Tíðindi

Heitustu borgirnar 2011 fyrir Íslendinga

  04/01/2011september 30th, 2014No Comments

Nýtt ár og þúsundir blaða og tímarita birta greinar um heitustu áfangastaðina fyrir ferðamenn árið 2011. Sumir listanna frábærir, aðrir töluvert minna og enn aðrir rakalaust rugl. Enginn þeirra tekur sérstaklega mið af Íslendingum.

Fararheill.is gerir það hins vegar og fyrir neðan er val ritstjórnar fyrir ákjósanlegar borgir til að heimsækja á nýju ári. Þær eru allar ákjósanlegar fyrir margra hluta sakir og við færum góð rök fyrir máli okkar.

1. Tallinn, Eistland

Það hefur alltaf verið nóg að gera í Tallin en þetta árið er sérstaklega mikið á seyði. Evran varð gjaldmiðill landsins um áramótin, Tallin er Menningarborg Evrópu þetta árið og um leið eru 20 ár liðin frá því að landið slapp undan rússnesku oki og fékk sjálfstæði.

Ekki er heldur amalegra að forseti landsins hefur sérstaklega boðið Íslendinga velkomna enda Ísland fyrsta landið sem viðurkenndi sjálfstæði Eistlands á sínum tíma og ritstjórn Fararheill getur vottað að maðurinn úti á götu man eftir því. Þá fer nettur sæluhrollur um marga sem labba um Íslandstorg, Islands väljak, sem er opið torg fyrir framan utanríkisráðuneyti landsins.

Síðast en alls ekki síst er Tallin fyrir alla. Fyrir þá eldri má enn sjá rússnesk hverfi hér og rústir ýmsar bera þess merki að Eistar hafa ekki verið ýkja heppnir gegnum tíðina. Fyrir konurnar er þetta draumaborg því hér eru fínar verslanir á tiltölulega litlu svæði og verðlag í borginni með því allra besta sem gerist í Evrópu. Fyrir unga fólkið er djammið hér með því allra besta og engin tilviljun að eftir að lágfargjaldaflugfélögin hófu að fljúga hingað er Tallin eitt heitasta helgarstopp í allri Evrópu.

Ekki er beint flug frá Íslandi til Tallin. Einfaldast er að fara þangað gegnum Helsinki í Finnlandi eða London í Englandi.

2. Dublin, Írland

Meðan góðærið rokkaði sem mest á Írlandi síðustu tíu ár eða svo var hvorki Dublin né aðrir staðir í landinu ýkja sniðugir heimsóknar enda hækkaði verðlag þar með sama hætti og hér á landi. Nú er draumurinn hins vegar runninn út í sandinn og Írar þurfa pening og það mikið af honum.

Dublin er ekki aðeins prímastaður fyrir vinnuhópa eða vinahópa sökum þess hve þangað er fljótfarið heldur og vegna þess að þetta er skemmtileg borg og Írarnir fá yfirleitt þá einkunn að vera ívið vinsamlegri almennt en frændum þeirra hinu megin Írlandshafsins í Bretlandi.

Gnótt skemmtilegra bara og knæpa og úrvalið á þeim flestum meira tími gefst til að prófa með góðu móti. Ekki síður eru golfáhugamenn í góðum málum hér enda auðvelt að aka um og margir fyrirtaks vellir í grennd við Dublin. Þá þurfa verslunaróðir ekki heldur að kvarta því verðlag í borginni tekur nú mið af tómum veskjum borgarbúa og verð eru mun hagstæðari orðin en í Englandi eða Evrópu.

3. Lissabon, Portúgal

Örlítið meira vesen er að komast hingað þar sem ekki er um beint flug að ræða frá Íslandi. En flogið er til Spánar og þaðan er með lagni hægt að finna flug frá stærri borgum beint til Lissabon vel undir fimm þúsund krónum ef vel er að gáð. Frá Madrid sem dæmi er flugtíminn rétt rúm klukkustund og rúta frá Sevilla er hingað komin á sex klukkustundum.

Lissabon er kjaftfull af minjum og byggingum sem gleðja augu velflestra og Íslendingum hefur seint þó leiðinlegt að sötra kaldan bjór í hitanum og í miðbænum er vart þverfótað fyrir slíkum eðalbörum víða. Matur er hér einstaklega ódýr og þríréttað á virkilega góðum veitingastað í miðbænum með víni í september síðastliðnum kostaði svo mikið sem 3.800 krónur. Síðan þá hefur verðlag lækkað.

Einhverjar bestu strendur Portúgal eru skammt frá Lissabon í Cascais og lestarferðin þangað engu lík. Þá er tiltölulega auðvelt að eyða degi eða dögum á Expo svæðinu í norðurhluta borgarinnar en þar fór fram Heimssýningin 1998 og þar er meðal annars stærsta sædýrasafn Evrópu.