Skip to main content

Fyrir þau okkar sem komin eru yfir fermingaraldurinn og hafa ferðast aðeins um heiminn er sterk slæm ímyndin af hostelum. Gegnum tíðina hafa slíkir staðir í 99 prósent tilvika verið skítugir og ódýrir staðir með þúsund kojum og lélegum morgunmat. En ekki lengur.

Fátt púkó við þennan opna jógagarð við eitt af betri gistihúsum í Amsterdam

Fátt púkó við þennan opna jógagarð við eitt af betri gistihúsum í Amsterdam

Ritstjórn hefur áður fjallað um þá endurreisn sem á sér stað á þessum ódýrari gistimöguleikum og nú taka blaðamenn New York Times í sama streng, ekki í fyrsta sinn sem Fararheill er langt á undan því ágæta fólki, og mælir eindregið með að fólk taki hostel framyfir hótel við ferðalög.

Ekki aðeins eru hostel, sem við þýðum sem gistiheimili þar sem farfuglaheimili er einkaréttarvarið, ennþá almennt töluvert ódýrari en gisting á meðalhóteli heldur eru mörg gistiheimili orðin mun betri og skemmtilegri en hótelin.

Við sjáum vísi að þessari sömu þróun hérlendis eins og hver sem lagt hefur leið sína á Kex Hostel eða Reykjavík Backpackers getur staðfest. En þeir staðir blikna feitt í samanburði við ýmsa þá stórkostlegu gististaði sem í boði eru í borgum heimsins á lágmarksverði.

Í Tallinn Eistlandi hefur Fararheill eytt nóttum á gistiheimili með glerveggjum, hreinni sturtu en finnast í flottum hótelum, risaskjá með ótakmörkuðu úrvali kvikmynda og meira að segja með vínbar sem seldi ekkert yngra en tíu ára rauð- og hvítvín frá Spáni og Ítalíu og það á verði sem ylli Ögmundi Jónassyni hjartaáfalli.

Fréttalið NYT segir frá eðal gistihúsi í Lissabon í Portúgal með flatskjá og alvöru expresso kaffimaskínu í hverju herbergi og eins og það sé ekki nóg eru stólarnir frá Philippe Starck og svölum með útsýni yfir miðborgina.

Gistihúsin eru mörg með öðrum orðum farin að bjóða ýmisleg þægindi sem hingað til hafa einskorðast við lúxus á hótelum og það hótelum í dýrari kantinum. Verð fer vitaskuld upp á við líka en nær þó ekki í skottið á hótelverði enn sem komið er.

Tvær síður sem vert er að skoða hafi fólk áhuga á bútíkk-gistingu er ráð að kíkja hingað og hingað. Svo er líka hægt að leita að flottum hostelum / farfuglaheimilum á gistileitarvél okkar hér að neðan.