Þ að er í öllum borgum heims svo að þar finnast staðir eða hlutir sem afar vert er að skoða og forvitnast um fyrir tiltekinn hóp fólks en keppa þó lítið við þá staði sem mest aðdráttarafl hafa. Margir þeirra komast varla í ferðahandbækur.

Í höfuðborg Spánar er þetta raunin en þar fyrirgefst ferðafólki ef ekki er hægt að komast yfir allt forvitnilegt á viku eða tveimur enda er Madríd svo kjaftfull af merkilegum hlutum að hér má búa í nokkur ár án þess að vitna allt sem borgin býður upp á í byggingarlist, söfnum, fornleifum svo ekki sé minnst á sýningar, hátíðir og kúltúr í velflestum hverfum allt árið um kring.

Í vegvísi okkar um Madríd má fræðast um allt þetta helsta sem hægt er að komast yfir á nokkrum dögum eða svo. En hér að neðan nefnum við til sögunnar fimm staði sem yfirleitt fara framhjá ferðafólki en flestir sem vitna hrífast svo um munar.

♦  Konunglegi grasagarðurinn (Real Jardín Botánico)  –  Þessi magnaði garður fer framhjá mörgum sem ekki opna borgarkort á fimm mínútna fresti. Staðsettur spottakorn frá hinum frábæra almenningsgarði Buen Retiro sem allir ættu líka að heimsækja og gefa sér nokkrar klukkustundir til. Grasagarður þessi er ekki aðeins einn af þeim stærstu í Evrópu heldur og einn sá elsti í víðri veröld enda verið staðsettur hér í tvær og hálfa öld hvorki meira né minna. Garðurinn skiptist í sjö mismunandi hluta eftir tegundum og hér finnast fimm stór gróðurhús að auki. Tvö þessara gróðurhúsa eru þannig hönnuð að hægt er að endurskapa raunverulegar eyðimerkuraðstæður inni í þeim og fyrir þá sem ekki hafa troðið sand í alvöru eyðimörk í steikjandi hita er aldeilis ágæt upplifun að prófa. Aðrir geta dundað sér við að komast yfir að sjá brot af þeim 90 þúsund plöntu- og trjátegundum sem hér finnast. Fáeinir klukkutímar duga skammt til þess. Allra best að heimsækja í apríl og maí þegar allt er að springa út í fegursta blóma. Sumarið fínt líka en þá vill verða hér helst til mikill fjöldi af fólki.

♦  Styttan af Pablo Iglesias (El Busto de Pablo Iglesias) –  Engir ferðamenn til Madríd eiga mikið erindi almennt inn á skrifstofur spænska sósíalistaflokksins við Calle de Ferraz 70. Kannski Jón Baldvin Hannibalsson reki þar inn nefið fyrir forvitnis sakir en þá er það upp talið. Enn færri ferðamenn hafa hugmynd um hver Pablo Iglesias, alls óskyldur Julio og Enrique, var eða gerði. Karlinn sá er nefninlega talinn faðir sósíalisma á Spáni og þar með sósíalistaflokksins og stærstu verkalýðssamtaka Spánar UGT. Honum til heiðurs var andlit hans hoggið í stein einn stóran og mikinn og styttunni komið fyrir á áberandi stað í Madríd á þeim tíma þegar sósíalistar börðust hvað hatrammast gegn Franco. Þegar Franco náði svo yfirhöndinni og borginni mælti hann svo fyrir að eyðileggja skyldi allt er minnti á sósíalisma og sósíalista og þar með talin styttan mikla af Pablo. Hermenn hans og verkfræðingar gerðu sex tilraunir til að eyðileggja skúlptúrinn en hvort sem notaðir voru steinhamrar eða dínamít stóð styttan það af sér að mestu leyti. Þegar fregnaðist að gera ætti sjöundu tilraunina tóku nokkrir sósíalistar sig til í skjóli nætur og báru styttuna langa leið í garð einn lítinn í norðurhluta borgarinnar þar sem hún var grafin niður til varðveislu. Þar lá hún falin í 40 ár fram til ársins 1979. Þennan sögufræga skúlptúr má berja augum í anddyri PSOE enn þann dag í dag og þarf enginn að vera sósíalisti til.

♦  Madríd úr lofti (Azatea Círculo de Bellas Artes)  –  Það er ekki ýkja auðvelt að komast í gott útsýni í miðborg Madríd nema beinlínis leigja dýra íbúð eða dýrt hótelherbergi. Á þessu er ein undantekning. Í fimm mínúta fjarlægð frá miðbænum Sol er að finna æði bærilegt listasafn sem hefur það til síns ágætis að auki að eiga þessar eðalfínu svalir á sjöundu hæð. Af þeim svölum má ekki aðeins njóta fagurs útsýnis yfir marga af þekktari stöðum borgarinnar heldur og njóta matar og drykkjar ef sá gállinn er á fólki. Sé mengun í lágmarki má héðan sjá alla leið til fjalla líka. Hér best að mæta snemma kvölds ef ætlunin er að fá sér í gott eða stúta flösku af rauðvíni því staðurinn er feykivinsæll og samkvæmt spænskum glamúrblöðum ekki óalgengt að sjá hér stórstjörnur úr knattspyrnuliðum borgarinnar fá sér neðan í því.

Andakirkjan (Iglesia Patólica)  –  Spánverjar eru trúaðri en flestar þjóðir og til að lýsa frati á þann hugsunarhátt opnaði þekktur grínari, Leo Bassi, litla óvenjulega „kirkju“ árið 2012. Sú er Andakirkjan og á ekki við hinn hreina anda Guðs heldur eru hér hefðbundnar endur dýrkaðar. Jamm, þessar úr dýraríkinu nema gular og úr plasti. Hér fara raunverulega fram messur og athafnir og hér geta áhugasamir meira að segja gift sig ef sá gállinn er á fólki. Allt þó til gamans gert enda hugmyndin að sýna fram á fáránleika trúarbragða. Ekki slæmt heldur að „kirkjan“ er opin frameftir mörg kvöld og þá stíga hér á stokk innlendir grínistar og skemmta sér og öðrum. Kirkjan atarna æði vinsæl þó vissulega sé húsnæðið í minni kantinum. Stór plús líka að kirkjan er staðsett í Lavapiés hverfinu sem er eitt litríkasta hverfi Madríd og hér ávallt fleiri heimamenn að skemmta sér en ferðamenn.

♦  Atocha lestarstöðin (Estación de Madrid Atocha)  –  Eðli máls samkvæmt ætti að vera kjánalegt að benda ferðamönnum á að heimsækja lestarstöð. Þær fæstar ýkja spennandi nema fyrir þá sem eru raunverulega að halda eitthvað annað með lest. Það á einnig við um Atocha lestarstöðina sem er sú stærsta í Madríd, en þó með einni stórri undantekningu. Sjáðu til, stöðin skiptist nefninlega í nýlega stóra og ljóta byggingu úr steinsteypu og aðra gamla byggingu þar við hlið sem byggð er með múrsteinum og yfir þeim hluta stórt og mikið hvolfþak. Það er gamla byggingin sem við erum að tala um. Þetta var áður fyrr aðallestarstöðin en slíkt nú færst að mestu inn í nýrri bygginguna. Einhverjir hefðu talið gáfulegt að rífa gamla draslið en góðu heilli létu heimamenn það vera. Í staðinn breyttu þeir stöðinni í plöntu- og dýragarð. Hér finnast hvorki fleiri né færri en sjö þúsund mismunandi hitabeltisplöntur og tré og yfir 400 tegundir af fuglum og dýrum öðrum. Fínasta kaffihús hér inni líka og lengi hægt að njóta án þess að hreyfa sig mikið. Líklega besti staðurinn í borginni ef veður er ekki upp á marga fiska.