Sérdeilis góðar fréttir af hlutabréfamörkuðum þessi dægrin. Hlutabréf Icelandair falla jafnt og þétt eins og æra Valgerðar Sverrisdóttur. Stóra spurningin er hvenær ný stjórn segir hingað og ekki lengra.

Stopover er góð hugmynd en miklu meira þarf til. Mynd Icelandair

Forstjóri Toyota kann að vera maður hinn vænsti en hans rass í stól formanns stjórnar Icelandair hefur aðeins haft neikvæð áhrif hingað til. Eitt stykki bréf í fyrirtækinu nú stendur í 13 krónum og 54 aurum þegar þetta er skrifað. Bréf tryggingafélagsins Sjóvá skjaga langleiðina í bréf Icelandair.

Hvers vegna falla bréf Icelandair þrátt fyrir tiltölulega feitar arðgreiðslur, uppstokkun í stjórn og verulegar breytingar á fargjalda- og farangursstefnu?

Fyrir því eflaust margar ástæður og þvert á það sem margir halda eru hlutabréfafræðingar og bankamenn nákvæmlega engu nær um ástæður fallandi gengis fyrirtækja en Jón Þorvaldsson, einkaspæjari í Breiðholti, eða Soffía Þórsdóttir, fiskverkunarsnillingur á Vopnafirði.

Fyrir það fyrsta þarf að henda út forstjóra Icelandair Group. Sá er ekki aðeins milljónamæringur sem þráir enn fleiri milljónir í vasann á kostnað almennings heldur og hefur hann ekki beint verið með hugann við efnið undanfarin ár. Hann hefur jú verið bissí við að halda launum almennings lágum gegnum Samtök atvinnulífsins. Og hver sá sem getur eytt dögum og vikum við dúllerí hjá þeim samtökum gerir ósköp lítið á skrifstofunni á Reykjavíkurflugvelli á meðan. Og já, það hjálpar ekkert að forstjórinn geri lítið úr heilli kynslóð fólks heldur. Það eru ekki allir með gullfiskaminni eins og fólkið á fjölmiðlunum.

Annar stór veikleiki Icelandair sem flugfélags er að það stendur ekki fyrir neitt sérstakt. Ekki er það lággjaldaflugfélag þó margir erlendis telji svo vera. Ekki er flugfélagið að bjóða neitt extra umfram önnur miðlungs flugfélög þessa heims. Þvert á móti eiginlega með því að búta niður farangursheimild farþega sem var fyrsta verk stjórans í kjölfar kosningar nýrrar stjórnar. NB: ekki lækkuðu fargjöld Icelandair þó takmark væri sett á hvað viðskiptavinir gætu haft með sér af farangri. Icelandair er ekki sérstaklega þekkt fyrir góða þjónustu og stór mínus að 20 ára plús gamlar vélar flugfélagsins menga á fimm mínútum eins og Becromal í Eyjafirði gerir á ársgrundvelli.

Ekki hjálpar heldur að það er ákveðin spillingarára kringum forstjóra sem setið hafa sem fastast um ár og raðir. Forstjóri Icelandair hefur nú setið í hornskrifstofunni sinni í níu ár og plottað. Vitað er að forstjórinn og flugfélagið hafa töluverð áhrif á pólitík gegnum Sjálfstæðisflokkinn og það er mál manna að komugjöld hefðu verið sett á ferðamenn strax árið 2015 ef Icelandair hefði ekki staðið hart upp á mót. Komugjöld sem hefðu skapað tug- og jafnvel hundruð milljóna króna til uppbyggingar á þeim stöðum sem ferðamenn traðka nú niður eins og fallegasta náttúra heims finnist nú um allar trissur.

Annað sem er miður fyrir forstjórann er sú staðreynd að flugfélagið hefur ótt og títt gegnum árin boðið erlendum viðskiptavinum sínum upp á miklu betri kjör en heimafólki á Fróni. Icelandair stundar það reyndar ennþá að fljúga erlendum hingað og heim fyrir lægri upphæðir en það heimtar af Íslendingum sömu leið. Með öðrum orðum þá hefur Icelandair virt sína dyggustu viðskiptavini að vettugi um árafjöld. Því fyrirtæki sem ekki hefur sterkt bakland heimavið mun aldrei farnast vel erlendis. Það er viðskiptafræði 101.

Ágætt dæmi um blinduna hjá Icelandair er sú staðreynd að lággjaldaflugfélagið Norwegian mun innan tíðar hefja áætlunarflug milli Keflavíkur og Alicante á Spáni. Við skulum lesa þetta aftur: Ágætt dæmi um blinduna hjá Icelandair er sú staðreynd að lággjaldaflugfélagið Norwegian mun innan tíðar hefja áætlunarflug milli Keflavíkur og Alicante á Spáni!!!

Hugsa sér að stærsta flugfélag Íslands, flaggflugfélagið sjálft, hefur aldrei nokkurn tímann sýnt nokkurn áhuga á að fljúga til þess staðar í veröldinni þar sem Íslendingar eru fjölmennastir á erlendri grund. Þar sem sagt er að yfir níu þúsund manns eigi íbúðir eða eignir og að yfir þúsund þeirra dvelji þar lungann úr árinu. Eða hvers vegna í ósköpunum sér erlent lággjaldaflugfélag sér hag í því að fljúga þá leiðina? Dohhhh.

En landinn er jú með gullfiskaminni að mestu leyti og dvínandi viðskipti heimavið skipta litlu máli hvað varðar kistulagningu Icelandair þegar allt kemur til alls. Orsakir hrapandi gengis rista dýpra en að almenningur á Íslandi vakni til vitundar.

Icelandair þarf að skapa sér einhverja sérstöðu. Annaðhvort lægra verð á flugi til og frá eða betri þjónustu til og frá. Hvað ætlar Icelandair að verða þegar það verður fullorðið? Öllum má ljóst vera sem með fylgjast að topparnir hjá fyrirtækinu hafa enga hugmynd. Enga framtíðarsýn aðra en að hluthafar fái feitan snúð.

Sorrí. Það dugar ekki til.

Fyrir utan að það er dauðadómur að setja hluthafa í Saga Class og viðskiptavini í Fuck You Economy Class þá eru að minnsta kosti þrjú ný flugfélög að bætast í hóp þeirra flugfélaga sem fljúga reglulega milli Evrópu og Bandaríkjanna og öfugt og það er eini hugsanlegi vaxtarbroddur Icelandair að fjölga tengifarþegum. Víst fjölgar þeim er dvelja á Íslandinu góða en eftir fimm til tíu ár þegar Strokkur hættir að gjósa, sjö einstaklingar hafa fallið ofan í Gullfoss, kúkur byrgir sýn að Skógafossi og ekkert heitt vatn rennur lengur í Bláa lónið er hætt við að erfitt verði að græða á Íslandi án þess að hafa mikið fyrir.

Fyrsta skrefið er að fá nýjan mann í forstjórajobbið og það fyrr en síðar…