Þ eir eru fáir staðirnir á jarðríki sem er jafn indælt að ganga, hjóla eða aka um en Cinque Terre á ítölsku rivíerunni.
Þetta bratta og fjalllenda landslag við ströndina er eitt og sér stórkostlegt en þegar við bætast hinir indælustu bæir, ljúft hitastigið og fersk hafgolan sem hér blæs 365 daga á ári eru vandfundnir betri staðir til að eyða tímanum.
En einn er gallinn kannski. Hann sá að hér gista fáir ýkja lengi sökum kostnaðar. Á sumrin eru vandfundin gistiheimili eða hótel undir 40 þúsund krónum á nótt. Í ofanálag er fokdýrt hér að borða ætli fólk að gera sæmilega við sig á veitingastöðum. Cinque Terre, sem stendur fyrir löndin fimm, er ekki alveg staðurinn til að nískast og kaupa brauð og ost í næstu matvöruverslun og húrra sig í koju á gistiheimilinu.
Auðvitað eru á þessu undantekningar en samkvæmt tölum ferðamálastofu Ítalíu er þó hending ef ferðafólk dvelur hér lengi í einu. Þrjár til fjórar nætur virðast vera hámarkið síðustu árin að meðaltali og það skrifað á kostnað.
En ætli fólk að nýta ferð til Cinque Terre til að gera extra við sig, lyfta sér duglega upp úr glundroðanum heima á Fróni og jafnframt gera eitthvað aðeins öðruvísi en venjulega er varla til betri leið en að leigja snekkju.
Þá erum við ekki að tala um að punga út hundruðum þúsunda án þess að blikka auga og þykjast milljarðamæringar heldur leigja gamla endurgerða skútu sem liggur við bryggju í La Grazie flóa á Cinque Terre. Skútu með flestum hugsanlegum þægindum sem hægt er að leigja eina nótt á sama verði og gista í fjögurra og fimm stjörnu hótelherbergi.
Nokkrir aðilar eru að bjóða slíka þjónustu en aðeins einn sem auglýsir þjónustuna á gistivefnum Airbnb. Ein nótt kostar tæpar 80 þúsund krónur (og hefur hækkað um 60 þúsund á einu ári). En ekki láta þá upphæð fara fyrir brjóstið. Skútan atarna rúmar nefninlega sex manns alls. Deili fólk kostnaðinum á milli sín er þetta ekki bara ódýrara heldur líka skemmtilegra enda maður manns gaman á skútum sem annars staðar.
Allra, allra best er að vilji hópurinn sigla eitthvað er það möguleiki gegn aukagjaldi. Þannig má sjá Cinque Terre frá sjónum liggjandi á þilfari fallegrar skútu. Það er ævintýri sem seint gleymist.