Tíðindi

Michelin með áherslu á ódýran mat

  01/03/2011nóvember 24th, 2014No Comments

Ný útgáfa hinnar frægu veitingahúsahandbókar Michelin er töluvert frábrugðin fyrri handbókum þar sem megináherslan hefur verið á fokdýra en jafnframt stórkostlega veitingastaði sem fengið hafa hinar frægu Michelin stjörnur. Nú er áherslan hins vegar á ódýra staði sem engar stjörnur hafa fengið.

Þykja þetta tíðindi hjá þessum bænum enda aðalsmerki Michelin handbókanna verið staðir þar sem verðlaunakokkar nostra er við hvert einasta salatblað og kaupa aðeins lífrænar vörur frá litlum samvinnubúgarði í Ekvador.

Telja fróðir að einmitt það hversu dýrir hinir frægu Michelin staðir eru orðnir sé ástæða breytinganna hjá útgefandanum. Nú eigi að höfða til þeirra sem ekki eiga vasa fulla fjár.

Svokallaðir Bib Gourmand staðir fá þannig verulegt pláss í hinni nýju veitingabiblíu Michelin en undir það flokkast allir veitingastaðir sem bjóða þríréttað undir 4.500 krónum. Hefur þeim stöðum í Frakklandi fjölgað verulega á einu ári úr 117 talsins í yfir 600 nú.