V ið hér höfum ekki tölu á þeim vinum og ættingjum sem þvælast heiminn þvers og kruss í því eina skyni að hjóla um heimsins héruð. Algjör sprenging hefur orðið í hjólaferðalögum erlendis og gott mál í alla staði. Fáir hafa þó látið sig hafa að hjóla eina merkustu og fallegustu leið heims: Menningarleiðina í Pýreneafjöllum.
![](https://fararheill.is/wp-content/uploads/2019/06/6140014706_2b2c724e03_c1-400x212.jpg)
Tourmalet er talinn erfiðasti leggur hinnar frægu Tour de France hjólreiðakeppni. Mynd Miguel C.
Ók, tæknilega er ekki til nein Menningarleið í Pýreneafjöllum en við skírðum þá leiðina umsvifalaust menningarferð þó um hjólaferð sé að ræða.
Hér um að ræða stórkostlegan túr í fjallasölum Pýreneafjalla, sem er fjallgarðurinn sem skilur að Frakkland og Spán. Á þeirri leiðinni má ekki aðeins heimsækja hæsta safn heims, hjóla allra illræmdasta legg Tour de France hjólreiðakeppninnar heldur og vitna hellateikningar fólks sem var uppi fyrir FJÓRTÁN ÞÚSUND ÁRUM SÍÐAN!
Þetta sami fjallgarður og þeir verða að þvera sem kjósa að ganga Jakobsveginn frá Frakklandi eða Þýskalandi. Hreint ekki auðveldur yfirferðar hvort sem er á tveimur jafnfljótum eða hjólum en náttúrufegurð er mikil, merkileg saga við hvert fótmál og dæmalaust lítil og ljúf fjallaþorp finnast hist og her á svæðinu. Sum þeirra algjörlega í eyði.
![](https://fararheill.is/wp-content/uploads/2021/06/sanf.jpg)
Fróðir segja þetta hæsta safn heims. Pic du Midi er stjörnuskoðunarstöð í tæplega 2900 metra hæð. Það vel tvöfalt hærra en litli Hvannadalshnjúkur. Skjáskot
Eðli máls samkvæmt er ekki bara ein leið fær yfir garðinn heldur er vegir og slóðar hér um allar trissur. Reyndar alls fimm hundruð vegir, slóðar eða trissur að velja um. Hér því sáraeinfalt að henda tjaldi og prímus í bakpoka og hjóla afdalaleið eða skauta eftir malbikuðum vegum alla leiðina.
Tæknilega er um þrjár hjólreiðaleiðir að ræða sem flestir kjósa: Baskaleiðin, Miðgarður eða Miðjarðarhafsleiðin. Heitin segja flest sem segja þarf; Baskaleiðin er yfir norðvesturhluta fjallgarðsins, Miðgarður vitaskuld lóðbeint yfir og svo Miðjarðarhafsleiðin sem leiðir fólk eins austarlega í fjallgarðinum og framast er unnt án þess að fara niður á láglendið.
![](https://fararheill.is/wp-content/uploads/2021/06/pyr1.jpg)
Erfitt já en fimm stjörnu náttúrufegurð hjálpar til 🙂 Mynd Peregrine Travel
Einu gildir hvaða leið er valin; þær allar erfiðar öllum sem ætla yfir. Enginn skyldi gera áætlanir um skotterí hér yfir án þess að vera 100% tilbúinn andlega og líkamlega. Því þó víða sé fólk að finna er vel hægt að að hjóla eða ganga hér klukkustundum saman án þess að hitta aðra lifandi sál. Það er því ekkert gefið að einhver geti komið til hjálpar ef eitthvað bjátar á. Í ofanálag er símasamband takmarkað í dýpstu dölum Pýrenea.
Kjánalegt er að reyna hjóla- eða göngutúr hér yfir að vetrarlagi. Í meðalári er hér allt á kafi í snjó sem gerir auðvitað allt erfiðara en ella. Snjóa leysir þó almennt að mestu strax í mars eða byrjun apríl. Hvað færð varðar er auðvitað best að skottast í júní, júlí eða ágúst en þá kemur annað vandamál til: hitinn. Það lítt skemmtilegt að gegnumsvitna á einni mínútu sléttri þegar sól stendur sem hæst.
Að því sögðu standa Pýreneafjöll hátt uppi og eðli máls samkvæmt er veðurfar á fjöllum hér, eins og heima, feitt breytilegt og jafnvel bestu veðurspár taka lítið mið af breytilegum áttum í 3000 metra hæð. Hitinn gæti því vel gert þér lífið leitt en að sama skapi er fljótt að verða skítkalt á þessum slóðum við tilteknar aðstæður á hásumartíma.
Hvar er vænlegast að byrja túr?
Spánarmegin halda flestir af stað frá borginni Girona í Katalóníu. Aðrir góðir byrjunarstaðir eru San Sebastían í Baskalandi eða Pamplóna í Navarra-héraði.
Sé för hafin Frakklandsmegin eru Toulouse og Carcassonne vinsælar og bærinn Foix er hvað næst fjöllunum. Margir kjósa líka að starta í borginni Pamiers.
Lítil mál er að smygla sér inn í hjólreiðarhópa gegnum netið og hjóla með öðru fólki. Mikill fjöldi hjólar hér um allar trissur og hjólaverslanir og eða verkstæði finnast nokkuð víða. Hjólaleigur finnast í helstu borgum og verðið jafnan sanngjarnt.
Hið eina sem fólk þarf kannski að hafa hugfast er gisting ef ekki er tjald eða útilegubúnaður meðferðis. Það finnst vissulega gisting á stöku stöðum í fjöllunum en ef margir eru á ferð verður oft uppselt með litlum fyrirvara. Hafa bak eyra að næturgisting gæti mögulega ekki verið í boði ef ekki er hjólað eftir stífu prógrammi. Og stíft prógramm er lítið skemmtilegt þegar þú vilt stoppa til að njóta náttúrufegurðar á fimm mínútna fresti.
Hvað tekur þetta langan tíma?
Það fer auðvitað eftir valinni leið en ekki síður formi hvers og eins. Það er jú auðvelt að hjóla úr sér lungun þegar allt er duglega upp í móti tugi kílómetra. Að því sögðu er algengt að ferðaþjónustufyrirtæki miði við átta til tíu daga og þá hjólað þetta fimm til sex klukkustundir per dag.
Tæknilega getur góður hjólreiðamaður komist yfir á tíu til fimmtán klukkustundum eða svo stystu leiðirnar en þá er hjólað eins og skrattinn sé á eftir manni og ekkert gaman að því. Nær lagi er að njóta og til þess þarf að taka sér þetta þrjá til fjóra daga hið minnsta stystu leiðirnar. Kjósi fólk eitthvað einfalt er hægt að komast milli borganna Bayonne og San Sebastian á einum degi án þess að klára lungun. Á milli eru ekki nema 50 til 60 kílómetrar en hæðarmunur er rúmlega 600 metrar. Einn úr ritstjórn hefur hjólað þá leiðina og naut vel. Sömuleiðis er dagsferð frá Girona yfir til Perpignan en þar er fólk tæknilega ekki að fara yfir fjöllin mikið.
Bon voyage 🙂