Í tvær vikur um miðjan október ár hvert og í tvær vikur í lok febrúar og byrjun mars er hin fallega höfuðborg Þýskalands eilítið fallegri en venjulega. Þá eru helstu kennileiti borgarinnar böðuð í ljósasjói og gera gott betra.

Jafnvel þreyttar fyrrum kommúnistabyggingar Berlínar virðast dásamlegar meðan á ljósahátíðum borgarinnar stendur.

Þær heita Berliner Lichtenfest, sem fer fram í október, og Spring Light Festival sem hefst í lok febrúar. Þær vikurnar mæta til leiks færustu ljósameistarar Þýskalands auk töluverðs fjölda erlendis frá til að lýsa upp helstu og mestu byggingar Berlínar á sem fallegastan hátt. Borgin breytist því þennan tíma í alvöru útilistasafn.

Aldeilis frábær tími til heimsóknar en hér skal þó hafa hugfast að hátíðirnar eru töluvert þekktar og allt að því tvær milljónir ferðamanna gera sér sérstaka ferð hingað vegna þessa. Gisting getur því verið dýrari í Berlín yfir þennan tíma ef ekki er bókað með góðum fyrirvara. Á hinn bóginn er Berlín merkilega ódýr borg á evrópskan mælikvarða og lúin koja á íslensku farfuglaheimili dýrari en ágæt hótelgisting hér í borg.

Vissulega er Berlín ekki að finna upp hjólið hvað ljósanætur eða -vikur snertir. Það er ennþá franska borgin Lyon sem býður upp á lang metnaðarfyllstu ljósanótt Evrópu og jafnframt sú borg sem fyrst bryddaði upp á slíkri hátíð hér fyrir áratugum síðan. En við hér á klakanum þurfum að hafa nokkuð fyrir túr til Lyon en ekki til Berlínar. Þangað flýgur Icelandair reglulega í þráðbeinu flugi.