A ð frátöldum píramídunum mikilfenglegu í Giza við Kaíró er það vafalítið hið stórfenglega musteri Abu Simbel sem heillar hvað flesta þá ferðamenn sem til Egyptalands koma. Abu Simbel vissulega stórfenglegt í alla staði en það er líka dálítið feik.
Aðkoman að Abu Simbel, hvort sem þú kemur bílandi, fljúgandi eða með báti á Níl er sannarlega til að deyja fyrir. Upp úr litlausu og líflausu landslaginu stendur allt í einu einn risastór klettur og í hann meitlaðar einhverjar stærstu og merkilegustu skúlptúrar fornaldar.
Flestir komast við og engum skal koma á óvart að sjálfsmyndir héðan eru meðal þeirra allra vinsælustu á samfélagsmiðlum heimsins. Það jafnvel þó Abu Simbel sé þrátt fyrir allt töluvert úr alfaraleið ferðafólks. Musterið er því sem næst við landamæri Egyptalands og Súdan. Mikið lengra til suðurs ekki komist í Egyptalandi.
Einn úr ritstjórn dúllaði sér hér í fimm tíma eða svo áður en skrölta þurfi aftur um borð í ferjuna til baka til Luxor. Stórfenglegt? Já. Þess virði? Já. Eftirsjá? Já.
Eftirsjáin kom til síðar þegar gluggað var í bækling um svæðið. Í ljós kemur að þetta kostulega mannvirki er á röngum stað. Abu Simbel stendur tvö hundruð metrum hærra uppi en það gerði þegar musterið var reist á sínum tíma.
Hver þremillinn!!! Er allt orðið feik þessi dægrin?
Staðreyndin er sú að musterið mikilfenglega var flutt eins og það lagði sig um miðja síðustu öld þegar Egyptar ákváðu að fara að virkja hina stórfenglegu Níl. Sú virkjun skapaði það sem er eitt allra stærsta uppistöðulón heims, Lake Nasser, og var efalaust nauðsynleg til að halda íbúum landsins sáttum tímabundið með rafmagni og kósíheitum.
Fyrir utan að sökkva tvö hundruð þorpum, sem engu skipti, þurfti að flytja Abu Simbel. Til þess þurfti tæknilega aðstoð sex hundruð evrópskra fræðinga og tugmilljarða gjöf frá evrópskum löndum. Því ekki höfðu Egyptar efni á einu né neinu þá sem nú. Flutningurinn tók lítil TUTTUGU ÁR.
Þetta svona sæmilega á pari við að flytja Hallgrímskirkjuna niður í Vatnsmýri til að koma fyrir fleiri hótelum á Skólavörðustígnum, Þó kirkja Hallgríms verði ávallt tignarleg og verð heimsóknar væri stór mínus að vita að hún er á allt öðrum stað en þar sem hún var upphaflega byggð.