Allir sem ferðast hafa þekkja vel til götusala sem finnast í öllum borgum á öllum helstu ferðamannastöðum.

Götusalar Rómar eru margir og fjölbreyttir en oft börn eða unglingar sem njóta samúðar. Slepptu því.

Yfirleitt er um að ræða unga menn sem selja merkjavöruglingur eins og gleraugu, geisladiska, DVD, myndir og málverk eða fatnað á næsta götuhorni. Allmargir koma sér þó fyrir í sérstökum götubásum, lögregla lætur þá marga afskiptalausa, og halda því sumir að það sé lögleg starfsemi.

Svo er þó alls ekki. Fararheill.is beinir því til ferðalanga að láta allt slíkt vera þótt oft virðist vera hægt að gera frábær kaup.

Ástæðan ekki sérstaklega sú að um draslvarning eða stolinn varning að ræða eins og oft er, heldur eru flestir salarnir gerðir út af örkinni af mafíunni og það skítapakk tekur yfirleitt ekki minna en 95 prósent allrar sölu beint í vasann.

Það er til dæmis raunin í Rómarborg hinni fögru en þar fá krakkar og unglingar sem selja varning til ferðafólks alls FIMM PRÓSENT þess sem selt er hverju sinni. Og hver flytur draslið inn, sendir krakkana út á göturnar og hirðir 95 prósent alls hagnaðar? Ítalska mafían.

Sem þýðir auðvitað að flottu Oakley sólgleraugun sem þú borgaðir fimm þúsund kall fyrir við spænsku tröppurnar í Róm er nánast pottþétt falsvara sem veitir enga vörn og mafíósar á Ítalíu eru 4.800 krónum ríkari.

Hvernig vitum við þetta fyrir víst? Ja, þú yrðir kannski hissa hve unglingarnir opna sig ef maður bara sest niður í spænsku tröppunum um tíma og sýnir þeim áhuga…