Fyrir stundarkorni síðan lenti Boeing Dreamliner 787 í Hong Kong eftir túr frá Tókíó en þetta var fyrsta flug Dreamliner vélarinnar með borgandi farþega.
Gekk allt að óskum að því er fram kemur í bæði kínverskum og japönskum fréttamiðlum sem grannt fylgdust með enda ár og dagur og reyndar mun lengri tími síðan ný farþegaþota tók til skýjanna.
Aðeins voru 25 sæti í boði fyrir Jón Jónsson í þessari jómfrúarferð en hana fóru einnig forsvarsmenn Boeing og flugfélagsins All Nippon Airways. Voru þessir 25 miðar settir á uppboð og komust að færri en vildu.
Mikið liggur við að þessi nýja vél Boeing reynist í alla staði góð því fyrirtækið hefur eytt mun meiri fjármunum til framleiðslunnar og hönnunar en ráðgert var í fyrstu.
Þá er enn þann dag í dag verið að gera athugasemdir við búk vélarinnar sem er ólíkt hefðbundnum farþegavélum ekki úr áli og stáli heldur sérstöku plastefni en ekki þykir fullsannað að plastið þoli sama næðinginn og eldra efnið.
Hvað sem hæft er í því tókst þessi ferð í alla staði vel.






