E nginn skortur er á stórkostlegum útsýnisstöðum á hinni stórfenglegu eyju Madeira. Svo margir að það er nánast ómögulegt að gera upp á milli. En einn staður sérstaklega er sannarlega fimm stjörnu og sæmilega taugastrekkjandi í þokkabót.

Útsýnispallurinn við Eiro do Serrado. Fyrir neðan er þverhnípt bergið alla 1100 metra niður í dalbotn.

Útsýnispallurinn við Eiro do Serrado. Fyrir neðan er þverhnípt bergið alla 1100 metrana niður í dalbotn.

Hann heitir Eiro do Serrado og er tiltölulega skammt frá höfuðborg eyjunnar Funchal. Þangað er aðeins fimmtán kílómetra keyrsla eða á pari við skottúr úr miðbæ Reykjavíkur og upp í Árbæ eða svo. Nema flatlendi á Madeira er í fermetrafjölda á pari við gólfflöt Litlu jólabúðarinnar við Laugarveg. Sem þýðir að þessir fimmtán kílómetrar eða svo eru nánast lóðbeint upp á við upp í fjöll.

Í þessu tilfelli eitt þúsund og fimmtíu metra upp á við nánar tiltekið. Hálfa leið upp á Hvannadalshnjúk ef þangað væri akvegur svona til að gefa grófa hugmynd um hækkunina.

Og hvað með það? Hvað er svona merkilegt að sjá við Eiro do Serrado?

Jú, ekki aðeins er þar 100 prósent þverhnípi niður í djúpan, þröngan en grösugan dal heldur og líka er þorp eitt í dalbotninum sem er frægt meðal heimamanna eins og lesa má um hér.

Allir hátt uppi hér. Það er ekki allra að líta beint niður og nokkur fjöldi ferðafólks fær aðsvif hér á pallanum.

Allir hátt uppi hér. Það er ekki allra að líta beint niður og nokkur fjöldi ferðafólks fær aðsvif hér á pallanum.

Þú ert sem sagt ekki að horfa út á haf eða niður í eyðimörk eins og oft er raunin með stórkostlega útsýnisstaði. Þú ert að horfa á maurafólkið í litlu þorpi sinna verkefnum dagsins. Þú ert að horfa á fjöllin á móti þangað til ský birgir sýn. Og allir eru vitaskuld að þykjast vera alls óhræddir við að standa á steinsteyptum palli við ellefu hundruð metra þverhnípi þar sem aðeins þunn járngirðing skilur frá ekki-svo-mjög-bráðum-dauða.

Sniðugir menn með peninga í vasa sáu reyndar sóknarfæri hér fyrir rúmum áratug síðan og byggðu hér eitt lítið en flott hótel. Það reyndar ekki svo góð hugmynd því hér er ekkert um að vera og 30 mínútur hið minnsta í eitthvað mannlíf. En ef fólki hugnast rómantík við þúsund metra þverhnípi og vera laus við mann og annan þá er þetta príma stopp.

Betra þó að láta klukkustund eða tvær nægja. Útsýnið er nægilega stórfenglegt til að muna ævina á enda 🙂