Skip to main content

F áar borgir eru jafn yndislegar og Borg hinna dauðu, la Cite del Morts, sé ætlunin að spranga um þrönga fallega stíga og leyfa ímyndunaraflinu að leika lausum hala. Borg hinn dauðu er nafn Parísarbúa á kirkjugarðinum Pere Lachaise, Cimitiere du Pere Lachaise, í norðausturhluta borgarinnar.

Grafir í Pere Lachaise kirkjugarðinum í París. Að frátöldum þeim frægu einstaklingum sem hér hvíla er garðurinn sannarlega skoðunar virði. Mynd elvorcher

Grafir í Pere Lachaise kirkjugarðinum í París. Að frátöldum þeim frægu einstaklingum sem hér hvíla er garðurinn sannarlega skoðunar virði. Mynd elvorcher

Vissulega kann það að hljóma undarlegt að mæra gamlan kirkjugarð svo mjög en reyndin er sú að Pere Lachaise er vinsælasti kirkjugarður heims og þangað koma litlar tvær milljónir ferðamanna árlega að frátöldum þeim er leggjast þar til hinstu hvílu. Segja má að garðurinn sé bæði grafreitur og listasafn því hér er fjöldi skúlptúra og höggmynda sem forvitnilegt er að virða fyrir sér.

Þetta er stærsti kirkjugarðurinn í Parísarborg og fyrir utan að vera æði yndislegur til að spássera um og láta hugann reika liggja hér ótrúlega margir heimsþekktir einstaklingar. Það eru legstaðir þeirra sem draga þennan mikla fjölda fólks að og sumir hafa ívið meira aðdráttarafl en aðrir.

Fremstur meðal jafningja er tónlistarmaðurinn Jim Morrison úr hljómsveitinni Doors. Annar hvers leiði trekkir duglega dag hvern er leikritaskáldið Oscar Wilde. Nágrannar þessara tveggja látnu einstaklinga eru meðal annarra Marcel Proust, Edith Piaf, Maria Callas, Frederic Chopin, Honoré de Balzac og Molière að frátöldum öðrum minni spámönnum.

Garðurinn einn og sér er ótrúlega fallegur með þrönga stíga og fallega varðveitta legsteina og minnismerki. Eru reyndar nokkur minnismerki hér á þjóðminjaskrá Frakklands.

Þá er athyglisvert að skoða heimasíðu kirkjugarðsins sem er ferðamannavænni en hefðbundnar heimasíður kirkna og kirkjugarða. Þar má sjá helstu grafir frægra á korti og litast um mér sérstökum myndavélum. Óhætt er að koma við í eigin persónu jafnvel þó erfitt sé kannski að njóta friðar kringum þann fjölda fólks sem hér kemur flesta daga.

Fjórir inngangur er í garðinn en aðalinngangurinn er við Rue de Repos og þar má fá frí kort til að taka með sér. Garðurinn er opinn daglega milli 8:30 og 18 virka daga og 9 til 18 um helgar. Hingað er komist með strætisvögnum 26 og 27 eða með jarðlest 2 að Philippe Auguste.


View Pere Lachaise kirkjugarðinn í París in a larger map