Fullyrða má að allir þeir sem sækja Portúgal heim án þess að stíga fæti inn í hæðótta höfuðborgina séu að missa af miklu. Lissabon er sönn heimsborg með gríðarlega merkilega sögu og menningu en að sama skapi nútímaleg. Borgarbúar eru vinsamlegir við ferðamenn þó reyndar fjöldi þeirra sem borgina heimsækir yfir háannatímann á sumrin sé of mikið af því góða að margra mati.

Lissabon er risastór, að flatarmáli að meðtöldum úthverfum telur Lissabon rúma þúsund ferkílómetra sem er þreföld stærð Reykjavíkur. Sé ætlunin að skoða í þaula það sem hún hefur upp á að bjóða þarf tvær til þrjár vikur hið minnsta og vera að daglega. Það er þó erfiðara að segja en gera því hitinn er orðinn ægilegur strax í byrjun maí og í júlí eða ágúst framkallar minnsta líkamlega hreyfing fram svitaperlur á enni.

Þá er ekki dapurt að skemmta sér í Lissabon enda næturlífið með afbrigðum gott og úrval klúbba, bara og tónlistarhúsa meiriháttar í öllu tilliti. Að síðustu má ekki gleyma að á þessum síðustu og verstu er Lissabon ein ódýrasta stórborgin til heimsóknar í Evrópu. Krónan litla fer því nokkuð lengra þar en í sambærilegum borgum þó ekki sé hægt að segja að hægt sé að gera nein kjarakaup þar.

Lissabon á það sammerkt með Róm, Istanbúl og San Francisco auk annarra að vera byggð á sjö hæðum en sú staðreynd fer ekki framhjá neinum sem röltir alvarlega um í borginni. Hún er æði brött á köflum og má fólk vera í fantaformi til að geta notið hennar sem skyldi; á tveimur jafnfljótum.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Lissabon heitir Aeropuerto da Portela og er skammt utan borgarmarkanna.

Skemmst er frá að segja og komast í bæinn að taka Aerobus eða Aeroshuttle til og frá miðbænum en vagnarnir stoppa víða um bæinn ef miðbær Lissabon er ekki áfangastaðurinn. Að öllu jöfnu tekur 40 mínútur að fara úr og í miðbæinn frá flugvellinum en gefa skal sér meiri tíma en það ef ferðast er á álagstímum enda umferðin í Lissabon, sérstaklega kringum miðbæinn sjálfan, með því allra versta. Hér má sjá leiðakort vagnanna en þeir ganga á 20 mínútna fresti frá 07 – 23. Stakt fargjald er 650 krónur.

Leigubílar er annar kostur til og frá flugvellinum. Meðalgjaldið er 2000 krónur eða kringum það plús 180 krónur fyrir hverja tösku fyrir sig. Nokkuð algengt er að bílstjórar reyni að svindla meira út úr ferðafólki og skal fá kvittun leiki grunur um slíkt og hóta viðkomandi kæru. Ágætt er líka að forvitnast um verð áður en sest er inn. Þannig kemur ekkert á óvart þegar á áfangastað er komið.

Samgöngur og snatterí

Það er afskaplega yndislegt fyrir blanka Íslendinga hvað samgöngur eru ódýrar í Lissabon og hægt er að skoða þessa viðamiklu borg á frábæran hátt með því að þvælast um með strætó, jarðlest (metró) eða sporvagni. Stakt fargjald kostar aðeins 140 krónur sem þýðir að hægt er að skoða fjölmargt merkilegt sem borgin býður upp á utan miðbæjarsvæðisins fyrir klink. Hreint ágæt kaup eru í dagskorti eða vikukorti ef dvalið er lengur en eina helgi í borginni. Tíu miða kort kostar um 800 krónur og er sannarlega fín kaup í lengri kortum en það ef dvalist er í Lissabon í vikutíma. Það er gróflega sá tími sem til þarf til að læra á þessa stóru borg og um leið meta allt það stórkostlega sem hún hefur upp á að bjóða.

Til umhugsunar: Á stöku stöðum í borginni er að finna kláfa og lyftur upp bröttustu brekkurnar. Hafðu í huga að kort í samgöngutæki, strætómiði, gildir líka í þessa kláfa.

Jarðlestakerfi, metró, Lissabon er að öllu leyti nýuppgert og afkastamikið. Það samanstendur af fjórum leiðum og er afar öruggt enda borgaryfirvöld gert gangskör að því að bæta aðstöðuna á öllum stöðvum og gera hana bæði aðgengilega öllum og um leið stórauka eftirlit. Þó kerfið sé gott til brúksins vantar þó nokkuð upp á að það dekki alla borgina. Leiðakerfið hér.

Einkabíllinn er vart nothæfur í Lissabon og skal bara forðast í lengstu lög að leigja bíl hér. Vissulega kemst maður leiðar sinnar en það tekur ægilegan tíma, götukerfið er flókið samspil einstefnugatna og örtröð í miðbænum sjálfum er reglan fremur en undantekning. Sé ferðafólk á bílaleigubíl er besta leiðin að skila honum meðan í Lissabon er dvalist og leigja þá annan þegar dvöl hér er lokið því tímasparnaður af bíl hér er enginn.

Strætis- og sporvagnakerfi borgarinnar er fyrsta flokks enda hafa borgaryfirvöld fyrir löngu áttað sig á að ekki er vel fært um það flæmi sem borgin stendur á fyrir ferðafólk án þess að slíkt sé fyrir hendi. Lissabon er nefninlega merkilega víðfem borg og sem eitt dæmi um það tekur um 40 mínútur á góðri keyrslu að taka strætisvagn frá Rossio í miðborginni til Oriente stöðvarinnar við Vasco de Gama brúnna í norðausturhluta hennar. Annað eins tekur að fara úr miðbænum í suður- eða vesturátt og þannig tekur hartnær einn og hálfan tíma að fara borgina endilanga. Til samanburðar tekur 20 mínútur að fara með strætó frá Eiðistorgi á Seltjarnarnesi upp í Grafarvog.

Carris heitir samgöngufyrirtæki borgarinnar og er gott til brúksins. Margs kyns kort og hjálpartæki er að finna á heimasíðu þeirra hér. Meðal annars leiðakort strætó og sporvagna bæði daga og nætur og ekki síður menningarkort þar sem sjá má hvernig hægt er að skoða allt sem borgin hefur upp á að bjóða með strætó eða sporvagni. Menningarkortið hér.

Á tveimur jafnfljótum og með sæmilegan tíma er einfalt að sjá það helsta í Lissabon. Allur miðbærinn er vel fær öllum fótgangandi mönnum og í þeim brekkum sem eru hvað ægilegastar fara kláfar upp og niður á ódýran hátt.

Miðbæjarhluti borgarinnar er Baixa, framborið bæsja, sem þýðir bókstaflega niður eða niðurfrá. Heita má að 80 prósent þess sem einstakt er að sjá í Lissabon sé í göngugrennd við Baixa.

Til umhugsunar: Lissabon er stór og framandi og sökum þess að margar götur eru þröngar er auðvelt að villast hér. Þjóðráð er þá að leita að strætóstoppistöð sem alls staðar eru en þar má finna kort af borginni sem sýnir ennfremur hvar þú ert hverju sinni. Með þetta að leiðarljósi er ekkert nema skemmtilegt við að týnast á göngu.

Loftslag og ljúflegheit

Í allnokkrum ferðahandbókum er gert talsvert úr þeirri staðreynd að þó Lissabon sé strangt til tekið ekki við sjó er stutt í Atlantshafið og þaðan berist kaldur vindur. Það sé því óvitlaust að hafa alltaf með sér yfirhöfn. Að mati Fararheill.is er það froða hin mesta allavega hvað varðar Íslendinga. Yfir sumartímann, sem varir frá apríl og langt fram í október, er þvert á móti heitt í borginni og kældur vindur af hafi er sem guðsgjöf á öllum tímum. Yfir hásumarið er slíkt ómissandi með öllu.

Söfn og sjónarspil

Portúgal var eitt sinn eitt af stórveldum heimsins. Portúgölsk áhrif teygðu sig víða og öfugt. Lissabon fékk því vænan skammt af fjölmenningu löngu áður en það orð varð til og aðrar stærri borgir tóku sama kúrs. Þessi áhrif má sjá á arkitektúr, byggingarlist og í menningu Portúgala. Hafa skal í huga að safnalistinn er ekki tæmandi heldur aðeins þeim þekktari, áhrifameiri, forvitnilegri og nýstárlegustu gerð skil hér. Önnur söfn er ekki síðri en eru keimlík svipuðum söfnum annars staðar.

Til umhugsunar: Það er hæglega hægt að komast milli langflestra þekktari safna og áhugaverðra staða með strætisvagna númer 28. Sá kostar sama og hefðbundinn vagn en fer meðfram öllum helstu minjum og söfnum borgarinnar. Hafa skal einnig í huga að allar neðanjarðarstöðvar eru regluleg listasöfn því veggir í þeim flestum eru skreyttir af fremstu listamönnum þjóðarinnar.

>> Gulbenkian safnið (Museu Calouste Gulbenkian) – Vellauðugur listaverkasafnari frá Armeníu varð svo dolfallinn yfir Lissabon að þar settist hann að og gaf borginni alla sína gripi að sér gengnum. Stórkostlegt safn ýmissa hluta og er ráð að gefa sér hálfan dag hið minnsta við kíggerí hingað. Allt hér er fyrsta flokks; munir, húsnæði, garðar og mörg verkanna einstök. Strætisvagnar 16 eða 726 ellegar metró að S.Sebastião. Opið 10 – 17:45 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 800 krónur. Aukagjald fyrir hvers lags farandsýningar sem haldnar eru. Heimasíðan.

>> Fado safnið (Museu do Fado) – Jafnvel þó engin sé vitneskjan um hina portúgölsku fadó tónlist sem svo er nefnd verður ekki langt farið í Lissabon án þess að verða hennar var. Seiðandi og dramatísk tónlist sem ber lítinn keim af flamenco tónlist nágrannanna á Spáni. Safnið forvitnilegt en kannski fyrst og fremst sé áhugi á tónlistinni sem slíkri. Strætisvagn 28. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 2700 krónur. Heimasíðan.

>> Chiado safnið (Museu do Chiado) – Fremsta nýlistarsafn Portúgal er kennt við Chiado hverfið. Margir fallegir munir til sýnis hér og sýningar bæði fjölbreyttar og lifandi. Hér má til dæmis líta augum meistaraverk Rodin; Bronsöldin. Strætisvagn 60 eða 208 ellegar jarðlest að Chiado stöð. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Aðgangseyrir 750 krónur. Heimasíðan.

>> Sæfarendasafnið (Museu de Marinha) – Fáir stóðu Portúgölum á sporði við landkönnun og ævintýraferðir fyrr á öldum og á þessu safni má sjá hvers vegna. Fjöldi muna tengdum útrás heimamanna, landkönnun og hér eru líka bátar og skip til sýnis. Strætisvagn 714 og 727. Opið 10 – 17 á veturna en 10 – 18 á sumrin alla daga. Verð 750 krónur fyrir fullorðna en helmingur fyrir börn yngri en 18 ára. Heimasíðan.

>> Carmo klausturleifarnar (Ruínas do Convento do Carmo) – Þeir sem kynna sér sögu Lissabon vita að stórir jarðskjálftar hafa oftar en einu sinni lagt heilu bæjarhlutana í rúst en sannast sagna er erfitt að ímynda sér það þegar gengið er um borgina í dag. Þessar rústir klausturs og rómverskrar kirkju standa þó ennþá óbreytt frá skjálftatíma og þarna er ennfremur búið að koma fyrir litlu fornleifasafni. Áhrifaríkt og kirkjan í göngufæri frá miðbænum með útsýni yfir Rossio torgið. Opið daglega 9 – 17.

>> Fornlistasafnið (Museu Nacional de Arte Antiga) – Nafnið segir allt sem segja þarf og óhætt er að mæla með þessu. Margt glæsilegra muna og listaverka til sýnis og þar af allmargir hlutir sem voru í eigu konungsfjölskyldunnar áður fyrr. Sporvagn 25. Opið 10 – 18 miðviku- sunnudaga. Lokað mánudaga. Prísinn 750 krónur og helmingur þess fyrir börn og unglinga undir 18 ára aldri. Heimasíðan.

>> Berardo safnið (Museu Colecção Berardo) – Eitt allra besta nútímalistasafn heims með fjölda verka frá frægum listamönnum á borð við Andy Warhol, Míró, Dalí og Jackson Pollock. Alls um 400 verk. Sporvagn 15 til Belém. Opið daglega milli 10 og 19. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.

>> Hönnunar- og tískusafnið (Museu do Design e Da Moda) – Einstakt safn og merkilegt um tískur og strauma í fataiðnaðnum. Hér má sjá hönnum margra heimsþekktra hönnuða sem og minni spámanna. Safnið hefur verið í húsnæðishraki frá opnun fyrir tíu árum en árið 2010 sér fyrir endann á því. Opið 10 – 18 daglega. Heimasíðan.

>> Flísasafnið (Museu do Azulejo) – Fáir standa Portúgölum framar í hönnun og gerð flísa og heimsþekktar eru hinar myndskreyttu flísar sem sjá má víðast hvar í og á húsum sem komin eru til ára sinna í landinu. Hér er safn þeirra allra bestu auk upplýsinga um uppruna og aðferðir þær sem notaðar eru við gerð þeirra. Virkilega þess virði að kíkja þó safnið sé staðsett í úthverfi borgarinnar. Strætisvagnar 718 eða 742. Opið 10 – 18 miðviku- til sunnudaga en frá 14 – 18 þriðjudaga. Lokað mánudaga.

>> Fornleifasafn Portúgal (Museu Nacional de Arqueologia) – Helsta og besta fornleifasafn landsins og margt forvitnilegt ber hér fyrir augu. Staðsett í vestuhluta Jerínímó klaustursins. Sporvagn 15 til Belém. Opið miðviku- til sunnudaga milli 10 og 18. Heimasíðan.

>> Borgarsafnið (Museu da Cidade) – Allt um Lissabon frá upphafi til nútímans. Flott safn enda saga borgarinnar um margt merkileg. Jarðlest að Campo Grande eða strætisvagnar 7 eða 36. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Lokað í hádeginu milli 13 og 14. Aðgangur 550 krónur. Heimasíðan.

>> Austurlandasafnið (Museu Fundação Oriente) – Austurlöndum nær og fjær gerð skil hér á ítarlegan hátt enda átti Portúgal töluverð ítök á þeim slóðum fyrr á árum. Sporvagn 15. Opið daglega 10 – 18. Aðgangur misjafn eftir sýningum sem í boði eru hverju sinni en þeim er breytt reglulega. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Langbesta leiðin til að njóta lystisemda Lissabon fyrir lágmarksverð er með Lissabonkortinu, Lisboa Card, en það gefur frían aðgang að yfir 30 söfnum og umtalsverðan afslátt af 50 öðrum stöðum vítt og breitt um borgina. Slíkt dagskort kostar 3400 krónur en margs konar útgáfur eru til. Þau fást á næstu upplýsingamiðstöð. Á sömu stöðum er hægt að verða sér úti um Lisboa Restaurant Card sem gefur 5 – 10% afslátt á fjölda veitingastaða og Lisboa Shopping Card sem gefur sama afslátt í mörgum verslunum borgarinnar.

>> Kastali heilags Georgs (Castelo de Sao Jorge) – Þessi fer ekki framhjá neinum sem á leið um miðborgina. Kastalinn og virkisveggir sitja á besta stað hátt yfir miðbænum og gefur að líta frábært útsýni yfir hluta borgarinnar og ánna Tagus. Þó hann standi hátt er skemmtilegast að labba upp að honum í rólegheitum og taka inn útsýnið á meðan. Vænlegast er að fara seinnipartinn yfir hásumarið enda fjöldi ferðamanna þarna mikill snemma dags. Aðgangseyrir þúsund krónur en umtalsverður afsláttur með Lissabon kortinu. Heimasíðan.

>> Santa Justa lyftan (Elevador de Santa Justa) – Lyfta þessi er stórmerkileg þó ekki láti hún kannski mikið yfir sér og sé í raun ágætlega falin milli bygginga í miðbænum. Að láta sér detta í hug að fara í lyftu milli borgarhluta er ekkert minna en stórkostleg hugmynd en til þess var hún upphaflega byggð. Frá toppnum er ágætt útsýni og kaffihús. Frír aðgangur með Lissabonkorti en annars 600 krónur.

>> Verslunartorgið (Praça do Comércio) – Þetta fallega torg við Tagus ánna er formlega upphafið á miðbæ Lissabon en þaðan liggur bein leið gegnum Rossio hverfið. Helst til mikið af ferðafólki og heimamönnum sem reyna að selja varning ýmis konar og umferðarniður talsverður. Engu að síður fínn áningarstaður augnablik. Hér stóð konungshöll Portúgal áður en jarðskjálftinn 1755 jafnaði hana við jörðu.

>> Belém turninn (Torre de Belém) – Eitt frægasta tákn Lissabon er þessi turn frá sextándu öld en hann var byggður til að minnast landafunda landkönnuðarins Vasco de Gama. Glæsileg bygging og vel skoðunar virði. Turninn var áður fyrr á lítilli eyju í mynni árinnar en er nú að heita í landi. Hann er á lista yfir Heimsminjar Sameinuðu þjóðanna. Sporvagn 15. Opinn 10 – 18:30 á sumrin en til 17 á veturna. Aðgangseyrir 800 krónur. Frítt fyrir 14 ára og yngri og ennfremur frítt á stöku hátíðisdögum. Heimasíðan.

>> Landafundamerkið (Monumento aos Descobrimentos) – Þessi 52 metra hái skúpltúr er afar fallegur enda hvergi til sparað. Táknrænt fyrir heimsvaldastefnu Portúgala á sínum tíma og þar má finna líkneski allri þeirra Portúgala sem garð gerðu frægan fyrir landafundi, alls 33 manna. Vart síðra er mikið landakort fyrir framan minnismerkið sem sýnir heiminn þegar Portúgal stóð á hátindi landafunda sinna. Hægt er að fara upp á toppinn fyrir 400 krónur. Sporvagn 15. Opið milli 9 og 17 alla daga nema mánudaga. Myndband.

>> Jerónimo klaustrið (Mosteiro dos Jerónimos) – Ein áhrifamesta byggingin í allri Lissabon og þótt víðar væri leitað er þetta gríðarmikla klaustur sem sett var á Heimsminjaskrá árið 1983. Er þetta bæði kirkja og klaustur í svokölluðum manúalismastíl og er hún fagurlega skreytt á alla kanta. Í kirkjunni eru grafhýsi mesta landkönnuðar landsins, Vasco de Gama, og eins mesta skálds Portúgal, Luís de Camões. Gefa skal sér góðan tíma hér ekki síst vegna þess að hér er alltaf kjaftfullt af ferðamönnum sem flýtir lítið fyrir. Frítt er inn í kirkjuna en greiða þarf fyrir aðgengi að klaustrinu. Hér var líka árið 2007 undirritaður Lissabon sáttmálinn um umbætur innan Evrópusambandsins. Algjörlega ómissandi staður. Sporvagn 15. Opið 9 – 18:30 alla daga nema mánudaga. Prísinn inn í klaustrið 1200 krónur. Heimasíðan.

>> Belém menningarmiðstöðin (Centro Cultural de Belém) – Miðstöð lista og menningar á Belém svæðinu er hér en svæðið samanstendur af þyrpingu húsa þar sem menning og allt henni tengt er í forgrunni. Farandsýningar af öllum toga, ráðstefnur og uppákomur eru hér algengar. Sjálfsagt að kíkja við enda steinsnar frá öllu menningarverðmætunum annars staðar í hverfinu. Sporvagn 15. Heimasíðan.

>> Belém höllin (Palácio Nacional de Belém) – Þessi fölbleiklitaða höll stendur á lítilli hæð skammt frá Jerónimó klaustrinu en þarna er dvalarstaður forseta Portúgal. Á torginu fyrir framan hana má sjá minnismerki um merka menn og fallegan garð. Húsakynnin ekki af lakara taginu og hægt að kíkja einn dag í viku hverri. Sporvagn 15. Opið laugardaga milli 10 og 18. Aðgangur 800 krónur. Heimasíðan.

>> Ajuda höllin (Palacío Nacional da Ajuda) – Sé íburður í uppáh aldi er önnur höll í Lissabon sem er sjón að sjá. Ajuda höllin er eins íburðarmikil og falleg og nokkur kostur er enda byggð fyrir konungsfjölskyldu Portúgal þegar menn á þeim bænum vissu ekki aura sinna tal. Glæsilegt kot í alla staði og garðurinn er himneskur. Sporvagn 18. Opið daglega 10 – 18 nema mánudaga. Aðgangur 700 krónur en frítt með Lissabonkorti.

>> Kristsstyttan (Cristo Rei) – Allir þekkja styttu Krists í Ríó de Janeiro í Brasilíu en færri vita að sams konar styttu er að finna í Lissabon. Yfir hundrað metrar á hæðina og aðeins 600 krónur kostar að kíkja á toppinn. Útsýnið stórfenglegt yfir 25. apríl brúnna og borgina eins og hún leggur sig. Taka þarf ferju yfir Tagus frá Cais do Sodre stöðinni til Cachilas og þaðan strætisvagn 101 sem fer að styttunni. Opin milli 9 og 18 alla daga.

>> 25. Apríl brúin (Ponte 25 de April) – Ekki aðeins státar Lissabon af styttu eins og Ríó heldur einnig brú eins og San Francisco. Systurbrú Golden Gate brúarinnar er hér og kennd við dagsetninguna 25. apríl þegar einvaldnum grimma Salazar var loks vikið frá völdum í byltingu. Mikilfengleg sjón, ekki síst neðan frá og frá Kristsstyttunni.

>> Vasco de Gama brúin (Ponte Vasco de Gama) – Önnur mikilfengleg brú yfir Tagus frá Lissabon er Vasco de Gama brúin. Sú sést langt að enda lengsta brú Evrópu og heimamenn segja þér gjarna sögu um hana sem ekki allir þekkja. Nefninlega að þegar smíðinni var að ljúka komust menn að því að nokkra metra vantaði upp á að hún væri lengsta brú Evrópu. Þeir brugðu því á það ráð að lengja hana sérstaklega til að brjóta metið. Fór enda kostnaðurinn verulega fram yfir áætlun.

>> Dýragarður Lissabon (Jardim Zoológico de Lisboa) – Hefðbundinn dýragarður en í stærri kantinum. Vel þess virða að rölta gegnum ef nóg er komið af klifri um hæðir borgarinnar. Strætisvagnar 16 og 31. Opinn daglega frá 9 – 17. Aðgangseyrir 2800 krónur. Heimasíðan.

>>Þjóðargarðurinn (Parque das Nações) – Heimamenn velflestir kalla þennan Expo enda var garðurinn allur hannaður og byggður fyrir Heimssýninguna í Lissabon 1998. Er auðvelt að gleyma sér þarna dagstund eða svo og skal gefa sér hálfan dag hið minnsta og jafnvel lengur ef börn eru með í för. Hér er ýmislegt að sjá og skoða. Kláfur flytur fólk um og gefur gott útsýni yfir garðinn allann. Í garðinum eru gosbrunnar, göngubryggjur, kvikmyndahús, listhús, kaffi og veitingastaðir, ráðstefnubyggingar, Vasco de Gama turninn og síðast en alls ekki síst stærsta sædýrasafn Evrópu Oceanário de Lisboa. Eru þar til sýnis 1600 dýrategundir og fjöldi plöntutegunda að auki. Sjá nánar um safnið hér. Garðurinn er opinn alla daga ársins þó lítið sé þar um að vera yfir vetrartímann. Annað er uppi á teningnum yfir sumarmánuðina þegar hér iðar allt af lífi og nýjar sýningar næsta daglegt brauð. Mismunandi er hver aðgangseyrir er að hverju aðdráttarafli fyrir sig hverju sinni. Jarðlest eða strætisvagn að Oriente stöð en garðurinn er handan verslunarmiðstöðvarinnar við stöðina. Oriente stöðin sjálf er mikið og fallegt mannvirki. Heimasíðan.

>> Monsanto garðurinn (Parque Florestal do Monsanto) – Lungu Lissabon er Monsanto kallaður sökum stærðar sinnar en mikil skógrækt hefur átt sér þar stað um árabil og er garðurinn nú skógarþykkni mikið á stórum köflum. Afar vinsælt útivistar- og göngusvæði og aðeins í 15 mínútna fjarlægð frá miðborginni. Hluti garðsins er lokaður af til að vernda dýra- og plöntulíf sem hér þrífst ákaflega vel. Þann hluta er þó hægt að skoða í fylgd leiðsögufólks. Opinn alla daga nema mánudaga milli 9:30 og 17 og frá 14 – 17 á sunnudögum. Aðgangur frír. Heimasíðan.

>> Santa Catarina garður (Miradouro de Santa Catarina) – Þessi litli garður finnst óvíða í ferðahandbókum þrátt fyrir að óvíða sé hægt að setjast niður og slaka með viðlíka útsýni yfir Tagus ánna, 25.apríl brúna og Kristsstyttunni og hér. En einn hængur er á og hann er að hér eru alltaf samankomnir nokkur fjöldi innflytjenda sem hér styttir sér stundir með ýmsu móti þar á meðal drykkju og reykingum og þeir geta virst nokkuð ógnvænlegir. Hér er líka að finna merkilegan skúlptúr af Ademastor nokkrum sem er guð skapaður af einu helsta skáldi þeirra Portúgala, Luís de Camões.

>> Frelsisbreiðgatan (Avenida da Libertade) – Ekkert kannski sérstaklega spennandi við þessa breiðgötu í miðborginni en falleg er hún og meðfram henni er fjöldi góðra hótela, veitingastaða og minnisvarða sem vert er að skoða. Þar er einnig Rossio lestarstöðin. Göngusvæði öll skógi vaxin og við enda þessarar götu er Plaza Marqués de Pombal til minningar um einn helsta stjórnmálamann Portúgal. Við enda breiðgötunnar er garður Eðvarðs tólfta, Parque de Eduardo VII, sem fer kannski ekki í bækur fyrir yndislegheit en gefur fína útsýn niður í miðbæinn og út yfir sveitirnar til austurs.

Áhugavert annað

Lissabon er sú tegund borgar þar sem merkilegar byggingar, barir, styttur, garðar og fleira er nánast við hvert fótmál í það minnsta í og við miðborgina. Það sem einum finnst merkilegt getur öðrum fundist dapurt og því óráð að lista allt sérstakt sem fyrir augu ber. En þess vegna er líka einstaklega skemmtilegt að labba um borgina án sérstaks áfangastaðar. Hverfin gömlu Baixa, Chiado, Alfama, Bairro Alto, Rossio, Lapa og Santa Catarina eiga öll heillandi sögu og eru skoðunar virði. Enginn má eyða minna en einum degi í Belém og dugar vart til. Þá er alltaf sígilt að taka sér far með strætó, sporvagni eða jarðlest eitthvert og sjá hvert það leiðir.

Matur og mjöður

Næturlíf er hér með stórfenglegasta móti og ekki er óalgengt að hótel og gistihús í miðborginni fyllist um helgar af Portúgölum utan af landi sem komnir eru til þess eins að djamma út í eitt. Bairro Alto er aðalhverfið hvað næturklúbba og bari varðar en þar er líka töluvert um smærri glæpi og því skal aðeins fara þangað í fylgt með fleirum. Það hverfi lítur heldur ekkert spennandi út í dagsbirtu enda í töluverðri niðurníðslu.

Til umhugsunar: Á litlu torgi við Rua Serpa Pinto við dómkirkjuna má finna lítinn söluskála en þar eru aðeins seldir áfengir portúgalskir drykkir í litlum glösum. Sérdeilis fín leið til að kynna sér áfengismenningu landsins sem er merkilega fjölbreytt með litlum tilkostnaði og án timburmanna.

Verð á mat er með ódýrasta móti hér miðað við stórborgir og vel hægt að sitja að þriggja rétta málsverði með víni á ágætum stað fyrir 2 – 5 þúsund krónur. Matur almennt í Lissabon er góður og oft fyrsta flokks sé um sjávarfang að ræða. Allra bestu veitingastaðirnir eru aðeins utan við miðbæjarkjarnann enda má heita að þar séu aðeins staðir sem gefa sig að ferðamönnum með tilheyrandi auknum álögum. Getur vel munað helmingi á verði að setjast niður á túristbúllu í Baixa eða góðum veitingastað í Rossio eða Guerín hverfunum í tíu mínútna fjarlægð.

Í Bairro Alto finnast margir veitingastaðirnir sem einnig bjóða upp á fado. Er þá sungið fyrir gesti meðan snætt er og fellur mörgum það vel. Fróðir segja þó að velflestir staðirnir séu hálfgert djók og vilja meina að heimamenn stígi ekki fæti þar inn enda sé verðlagning miðuð við erlend veski og söngvarar ekki á pari við það besta sem gerist.

Meirihluti veitingastaða eru smærri staðir gjarnan reknir af fjölskyldum. Þeir bjóða undantekningarlítið upp á Pratos do dia eða rétt dagsins en sá er jafnan góður kostur og ódýr.

Eitt er það sem allir eru sammála um að sé ómissandi og það er að bragða krembrauð í Pasteis de Belém við hlið Jerónimó klaustursins. Þetta kaffi- og brauðhús hefur verið starfrækt frá árinu 1837 og allir sem smakk ylvolgt og ljúffengt krembrauðið átta sig á hvers vegna það er. Þar er þó ægileg röð alla daga ársins.

Verslun og viðskipti

Baixa er vafalítið aðalverslunarsvæði borgarinnar en Lissabon er tiltölulega dýr miðað við Portúgal en ódýr sé miðað við aðrar evrópskar borgir. Merkjavara kostar þó skildinginn hér eins og annars staðar en helst er hægt að gera góð kaup á munum sem framleiddir eru í Portúgal. Leðurvörur, fatnaður eða skór framleiddir í landinu standast fyllilega samanburð við sams konar vörur frá öðrum þjóðum og vel það. Það er þó ekki mikið úrval af portúgölskum vörum til sölu í Baixa heldur meira þessar sömu merkjavörur og finnast í öðrum stórborgum heimsins.

Verslanir almennt í Lissabon opna milli 9:30 og 10 og eru opnar til 18 eða 19. Smærri verslanir loka í klukkustund eða tvær laust eftir hádegið. Það gildir þó ekki um verslunarmiðstöðvar. Þá eru þær langflestar lokaðar á sunnudögum aftur að frátöldum helstu verslunarmiðstöðvum.

Vænlegar götur til verslunar eru Rua Garrett og Rua do Carmo í Chiado en þar standa verslanir á borð við Zöru, Adidas, Diesel og vöruhúsið Armazéns do Chiado með sínar 54 verslanir.

Að Baixa og Chiado frátöldum eru engin sérstök verslunarhverfi per se en fjöldi verslunarmiðstöðva hefur opnað í borginni á seinni árum. Þær helstu eru:

  • Colombo – Ein sú allra stærsta í Evrópu með yfir 400 verslanir og fjölda afþreyingarmöguleika aðra. Jarðlest að Colegío Militar-Luz.
  • Centro Vasco de Gama – Við Þjóðargarðinn og Oriente stöðina. Afar nýtískuleg verslunarmiðstöð með öllum helstu merkjaverslunum.
  • El Corte Inglés – Keðjan spænska er með sína stærstu verslun utan Spánar hér. Gríðarlegt úrval á 9 hæðum en með þeim dýrari. Jarðlest að São Sebastião.
  • Amoreiras – Elsta verslunarmiðstöð borgarinnar. Jarðlest eða strætó að Marquês de Pombal.

Allnokkrir markaðir eru reknir í borginni. Margir slíkir starfa í hverju hverfi fyrir sig og eru í minni kantinum. Selja þeir helst matvöru, ferskmeti og ávexti. Tveir þeir stærstu, bestu og miðsvæðis eru Mercado da Ribeira í Lapa hverfinu örskammt frá samgöngumiðstöðinni Cais do Sodré og Feira da Ladra sem er helsti flóamarkaður borgarinnar. Sá finnst við hlið Santa Engracia kirkjunnar, betur þekkt sem Pantheon Nacional. Það er þó lítil tilviljun að nafnið þýðir þjófamarkaður.

Líf og limir

112 er númerið til að nota bjáti eitthvað alvarlega á á ferð í Lissabon. Hér eru smáglæpir nokkuð tíðir en að mestu bundnir við veskjaþjófnaði í Baixa og í Bairro Alto. Varast skal að vera mikið á ferð ein þegar birtu tekur að bregða því margar götur í gamla bænum eru þröngar og ákjósanlegar fyrir misyndismenn til athafna.

Að þessu sögðu hefur átak verið gert til að auka öryggi bæjarbúa og ferðamanna undanfarin ár og Lissabon er engu hættulegri en aðrar borgir Evrópu. Reyndar er hún öruggari ef marka má kannanir.

Nægt framboð er af fíkniefnum hér og engum á að koma á óvart þótt slíkt sé boðið á rölti sínu um borgina. Neysla er ólögleg og lögregla á það til að fangelsa útlendinga til að ítreka þau skilaboð en öllu líklegra er að neytendur séu látnir í friði svo lengi sem notkunin fer ekki fram fyrir allra augum. Varast ber þó að fara með sölumönnum eins og margir þeirra reyna því oftar en ekki er verið að draga fólk á afvikinn stað og það rænt.

Sé áhugi að ferðast um á bíl um Lissabon skal hafa í huga að árekstrar og slys eru hvergi tíðari í nokkurri höfuðborg í Evrópu og enginn hliðrar til fyrir ferðafólki. Þá er bara hlegið ætli einhver að kvarta yfir nudda bíla á milli. Taka skal feita tryggingu meðan keyrt er um borgina og gott götukort því hartnær helmingur gatna hér er einstefna.

View Larger Map