíurnar. En kannski er það í smáa letrinu…

Að gamni slepptu er pínulítill rússneskur bær, sem enginn hefur heyrt um, í sex stunda fjarlægð til austurs frá Moskvu líklega sá staður sem getur sannarlega státað sig af trú á kristni umfram alla aðra staði á jarðríki.

Bærinn heitir Verkhoturye, telur heila 8.800 íbúa og þar og í næsta nágrenni eru hvorki fleiri né færri en 40 kristnar kirkjur!!! Geri aðrir betur. Íbúafjöldinn á borð við Akranes og þar engar 40 kirkjur við síðasta tékk 🙂

Þó bærinn sé lúinn og þreyttur einn og sér er kirkjum, musterum og klaustrum bæjarsins vel við haldið og staðurinn nógu merkilegur til að Pútin hinn vammlausi harðstjóri Rússlands rekur inn nefnið annars lagið. Líklega þó ekki vegna þess að kauði sé kristinn fram í fingurgóma heldur líklega frekar vegna þess að Rússar hafa lengi reynt að koma Verkhoturye á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

Þar á bærinn að sjálfsögðu heima og sætir furðu okkar hér að þar sé hann ekki löngu kominn. Því við fullyrðum að enginn staður á jarðríki státar af fleiri kristnum kirkjum per fermeter en hinn rússneski Verkhoturye í Úralfjöllum.

PS: Þó töluverðan spotta sé að fara frá Moskvu gengur ágæt lest þennan veginn og eins og alltaf þegar Rússar eru með í för, þarf ekki annað en smotterí af vodka til að breyta lúnum ferðalöngum í húrrandi djammstjörnur á fimm sekúndum sléttum.