F yrir um 40 árum síðan fannst lítið markvert þar sem borgin Matosinhos stendur í dag. Þar bjuggu fyrst og fremst þeir sem ekki höfðu efni á að búa í Porto sem var í um hálftíma fjarlægð á þeim tíma. Nú má vart sjá nein skil milli borganna tveggja.

Matosinhos er sennilega sá staður í Portúgal þar sem uppbygging á síðustu tíu árum hefur verið hvað mest. Velflestar byggingarnar þar eru ekki eldri en tíu ára og þær sem það eru hafa fengið andlitslyftingu.

Hér búa í dag ríkir einstaklingar enda verðlag hærra í Matosinhos en í Porto þó hin fyrrnefnda sé strangt til tekið samvaxin Porto. Ströndin hér þykir mun betri en Porto getur boðið upp á og lífið hér er rólegra sökum þess að ellilífeyrisþegar hafa margir keypt sér íbúðir hér.

Eitt er það sem Matosinhos hefur þó framyfir Porto sjálfa og það eru veitingastaðirnir. Hér eru á litlum bletti velflestir af bestu veitingastöðum Portúgal en það er ekkert sem hægt er að lesa um í ferðahandbókum heldur sést það best á því að hér eru nánast hvern dag biðraðir inn á staði sem eru svo óhrjálegir að sjá að Íslendingar myndu um leið hringja á heilbrigðiseftirlitið.

Ritstjórn getur vottað að matur hér er fyrsta flokks þó húsakynnin séu það ekki. Vænlegast er að fá heimamann til að panta borð með fyrirvara sé þess kostur. Margir staða hér grilla matinn á stórum útigrillum sem skapar fína stemmningu götu eftir götu þegar á daginn líður.

Ekki er sérstaklega mikið að sjá í Matosinhos og til norðurs frá borginni, sem telur 50 þúsund íbúa, er meira að segja allljót olíuhreinsunarstöð. Hefur það vakið deilur að forsvarsmenn hennar vilja stækka en bærinn sjálfur er kominn langleiðina að stöðinni. Verður eitthvað undan að láta þar í framtíðinni.

View Larger Map