Hmmm. Ófáir götusalar á stöðum á borð við Mallorca, Bangkok, Róm, Istanbúl, Tampa og Ríó De Janeiro hafa lofað gulli og grænu þegar þeir reyna að selja þér „ekta” Rolex eða „ekta” Aloe Vera” eða „ekta” Michael Kors handtösku. Allt auðvitað tóm lygi. Svona svipað og að Skúli Mogensen segi að Wow Air sé fimmtíu- eða sextíu milljarða króna virði fjórum vikum áður en Icelandair tekur yfir flugfélagið fyrir tvo milljarða.

Himinn og haf milli þess sem herra Mogensen röflaði í fjölmiðlum og þegar Icelandair tók yfir Wow Air á tombóluverði. Kallast það ekki svindl og svínarí?
Engar nýjar fréttir að milljarðamæringar fá ekki sama kúkinn frá yfirvöldum og fólk sem á minna undir sér. Í Róm, sem dæmi, fá götusalar sem selja falsaðan varning og nást við þá iðju oft tveggja til þriggja daga varðhald áður en þeim er sleppt aftur.
Ekki svo að skilja að ítölsku lögreglunni sé sama um sölu á falsvörum. Öllu heldur sú staðreynd að fyrir hvern götusala sem lögregla fjarlægir í borginni poppa upp þrír nýir götusalar í staðinn án þess að lögregla geti blikkað auga.
Eitt að plata fávísa túrista á götu úti og taka fimm þúsund kall fyrir vöru sem kostar 50 kall. Allt annað og töluvert alvarlegra að milljarðamæringurinn Skúli Mogensen gefi ítrekað í skyn síðustu misserin að flugfélagið hans sé 40 til 65 milljarða króna virði þegar svo kemur í ljós að Icelandair fær hræið næstum ókeypis. Í allra versta falli fyrir rúma fjóra milljarða króna.
Hvers vegna lögregluyfirvöld hafa ekki hafið rannsókn á lygum Skúla Mogensen er skýrt dæmi um að Ísland er að breytast í Bandaríkin.
Prófaðu að stela 600 króna nærbuxum í H&M í Kringlunni og þrír lögreglubílar eru mættir á nóinu. En ljúgðu blyðgunarlaust að fjárfestum og almenningi um stöðu stærsta flugfélags landsins og þú dúllar þér bara heimavið í náttslopp með Cole Porter á fóninum áhyggjulaust.
Eða er bara eðlilegt að eigandi eins stærsta fyrirtækis landsins ýki verðmæti fyrirtækis síns um allt að 3200 prósentum og glotti bara á hliðarlínunni þegar allt annað reynist raunin? Er bara eðlilegt að milljarðamæringar ljúgi almenning fullan um stórfyrirtæki og glotti bara út í eitt?







