S ökum þess að stöku íslensk ferðaskrifstofa hefur undanfarin ár boðið beinar ferðir til Kraká í Póllandi hefur þessi hluti Evrópu komst á kortið hjá Íslendingum og nú síðustu árin sökum Wizz Air. Það er vel. Þetta er fallegur hluti álfunnar og Pólverjar, hvaða álit menn svo sem hafa á þeim almennt, eru sæmilegir heim að sækja. Þá er þetta fyrirtaks upphafsstaður til þvælings þar sem Kraká er ekki fjarri landamærum Tékklands og Slóvakíu en bæði löndin eru afar falleg heim að sækja.

Kraká sjálf er falleg líka en hún er höfuðborg Malopolski héraðsins sem útleggst Minna Pólland. Hún er þriðja stærsta borg landsins með tæplega 800 þúsund manna íbúafjölda. Staðsetning hennar er stórkostleg við við bakka Wislu árinnar og ennfremur við rætur hinnar mikilfenglegu Karpatíufjalla.

Hverfi

99 prósent allra ferðamanna í Kraká láta sér nægja að skoða gamla bæinn, Stare Miasto, eða Plenty sem er að öllu leyti innan borgarveggjanna. Önnur forvitnileg hverfi til skoðunar eru Wawel hæð og Kazimierz. Þess utan er um hefðbundin borgarhverfi að ræða þar sem mannlífið er skemmtilegra en lítið að sjá nema það.

Snöggsoðin sagan

Kraká er ein elsta borg Pólland og fundist hafa ummerki um fólk þarna á ferð 20 þúsund árum fyrir Krist. Borgin kemst fyrst í sögubækur á Spáni sem ein helsta miðstöð viðskipta og verslunar við Slava. Það var einmitt verslunin sem breytti Kraká frá litlu þorpi í stóra og mikilvæga borg með tíð og tíma.

Hún var næstum jöfnuð alfarið við jörðu á þrettándu öld af Töturum en endurbyggð í kjölfarið og þannig er hún að mestu enn í dag þrátt fyrir meiri hernað gegn henni af hálfu Mongólum síðar meir. Það var á þeim tíma sem konungur landsins skapaði sérstakt svæði gyðinga innan borgarmarkanna til að vernda þá fyrir ofsóknum.

Á sautjándu öld var Kraká meðal fremstu borga á sviði vísinda og lista og á sama tíma sameinaðist Pólland Litháen og í kjölfarið færðist öll ákvörðunartaka til Varsjár frá Kraká. Stríð í kjölfarið við Rússa, Svía, Austurríki auk fleiri ríkja boðaði upplausnartíma fram til 20. aldarinnar.

Aðeins með Versalasamningunum 1919 tókst að skapa sjálfstætt ríki Póllands í meira en hundrað ár og það entist þangað til Þjóðverjar gerðu innrás 1939. Í grennd við Kraká settu Þjóðverjar í kjölfarið upp útrýmingarbúðir. Kraká slapp þó merkilega vel við eyðileggingu í Seinni heimsstyrjöldinni þó þúsundir lærðra og leikinna borgarbúa hefðu látið lífið.

Yfirráð Rússa yfir Póllandi eftir styrjöldina þýddi að borginni var að hluta breytt í iðnaðarborg með tilheyrandi verksmiðjum kommúnista en eftir fall Berlínarmúrsins 1989 hófst enduruppbygging sem stendur enn og gengur vel.

Loftslag og ljúflegheit

Fjórar árstíðir eru í Kraká. Sumrin eru töluvert heit og meðalhitastig sjaldan undir 33 stigum meðan vetur eru bitrir og hitastig yfirleitt vel undir frostmarki. Mikið rignir á haustin.

Til og frá

Flugvöllur Kraká heitir Balice og er í tólf kílómetra fjarlægð frá borginni.

Lestir eru ódýrasti ferðamátinn inn í borgina en héðan fara þær að Dworzec Glowny aðallestarstöð borgarinnar á 30 mínútna fresti. Miðaverð aðra leið er 280 krónur og er ferðatíminn 20 mínútur. Frí skutla flytur ferðafólk frá flugvellinum að lestarstöðinni.

Strætisvagnar eru annar möguleiki. Vagn númer 192 gengur inn í miðborgina einu sinni á hverri klukkustund og annar til, númer 208, fer inn í úthverfin. Stakur miði kostar 150 krónur en vagnarnir stoppa víða og ferðatíminn inn í borgina er 40 mínútur.

Leigubílar eru hér líka en ekki taka þeir allir kreditkort. Forvitnastu fyrst. Far í miðborgina ætti ekki að öllu eðlilegu að kosta meira en 2400 krónur. Allir bílar eru með mæli en sumir bílstjórar reyna að svindla og kveikja ekki á honum.

Ratvísi

Kraká er stórborg og liggur nokkuð dreift. Ráðlegast er að verða sér úti um gott kort. Oft er hægt að fá slík frítt á betri hótelum eða gististöðum en þau kosta ekki meira en 300 krónur í næstu búð.

Kraká er í raun tvær borgir. Gamla borgin, Stare Miasto, þar sem langflestir ferðamann láta sér nægja að þvælast um enda mest þar að sjá. Fyrir vikið er verðlag almennt hærra þar en annars staðar og það er einmitt annars staðar þar sem fólk vitnar raunverulegt líf borgarbúa.

Samgöngur og snatterí

Kraká svipar til allra helstu stórborga Evrópu að því leytinu til að sá hluti borgarinnar sem mest heillar ferðamenn er tiltölulega lítill og vel innan göngumarka án þess að sviti, tár og blóð þurfi að koma til. Í tilfelli Kraká er það gamli bærinn og innan hans er engin þörf á neinu öðru en tveimur jafnfljótum. Þá er ómetanlegt að skoða Plenty garðinn kringum gamla bæinn fótgangandi.

Sé áhugi að skoða fleira en gömul mannvirki er gott strætisvagna- og sporvagnakerfi í Kraká. Umferð er þó nokkuð þung í borginni og strætisvagnar sem sporvagnar lenda iðulega í slíkum teppum. Sjá leiðakerfi beggja kerfa hér. Eftir miðnætti taka næturvagnar við strætókerfinu en sporlestir ganga ekki eftir miðnætti. Kaupa þarf miða fyrirfram í þartilgerðum sjálfsölum við flestar stöðvar. Einnig hægt að kaupa miða í sjoppum. Miðategundir eru margar en stakur miði fram að miðnætti sem gildir í klukkustund kostar 120 krónur. Næturverð er tvöfalt. Stimpla þarf miða um borð við innkomu.

Fyrir þvæling innan borgarmarkanna er bíll tómt rugl. Umferð er þung hér og miklar tafir eðlilegar á álagstímum. Jafnvel þó viðkomandi sé akandi utan þeirra tíma eru stæði af skornum skammti við flesta staði sem eitthvað heilla og því er ólíklegt að bíll sé góður kostur fyrir nokkurn.

Leigubílar eru tiltölulega ódýrir og betri kostur en eigin bíll. Skottúrar kosta undir þúsund krónum og hægt að fara borgarmarka á milli fyrir 2500 krónur. Allir leigubílar eru merktir með skilti á þakinu og eiga að hafa verðmiða í glugga.

Til umhugsunar: Reglulega heyrast fregnir þess efnis að erlendir ferðamenn hafi verið snuðaðir af leigubílstjórum. Sjálfsagt er að forvitnast ef verð þykir mikið yfir því sem búist var við.

Fínn kostur hér er að fara um á hjólum. Vindur er ekki stórkostlegt vandamál og hjólastígar og götur eru víða. Borgin leigir hjól og það gera margir aðrir og ætti dagsleiga ekki að fara yfir 2200 krónur.

Söfn og sjónarspil

Til umhugsunar: Mörg ríkisrekin söfn í Kraká bjóða frían aðgang á sunnudögum. Þau eru ennfremur flest lokuð á mánudögum.

> Konunglegi Wevel kastalinn (Zamek Królewski Na Wavelu) – Í þessum mikla kastala var hásæti konunga Póllands fyrr á tíðum og lúxusinn eftir því. Honum hefur verið breytt í stórt og mikið safn og hér er óhætt að eyða hálfum degi fyrirfinnist einhver áhugi á listum og gamalli menningu. Gotneskur kastalinn er sjálfur ekkert yfirgnæfandi stórkostlegur en staðsetningin yndisleg og ýmis listaverk og dýrgripir vel þess virði að sjá. Þá er hér líka dómkirkja sem tilheyrir kastalanum. Safninu sjálfu er skipt niður í níu svæði og þarf á tíðum að greiða sérstaklega inn í hvert og eitt þeirra. Þá er líka gestafjöldi takmarkaður og fyrir kemur að fólki er vísað frá. Þá er einnig mismunandi opnunartími en að jafnaði er opið alla daga nema mánudaga milli 11 og 16. Aðgangseyrir er frá 800 krónum inn á hvert svæði. Kastlinn er við Vistula ánna í gamla bænum. Heimasíðan.

> Czartoryski safnið (Muzeum Narodowe W Krakowie) – Fyrrum einkaheimili en nú safn og hér er margt gott listmuna. Ekki síst hið fræga verk Da Vinci „Hefðarfrúin með hreysiköttinn“ auk annarra verka. Safnið er þó ekki sjón að sjá lengur því nasistar stálu hér öllu steini léttara í Síðari heimsstyrjöldinni og aðeins fáir munir hafa skilað sér aftur. Strætisvagnar 124 eða 152 eða sporvagnar 2,3 eða 4. Opið alla daga nema mánudaga milli 9 og 17. Aðgangur 2400 krónur. Heimasíðan.

> Biskupahöllin (Palac Biskupa Erazma Ciolka) – Dvalarstaður biskupa Póllands til forna og ríkulegu skreytt og ekkert til sparað á þeim bænum. Fjöldi einstakra og gamalla innanstokksmuna og ekki er listaverkasafnið af lakara taginu. Sporvagn 6,8 eða 10 að Kanonicza stræti. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 450 krónur. Heimasíðan.

> Fornleifasafnið (Muzeum Archeologiczne w Krakowie) – Gott fornleifasafn og það eina í veröldinni þar sem sjá má skúlptúr af slavneskum guði því aðeins ein slík höggmynd hefur nokkru sinni fundist og er hún varðveitt hér. Ekki er heldur dónalegt að safnið er hýst í gömlu virki. Safnið stendur við Senacka stræti og hvergi er betra útsýni yfir Wavel kastala en þaðan. Opið þri- lau milli 9 og 14. Punga þarf út 400 krónum fyrir aðgang.

> Miðstöð japanskrar listar og tækni (Manggha-Centrum Sztuki I Techniki Japonskiej) – Á dauða sínum á maður stundum von en að miðstöð japanskrar listar og tækni fyrirfinnist í Kraká af öllum stöðum er langsótt mjög. Engu að síður er þetta ágæta safn staðsett hér í borginni og þykir með þeim allra bestu jafnvel í samanburði við söfn í Japan. Er þetta stærsta safn japanskra hluta í allri austur Evrópu. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 700 krónur. Heimasíðan.

> Gyðingasafnið (Galicja Zydowski Muzeum) – Allt sem ferðamenn kæra sig um að vita um örlög gyðinga í Kraká er að finna á þessu ágæta safni. Það fellur þó allverulega í skuggann á heimsókn í útrýmingarbúðirnar Auschwitz sem eru skammt frá borginni og gefa töluvert merkilegri mynd af helför gyðinga. Sjá nánar hér. Safnið hins vegar opið daglega milli 10 og 18. Sporvagn að Miodowa. Aðgangur 600 krónur. Heimasíðan.

> Flugsafnið (Muzeum Lotnictwa Polskiego) – Flugsöfn heilla marga og þetta þykir í betri kantinum af slíkum söfnum í Evrópu. Um 140 tegundir flugvéla hér til sýnis af ýmsum toga auk ljósmynda og sögukennslu í þokkabót. Staðsett við Al Jana Pawla en safnið er falið nokkuð bakvið íbúðablokkir. Opið 9 – 16 virka daga nema á mánudögum þegar aðeins útisvæði eru opin. Aðgangur 320 krónur en frítt á mánudögum. Heimasíðan.

> Gamla borgin (Stare Miasto) – Gamli borgarhluti Kraká er bæði fallegur og kyrrlátur. Þessi hluti er hringlaga og umlukinn gamla borgarvirkinu og ekki síður bráðfallegum garði, Plenty. Þrátt fyrir þröngar göturnar eru næsta ómögulegt að villast hér því allar leiðir liggja að sama miðpunkti; Markaðstorginu eða Rynek eins og það heitir á frummálinu. Rynek er eitt allra stærsta markaðstorg frá miðöldum sem enn er að stærstu leyti upprunarlegt. Hér er pakkað af ágætum veitingastöðum og börum en reyndar allir á dýrari kantinum enda sækja hingað fáir nema ferðamenn. Nokkrar byggingar gamla borgarhlutans tilheyra þriðja elsta háskóla heims, Jegiellonian háskóla, sem er heimsþekktur. Það gefur bænum skemmtilegan blæ enda fullur af ungu fólki en ekki síður er fólki heimilt að kíkja inn í þær byggingar og skoða. Þær eru allar merktar.

> Gyðingahverfið (Kazimierz) – Kazimierz var og er enn hverfi gyðinga í borginni og í raun bær innan borgarinnar. Þar hafa gyðingar komið sér fyrir þó enn eimi þar eftir af eyðileggingu Seinni heimsstyrjaldarinnar. Rústir bygginga eru víða og ýmislegt þar í niðurníðslu. Hér eru göturnar þröngar mjög en hverfið það víðfeðmt að auðvelt er að villast. Engu að síður forvitnilega að stíga niður fæti hér um stund og taka inn þann sérstaka anda sem þarna ríkir. Aðeins nýlega hófu borgaryfirvöld alvarlega enduruppbyggingu að ráði en langur vegur er enn eftir.

> Hetjutorg (Plac Bohaterow Getta) – Til marks um hve borgaryfirvöld hafa látið setja á hakanum að endurbyggja ákveðin hverfi þó tæp 70 ár séu síðan Seinni heimsstyrjöldinni lauk þykir nokkuð merkilegt að ekkert einasta minnismerki var reist í borginni um fórnir gyðinga og fórnfýsi þeirra meðan á hernámi Þjóðverja stóð. Það breyttist loks árið 2006 þegar stórt torg í Podgorze hverfinu var nýtt til minningar um þá er fórnuðu lífi sínu. Samanstendur minnisvarðinn af fjölmörgum stólum sem eiga að minna á einkamuni þá er gyðingar skildu eftir á torginu þegar skipun var gefin um að rýma hverfið og fólkið í kjölfarið flutt til Auschwitz. Forvitnilegur staður en Podgorze er hverfið gegn Wavel kastala en áin Vistúla skiptir þeim hverfum.

> Verksmiðja Oskar Schindlers (Fabryka Oskarar Schindlera) – Innan gyðingahverfisins eru allnokkru smærri söfn til minningar um helförina. Það nýjasta er ekki safn í orðsins fyllstu heldur verksmiðja sú er Þjóðverjinn Oskar Schindler byggði og rak hér á stríðsárunum. Sá er þekktastur fyrir að bjarga, gegnum þessa verksmiðju sína, um þúsund gyðingum frá dauða eins og þekkt er úr kvikmynd Steven Spielberg. Hana er hægt að skoða og þar eru enn heillegar vélar þess tíma. Heimasíðan.

> Konunglega leiðin (Droga Królewska) – Allir sem þvælast um í Kraká þvælast ósjálfrátt um hluta Konunglegu leiðinarinnar sem svo er kölluð. Er það ákveðin leið gegnum borgina þar sem allir þeir er krýndir voru konungar landsins gengu við krýningu sína og ekki síður sömu leið þegar þeir aðilar voru jarðsettir. Er sú leið enn notuð við hátíðleg tækifæri. Nær hún gegnum allan gamla bæinn frá Hliði heilags Florían gegnum Markaðstorgið og að út Grodzka stræti að kastlanum þar. Er þetta fínasta gönguleið um borgina og sjást þar á einu bretti allar helstu byggingarnar í gamla bænum.

> Borgarhlið heilags Florían (Brama Florianska) – Á miðöldum var Kraká meðal ríkustu borga og því þurfti að verja hana vel með ráðum og dáð. Var þriggja kílómetra borgarvirki reist með 38 turnum og átta hliðum og var borgarhlið heilags Florían aðalhlið borgarinnar. Það stendur enn að mestu leyti.

> Kirkja heilagrar Maríu (Kosciol Mariacko) – Frægasta kirkja Póllands er hér í Kraká og ber nafn María hinnar óspjölluðu meyjar. Hún stendur við aðaltorg miðborgarinnar og gnæfa tveir turnar hennar yfir flest annað á þessum slóðum. Sá hærri þeirra er 81 metri á hæðina. Eigi einhver í vandræðum með að finna kirkjuna nægir yfirleitt að leggja við hlustir á klukkustundar fresti þegar hin fræga loftflauta, Hejnal Mariacki, gellur við í allar áttir. Hljómar þessi sérstaka flauta einnig hvert einasta hádegi í pólska ríkisútvarpinu.

> Hallandi ráðhússturninn (Rynek Glowny) – Kraká á sinn eigin hallandi turn. Er það ráðhússturn borgarinnar við Aðaltorgið. Hallar þessi 70 metra turn aðeins um 55 sentimetra en ástæðan er merkileg; sterkur vindur blés turninum árið 1703. Í kjallaranum er lítið kaffihús og þar fara á stundum fram leiksýningar. Á jarðhæð er upplýsingaþjónustu ferðamanna, þarna er líka lítið safn um sögu borgarinnar en best er þó að klifra hinar hundrað tröppur upp í útsýnisturn sem gefur frábært útsýni yfir stærsta og að margra mati fallegast miðaldartorg Evrópu. Turninn var á sínum tíma hluti af glæsilegu ráðhúsi bæjarins en það var rifið niður fyrir löngu. Sjá þrívíddarmynd af turninum hér.

> Wavel dómkirkjan (Katedra Wavelska) – Fallegasta kirkja borgarinnar tilheyrir Wavel kastalanum og ekki skal láta hjá líða að skoða hana þegar kastalinn sjálfur er skoðaður. Kirkjan er mikilfengleg og geymir margt fallegra muna. Hér eru líka jarðsettir margir þeir konungar sem ráðið hafa ríkjum í landinu og aðrir er merkilegir þykja. Þá er Zygmunt kirkjuklukkan heimsfræg enda stærsta kirkjuklukka Evrópu en hún er ekki í notkun lengur.

> Sædýrasafn Kraká (Ogrod Zoologiczny) – Ekki einstakt að neinu leyti en gott samt og mikill fjöldi dýra hér að sjá. Ómissandi fyrir börnin séu þau með og góður staður til afslöppunar eftir þreytandi göngutúra eða til að njóta verndar frá sólinni séu menn á ferð yfir hásumarið. Þá er hér sérstakur smádýragarður þar sem börnin geta snert og jafnvel leikið með dýrunum. Kaffi- og veitingastaður innan garðsins. Strætisvagn 134 að safninu. Opið 9 – 16 virka daga og 9 – 18 um helgar. Aðgangseyrir 650 krónur. Heimasíðan.

> Bænahús gyðinga (Synagoga Tempel) – Í gyðingahverfinu má finna ein sjö bænahús gyðinga en þetta ákveðan bænahús sem hefur verið endurbyggt að hluta þykir það fallegasta en vel skreytt. Það er hægt að fá að skoða gegn vægu gjaldi en fólk skal klæðast virðulega og nota gyðingahúfu eða þess konar höfuðfat. Á stundum fara einnig hér fram tónleikar. Húsið stendur við Miodowa stræti. Opið 9 – 18 alla daga nema laugardaga. Aðgangur 230 krónur.

> Kosciuszko hæð (Kopiek Kosciuszko) – Sé litið til fjalla úr borginni má glögglega sjá undarlega kúluhæð eina sem stendur hærra en annað í kring. Þetta er Kosciuszko hæðin sem gefur frábært útsýni yfir borgina. Um er að ræða manngerða hæð en hún er til minnigar um þjóðernissinnann Tadeusz Kosciuszko. Fjórar slíkar eru í raun kringum Kraká en þessi er mest sótt og gefur langbest útsýni. Á staðnum er lítið safn tengt hetjunni og falleg kapella þar að auki.

Verslun og viðskipti

Til umhugsunar: Útsölur kaupmanna í Kraká eru góðar og margir veita 50% afslætti frá fyrsta degi útsölu. Vetrarútsölur hefjast hér um miðjan janúar og standa í þrjár til fjórar vikur en sumarútsölur hefjast kringum 1. júlí og standa út mánuðinn.

Pólverjar eins og kunnugt er nota ekki evruna heldur pólskt zlotí enn þann dag í dag. Sem kæmi sér stórvel er hér á landi hefðu stjórnmálamenn og stofnanir staðið vörð um almannaheill á árum áður. Sökum falls krónunnar og á sama tíma urrandi uppgangs zlotí Pólverja er verslun öll í Póllandi fremur dýr þó landið per se sé ódýrt á evrópskan mælikvarða.

Mest úrval verslana er að finna í gamla borgarhlutanum og sérstaklega er gott úrval af fötum, skarti og listaverkum hvers konar. Sama gildir um Gyðingahverfið þar sem margar smærri verslanir bjóða gott úrval þess sama. Einfaldast en um leið dýrast er að versla við Aðaltorgið, eða Markaðstorgið eins og margir vilja kalla það, en þar eru langflestar verslanir á litlum bletti.

Séu verslunargenin sterk en fáar krónur í veski er þess virði að taka strikið inn í aðra bæjarhluta því verðmunur getur verið talsverður milli miðborgarinnar annars vegar og óþekktari hverfa. Úrvalið auðvitað minna en meira fæst fyrir peningana.

Markaðir finnast eðlilega í Kraká. Þeir helstu eru:

  • Sukiennice – Í afar tígullegri byggingu í endurreisnarstíl við Aðaltorgið fer fram mesti og besti markaður Kraká en á efri hæð þeirrar byggingar er hið merkilega Czartoryski safn. Hér var áður fyrr eitt mesta viðskipt- og vörumarkaður Evrópu þegar Kraká var meðal mestu viðskiptaborga álfunnar. Í dag eru seldar þarna ýmsar vörur og prútt heimilt. Þessi opinn meira eða minna alla daga ársins en mörgum finnst reyndar fullmikið úrval af ódýrum minjagripum og öðrum hefðbundnum túristavörum.
  • Hala Targowa – Besti útimarkaður Kraká er þessi staðsettur við Plac Targowy Unitarg torgið. Misjafnt úrval daga á milli en á sunnudögum stækkar markaðurinn þrefalt og breytist í flóamarkað. Opinn daglega frá 7 – 14.
  • Plac Nowy – Gyðingamarkaður sem stendur við samnefnt torg í gyðingahverfinu. Ýmsar vörur en mikið matarkyns alla jafna nema um helgar þegar aðrar vörur bætast við úrval kjöts og ávaxta. Þá er hér skiptimarkaður á þriðju- og föstudagsmorgnum. Opið frá 5:30 til 14 alla jafna en fer þó eftir traffík.
  • Nowy Kleparz – Elsti markaður borgarinnar en hér eru nánast eingöngu til sölu bændavörur hvers konar. Góð traffík og sjaldan ferðamenn á vappi hér.

Verslunarmiðstöðvar eru nýjung í Póllandi öllu og í raun aðeins á síðustu fimmtán árum sem slíkir staðir hafa sprottið upp í Kraká. Þær helstu eru:

  • Bonarka – Þessi nýjasta verslunarmiðstöð borgarinnar er við götuna Kamiensiego 11. Opin daglega 10 – 22.
  • Galeria Kazimierz – Eins og nafnið bendir til er þessi staðsett í gyðingahverfinu. Opin daglega 10 – 22.
  • Galeria Krakowska – Þessi miðstöð stendur við Pawia stræti. Opin 9 – 22.
  • Krakow Plaza – Við Aleja Pokoju stræti. Opið 9 – 21.

Matur og mjöður

Pólskur matur nýtur engrar sérstakrar hylli á heimsvísu en það þýðir ekki að hér sé ekki hægt að fylla malla svo vel sé. Fjöldi staða er að finna í borginni. Í gamla borgarhlutanum er sérstaklega gert út á ferðamenn og matseðlar evrópskir að mestu leyti.

Til að finna heimagerðan keim af mat er málið að elta heimamenn. Þeir setjast gjarnan sjálfir inn á smærri þrönga veitingastaði og þar er jafnan úrval matar sem erlendir ferðamenn þekkja hvorki haus né sporð á. Reyndar er sá hængur á að á alvöru pólskum stöðum er nokkur skortur á matseðlum á öðru tungumáli en pólsku.

Mælt er með að prófa hina pólsku kielbasa pylsu sem er sérstök en góð. Zurek og Barszcz eru pólskar súpur sem eru báðar allsérstakar og þess virði að gæða sér á.

Töluverður fjöldi staða gerir út á asíska rétti en það er samdóma álit matargæðinga að þeir séu daprir mjög og best að forðast þá alveg. Þá er hér líka hinir hefðbundnu bandarísku skyndibitastaðir sem alls staðar finnast.

Pólverjum finnst mjöðurinn góður eins og reyndar fleirum. Barir og pöbbar eru hér á hverju strái og einir 300 slíkir bara í gamla borgarhlutanum.

Yfir sumartímann er götustemmning víða í borginni og torg og stræti þéttsetin af hressu fólki sem sýpur öl og sterkara. Gamli bærinn steinliggur í þessu tilfelli en fína stemmningu má líka finna í gyðingahverfinu og á mörgum stöðum meðfram Vistula ánni.

Næturklúbbar og dansstaði er að finna í grennd við helstu stemmningsstaði.

Til umhugsunar: Pólverjar eiga nokkra drykki sem þeir kalla sína eigin og eru ekki ýkja þekktir annars staðar. Prófið endilega tatanka úr epladjús og vodka. Sliwowica er baneitrað plómubrandí og eru sumar tegundir með 70 prósent áfengisstyrk. Töluvert betra er Wódka miodowa sem er hunangsvodka í staupum eða skotglösum.

Líf og limir

Smáglæpir eru nokkuð tíðir hér og bílaþjófnaðir alvarlegt vandamál. Alvarlegir glæpir gegn ferðamönnum óalgengir og engin sérstök hverfi verri en önnur. Þá er vörusvindl algengt og götusalar slæmir hvað það varðar. Fátt sem þeir selja er ekta.

Neyðarsímanúmer er 112.

View Larger Map