Þ að þarf að hafa fyrir öllum góðum hlutum í lífinu. En oftar en ekki reynist erfiðið þess virði þegar takmarkinu er náð. Spyrjið bara þá sem klifið hafa hæstu fjöll heims, róið heimsins höf, gengið á Suðurpólinn, barist við krabbamein, eða reynt að fá þjónustu í Bónus.

Ströndin falda í augsýn eftir langa göngu. Playa de Masca. Mynd Javier Sachez Portero

Ströndin falda í augsýn eftir langa göngu. Playa de Masca. Mynd Javier Sachez Portero

Það þarf reyndar ekkert að leita að slíku fólki. Það ætti að nægja að spyrja þá sem heimsótt hafa fjallaþorpið Masca hátt uppi á eynni Tenerife og líka alla hina sem láta sig hafa þriggja til fjögurra stunda gönguna niður Masca dalinn til sjávar.

Masca, gríma á spænsku, stendur hæst allra byggða á Tenerife í rúmlega 600 metra hæð frá sjávarmáli og ekki langt frá stendur hæsta fjall Spánar, Teide, í tæplega 4000 metra hæð.

Teide er gamalt eldfjall og eins og sæmir slíkum skar það land hér kyrfilega þvers og kruss á sínum tíma. Sérstaklega vesturmegin þar sem enginn labbar svo glatt á ströndina í hægðum sínum eins og annars staðar á eynni. Þvert á móti er hér hið flóknasta mál að komast á strönd sökum fjalllendis og það hefur gegnum tíðina heillað ævintýragjarna.

Frá þorpinu sjálfu er dúndurútsýn og þorpið sjálft frábært.

Frá þorpinu sjálfu er dúndurútsýn og þorpið sjálft frábært.

Þorpið Masca er af mörgum talið hið fallegasta á eynni og þótt víðar væri leitað.

Þar búa aðeins um hundrað manns og þar æðislegt að dvelja stundarkorn ef engar eru rúturnar að ferja túrista allan daginn eins og vill verða yfir háannatímann. Þrátt fyrir smæð er hér lítill ljúfur veitingastaður/kaffihús og heimamenn ófeimnir að brosa þó fæstir séu mælandi á annarri tungu en spænsku.

Mörgum þykir helst til flókið að aka upp brattar hlíðar að þorpinu en vegirnir eru þröngir og stutt í frítt fall langa leið ef bílstjórinn er ekki með á nótum. Mörg dæmi eru um ferðamenn á bílaleigubílum sem snúa við áður en komist er alla leið. Hingað er líka komist með rútum reglulega yfir daginn og margar ferðaskrifstofur bjóða hingað ferðir líka.

En helsta aðdráttarafl Masca er þó gönguleiðin að Mascaflóa eða Mascaströnd frá þorpinu. Það er nokkuð flókin ganga sem tekur frá tveimur stundum fyrir þá sem eru í fínu formi og upp í fjórar stundir fyrir suma. Hér þarf að klöngrast yfir kletta og læki, klifra, sveigja og beygja og þá er enn eftir að komast niður á strönd þegar göngunni er lokið. Þar er skrambi bratt niður þó ekki sé það neitt fyrir atvinnumenn.

Gangi allt eftir er komist niður á einu strönd landsins sem algjörlega er lokuð af klettabeltum í kring og ekki er óþekkt að nektarunnendur nýti sér það og sprikli hér áhyggjulaus.

Í boði er á annatímum að taka gönguna og láta sækja sig á bát þegar komið er niður á strönd. Það kemur í veg fyrir að klöngrast þurfi alla leið til baka og þá upp á við.

Fararheill mælir eitt hundrað prósent með túr hingað til Masca og sé fólk heilt heilsu og til í ævintýri er göngutúrinn fantagóður. Bara gæta þess að forðast að ganga þegar sól er hæst á lofti og taka með eins mikið vatn eða vökva og þú getur borið.